Þeir sem eru orðnir 65 ára og eldri geta nú tekið hálfan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun (TR) á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðunum. Breytingin tók gildi um áramót. Það þarf þó að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá breytinguna í gegn. Ein er sú að allir lífeyrissjóðir, innlendir og erlendir, sem viðkomandi á rétt í verða að samþykkja töku á hálfum lífeyri. Að samanlögð réttindi frá öllum lífeyrissjóðum og TR séu að lágmarki jöfn fullum ellilífeyrir hjá Tryggingastofnun og að greiðslur frá TR og lífeyrissjóðunum hefjist samtímis. Það merkilega er ef til vill að tekjur hafa ekki áhrif á greiðslur hálfs lífeyris og því þarf fólk ekki að skila inn tekjuáætlun til Tryggingastofnunar. Það gildir um allar skattskyldar tekjur svo sem atvinnutekjur, lífeyristekjur og fjármagnstekjur. Fólk má því vinna samhliða töku hálfs ellilífeyris.
Þeir sem eru að velta fyrir sér þessum möguleika að taka hálft og hálft ættu að hafa í huga að TR segir á heimasíðu sinni að meginreglan sé að taka ellilífeyri við 67 ára aldur. Ef valið sé að taka hálfan ellilífeyri fyrr eða seinna komi til sérútreikninga. Sé töku flýtt til 65 ára aldurs komi til lækkun á þann hluta sem tekinn er og frestaði hlutinn hækkar sé honum frestað fram yfir 67 ára aldur. Kjósi fólk að fresta töku lífeyris til áttræðs komi til hækkun á þann hluta sem tekinn er eftir 67 ára aldur og frestaði hlutinn haldi áfram að hækka þar til fullur ellilífeyrir er tekinn. Nánari upplýsingar er að finna hér á heimasíðu Tryggingastofnunar.