Hvers vegna lesum við glæpasögur? Er það til að næra spennufíknina, glíma við að leysa ráðgátur eða til að upplifa nokkurs konar hreinsun eða kaþarsis þegar hið illa fær makleg málagjöld? Eru glæpasögur spegill samfélags, leið til að kafa í sálardjúp manneskjunnar eða næring fyrir gægjuþörfina? Sennilega sitt lítið af hverju þessu og eitthvað allt annað og meira í tilbót. Þessum spurningum og raunar mörgum fleirum er velt upp og sumum svarað á námskeiðinu, Íslenskar glæpasögur í meira en heila öld, sem nú stendur yfir hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Eitt af því sem kemur á óvart á þessu skemmtilega námskeiði er hve fljótir Íslendingar voru að kveikja á nýrri bókmenntagrein. Murders in the Rue Morgue, smásaga Edgars Allan Poes, birtist í Graham‘s Magazine árið 1841 og árið 1890 kom fyrsta glæpasagan út á íslensku hjá útgáfufélaginu Lögbergi í Winnipeg. Það var Myrtur í vagni eftir Fergus Hume. Bókin barst hingað og var mikið lesin. Baskerville hundurinn eftir Sir Arthur Conan Doyle kom svo út á íslensku árið 1911 en ári áður höfðu Íslendingar sjálfir að byrjað að skrifa glæpasögur. Smásagan Íslenskur Sherlock Holmes eftir Jóhann Magnús Bjarnason birtist einnig fyrst í Íslendingabyggðum vestanhafs en samskipti voru það mikil á milli að hingað barst fljótt það sem áhugavert þótti í Íslendinganýlendunum.
Einar Skálaglamm ríður svo næstur á vaðið með bókinni Húsið við Norðurá, næst koma nokkrar bækur undir yfirskriftinni, Leyndardómar Reykjavíkur en þar fá lesendur að kíkja undir yfirborðið í hinni spilltu höfuðborg landsins og kynnast sollinum og glæpum er þar eru framdir. Svo kemur til sögunnar Krummi nokkur Jónsson til sögunnar, einstakt glæsimenni og bráðsnjall spæjari. Valur Vestan skrifaði um hann þrjár bækur sem lesendur hreinlega gleyptu í sig.
Trúverðugleikinn eykst
Svo verður hlé á útgáfu og framleiðslu íslenskra glæpasagna. Líklegasta skýringin er án efa svo að á stríðsárunum hafði fólk um nægan annan hrylling að hugsa en þann sem finnst á blöðum í bók. Spennan í andrúmsloftinu hefur svo ábyggilega nægt flestum. Á árunum eftir stríð var yfirleitt friðsælt og tíðindalaust hér á landi og fáir trúðu að eitthvað líkt því sem gerðist og gekk í sakamálasögum gæti átt sér stað í þessu litla, þétta samfélagi þar sem nánast allir þekktu alla. Á áttunda áratug síðustu aldar fer það hins vegar að breytast og þá skapast frjór jarðvegur fyrir ráðgátur, spennusögur, hrollvekjur og löggusögur. Í dag er árlega gefnar út fjöldinn allur slíkra bóka bæði eftir íslenska höfunda og þýddar erlendar sögur.
Lengi framan af glímdu íslenskir höfundar við trúverðugleikavanda. Fólk átti einfaldlega erfitt með að trúa að morð og stórfelld eiturlyfjaviðskipti ættu sér stað á litla Íslandi. Sá vandi er horfinn. Íslenskar glæpasögur eiga sér sterkar rætur í norrænni glæpasagnahefði og sækja þangað næringu en hafa einnig séríslenskan blæ sem höfðar til fleiri en íbúa þessa lands. Margt fleira má spennandi má uppgötva og fræðast um í tengslum glæpasögur og Katrín Jakobsdóttir er óspör á sérþekkingu sína. Undanfarna áratugi hefur þessi bókmenntagrein fengið á sig meiri virðugleikablæ og betri höfundar munda penna og skila verkum sem eru bæði vekjandi og eiga erindi inn í samtímasinn. Glæpasögur eiga sér aðdáendur um allan heim, sumum finnst raunar engin afþreying jafnast á við hana. Nemendur Katrínar eru í þessum hópi og af nógu er að taka. Það má hella sér ofan í krufningu á tegundum glæpa, manngerðinni sem rannsakar þá, samfélagssýninni, spennuþættinum, hryllingnum og sálfræðinni. Allt þetta er efni í framhaldsnámskeið.
Margrét og Helen Steinarsdætur skrifa fyrir Lifðu núna.