Það er áhugavert að skoða hvaða greinar voru mest lesnar hér á Lifðnu núna vefnum, á árinu sem er að líða. Vefurinn hefur verið í gangi í eitt og hálft ár og þar hefur birst fjöldi greina um aðstæður og líf fólks sem er komið yfir miðjan aldur. Lítum á hvaða sex greinar voru vinsælastar á árinu:
1.Karlinn sem fór á undan og konan sem varð eftir
Það kemur kannski á óvart, eða kannski alls ekki á óvart, að brandari Níelsar Árna Lund á sparidögum fyrir eldri borgara á Hótel Örk í fyrravetur, var mest lesinn af öllu efni síðunnar á þessu ári, en hann hljóðar þannig:
Hjónin ákváðu að fara í sólarlandaferð.
Svo illa stóð á að konan komst ekki fyrr en nokkrum dögum seinna svo eiginmaðurinn fór á undan. Þegar hann er kominn á hótelið tekur hann upp fartölvuna og skrifar tölvupóst til konu sinnar. Ekki vildi betur til en svo að hann misritaði einn staf í póstfanginu og lenti pósturinn því óvart hjá nýorðinni ekkju sem fyrr um daginn hafði jarðað manninn sinn. Veslings konan var rétt að jafna sig eftir athöfnina, opnaði tölvupóstinn sinn til að líta eftir samúðarkveðjum er við henni blasti bréfið. Þegar sonur ekkjunnar kom heim stuttu seinna, lá hún í yfirliði fyrir framan tölvuna og stóð eftirfarandi ritað yfir skjáinn:
Til: Konunnar sem varð eftir.
Frá: Manninum sem fór á undan.
Efni: Er kominn á áfangastað.
Elskan, er kominn á staðinn heill á húfi. Er einnig búinn að kynna mér allar aðstæður og gera allt klárt fyrir komu þína á morgun. Óska þér góðrar ferðar og bíð þín með óþreyju.
Ástarkveðjur, þinn ástkæri eiginmaður.
P.S. Fjandi er heitt hérna niðurfrá
2.Ókeypis falskar
Pistill Auðar Haralds rithöfundar undir fyrirsögninni Ókeypis falskar, var næst mest lesinn. En í honum lýsir Auður því að það sé enginn vandi að lifa á örorku- eða ellilífeyri, þegar bæturnar nái 150 eða jafnvel 180 þúsundum á mánuði! Örfáar, einfaldar aðgerðir í tíma gjöri afkomuna að léttum leik, já, lífi í munaði:
Uppúr fimmtugu eruð þið hætt að kaupa plastpoka undir matinn og notið tuskur í stað eldhúsrúllunnar.
Þegar örlátir afkomendur ykkar vilja gefa stjórgjafir á sextugsafmælinu, þá biðjið þið um, að frjálsu vali gefanda, þvottavél, ísskáp eða eldavél. Tækið er svo sett geymsluna. Þetta er endurtekið á 65 ára afmælinu og fer einnig það tæki í geymsluna. Þá eru komin tvö af þremur nauðsynlegustu heimilistækjunum. Sjálf kaupið þið svo tvær vara-ryksugur og eitt vara-sjónvarp á ústölum á síðustu tveimur árunum.
3. Sjálfhverfa kynslóðin óttast gamalt fólk
Viðtal Lifðu núna við Bryndísi Hagan Torfadóttur, sem sagði sjálfhverfu kynslóðina óttast gamalt fólk var mikið lesið. Þar segir Bryndís meðal annars.
Í dag fer fólk í færnismat, en það er ekki fyrr en það er orðið háaldrað og fársjúkt sem það kemst í slíkt mat, þá er metið hversu mikla hjálp fólk þurfi á að halda heima. Fólk þarf að vera fárveikt og útúr heiminum til að það komist komist inn á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Raunar segir Bryndís að það sé búið að breyta flestum dvalarheimilunum í hjúkrunarheimili. „Það er ætlast til að allir geti verið heima í „faðmi fjölskyldunnar“ og andast þar. Þetta er bull og þvæla, það er margt gamalt fólk aleitt og einmanna heima. Fólk sem enginn hefur vilja eða tíma til að sinna um.
Sjá viðtalið við Bryndísi hér.
4.Uppsögnin var ofboðslegt högg
Jennýju Olgu Pétursdóttur tölvara á Veðurstofu Íslands var sagt upp störfum ásamt fleiri eldri starfsmönnum í apríl síðast liðnum. Uppsögning var mikið högg að hennar sögn og lesendur Lifðu núna lásu viðtalið mikið.
Ég stefndi að því að fara í hálft starf á Veðurstofunni. Síðustu dagarnir þar voru ekkert sérstaklega erfiðir. Maður var búinn að taka út reiðina og pirringin. Vinnan hefur verið mín lífsfylling og það fylgir því mikil sorg að missa hana. Þetta er ofboðslega erfitt en þó betra að því leyti að mér var ekki sagt upp einni heldur fór allur hópurinn á einu bretti. Það hefði ekki þurft að standa svona að málum. Við vorum tvö um sextugt hinir voru að nálgast starfslok. Það hefði verið hægt að leyfa okkur að vinna fram að sjötugu. Ég er í góðu formi og hefði vel treyst mér til þess. Maður er ekkert tilbúinn að hætta að vinna og skerðast verulega í launum,“ segir hún.
Viðtalið við Jennýju má sjá í heild hér
5.Tekur eitt og hálft ár að verða gráhærður
Grátt hár er lesendum Lifðu núna hugleikið, það er spurningin um hvort leyfa eigi hárinu að grána eðlilega eða hvort það sé rétt að lita það. Hárgreiðslumeistarinn Elsa Haraldsdóttir gaf ráð og upplýsingar um, hvernig það gengur fyrir sig að leyfa gráa hárinu að vaxa út. Þetta var mjög vinsæl grein, sem lesa má í heild hér. En þar segir Elsa meðal annars.
Það er margt sem þarf að huga að þegar hárið fer að grána, til dæmis hvaða hárlínu menn vilja hafa og hvað klippingu. Förðun skiptir líka máli. Elsa segir að margir geri sér ekki grein fyrir hvað hárið er stór hluti af útlitinu. Menn þurfi að athuga hvort hárið sé til dæmis í samræmi við stílinn og litina sem þeir klæðist. Það sé samt ekki hægt að slá því föstu fyrirfram að gráhærð kona eigi til dæmis ekki að vera í hvítu. Það geti farið ákveðinni manneskju vel, en ekki annarri sem hefur allt annan litarhátt.
6.sæti. Finnst samfélagið hafa svikið sig
Viðtalið við Svein Einarsson leikstjóra um líðan margra sem eru komnir á efri ár, vakti gríðarlega mikla athygli. Þar sagði hann meðal annars.
Maður tekur eftir því að samfélagið á í vandræðum með okkur“, segir hann. „Við erum orðin svo mörg, það var ekki reiknað með því að læknar myndu halda lífinu í okkur svona lengi. En samfélagið hefur ekki vit á að nota þá reynslu og þekkingu sem við búum yfir. Þess vegna verður eldra fólk útundan, það verður „málaflokkur“ eins og við erum stundum kölluð. Ég sé suma jafnaldra mína, það sækir að þeim þunglyndi þegar þeir sjá að þeir eru ekki lengur með í samfélaginu, að samfélagið er búið að losa sig við þennan málaflokk“, segir Sveinn. „Eldri kynslóðin er gríðarlegur varasjóður og það þarf að finna aðferðir til að nýta betur krafta fólks sem lifir lengur og við betri heilsu en áður“.