Undanfarin ár hefur skaðast sú hefð að taka saman í byrjun nýs árs þær greinar sem lesendur vefjarins Lifðu núna hafa sýnt mestan áhuga á árinu sem er að líða. Við bregðum ekki út af þeim vana í ár en í fyrsta sæti er grein um þær flækjur sem fylgja því þegar fólk tekur saman eftir miðjan aldur.
Um var að ræða viðtal við þau Jóhönnu V. Þórhallsdóttur og Óttar Guðmundsson lækni en þau náðu saman seint á ævinni þótt þau hafi þekkst mun lengur. Hið skemmtilega var að viðtalið var endurbirt og var frá árinu 2017. Undir yfirskriftinni Fókus, tekur ritstjórnin vikulega saman áhugaverðar greinar úr safni Lifðu núna og gefur lesendum kost á að rifja þær upp eða lesa ef þær hafa farið framhjá þeim þegar þær fyrst birtust. Viðtalið við Jóhönnu og Óttar má lesa í heild sinni hér: https://lifdununa.is/grein/floknara-thegar-folk-tekur-saman-a-sidari-hluta-aevinnar/
2. Hvað segja marblettir um heilsu þína? var yfirskrift þeirrar greinar sem fékk næstflesta smelli á síðastliðnu ári. Þar var fjallað um hvort ástæða væri til að fylgjast með marblettum og hvað gæti valdið því að fólk merðist auðveldlega. Greinina má lesa í heild hér: https://lifdununa.is/grein/hvad-segja-marblettir-um-heilsu-thina/
3. Í þriðja sæti var pistill Dr. Sigrúnar Stefánsdóttur um þær ógöngur sem hún rataði í þegar hún ákvað að klifra upp á háaloft til að sækja ferðatösku. Hún komst að því að líklega yrði hún að sætta sig við að hún væri ögn eldri en tuttugu og fimm ára. Pistil Sigrúnar má lesa hér: https://lifdununa.is/grein/mamma-thu-ert-ekki-lengur-25-ara/
4. Í fjórða sæti er viðtal við Bubba Morthens um það hvernig hann hefur nýtt áföll lífsins til að byggja sig upp og læra af þeim verðmætar lexíur. Þar segir hann:
,,Ég hef aldrei litið á mig sem sjúkling en hjartaáfallið var sannarlega afleiðing slæms lífernis. Ég reykti bæði og drakk í mörg ár fyrir utan önnur fíkniefni og þá er ekki von á góðu,“ segir Bubbi og bætir við að hann hafi strax verið ákveðinn í því að ná fyrri heilsu til baka ef þess væri nokkur kostur. ,,Ég er nú í betra formi en hjartalæknirinn minn,“ segir hann og hlær. ,,Ég sagði við þann góða mann að þetta áfall gæti ekki hafa gert mér nema gott eins sérkennilegt og það hljómar. Þetta var enn ein viðvörunin og kenndi mér rækilega að forgangsraða í lífinu. Ég tók ábyrgð á því sem kom fyrir mig og hlusta ekki á úrtölur. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að ég vilji deyja í góðu formi en ekki lélegu,“ segir hann og brosir.
Hér má lesa viðtalið í heild: https://lifdununa.is/grein/hjartaafallid-gerdi-mer-ekkert-nema-gott-segir-bubbi-morthens/
5. Viðar Eggertsson skrifaði áhugaverðan og einlægan pistil um hvernig hlutskipti bíður hinsegin fólks þegar aldurinn færist yfir á Íslandi. Pistillinn var mikið lesinn og deilt víða. Þar sagði hann meðal annars þessa sögu af vini sínum sem býr í búsetukjarna fyrir eldra fólk.
„Vinur minn einn býr á slíkum kjarna og þar er auðvitað fyrir fólk sem er á svipuðum aldri og hann eða eldra. Skyndilega var hann aftur kominn í sömu stöðu og sem ungur maður þegar hann var einn sem stóð í mannréttindabaráttu Samtakanna 78. Þá þurfti hann að líða einelti og hatursorðræðu sem hann hafði kjark og dug til að berjast gegn. Hann er að upplifa þessa tíma aftur inni á íbúðakjarnanum og er að einangrast þar. Því hann lokar að sér og lætur lítið fyrir sér fara, því hann heyrir hvískrið, sér bendingar og augngotur. “
Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa pistil Viðars þá er hann hér: https://lifdununa.is/grein/eg-verd-ad-hrokklast-inn-i-skapinn-aftur-eg-thori-ekki-annad/
6. Elliblettir eru hvimleiðir og þeir fara í taugarnar á mörgum. Til eru náttúrulegar leiðir til að deyfa þá og jafnvel losna alveg við þá í sumum tilfellum. Grein um hvernig fara megi að því hlaut mikinn lestur á liðnu ári og er í sjötta sæti yfir mest lesnu greinarnar. Hér má lesa um elliblettina og náttúrulegar leiðir til að losna við þá: https://lifdununa.is/grein/losnadu-vid-elliblettina-a-natturulegan-hatt/
7. Dr. Sigrún Stefánsdóttir skrifaði einnig pistil um hvar væri við hæfi að konur tækju upp prjónana sína og hvar ekki. Þær áhugaverðu vangaveltur voru mikið lesnar og margir lögðu orð í belg í umræðu um þær. Hér má lesa pistilinn: https://lifdununa.is/grein/hvar-mega-konur-prjona/
8. Ásdís J. Rafnar skrifaði um fyrirframgreiddan arf á Lifðu núna fyrir nokkrum árum en efni greinar hennar er enn í fullu gildi og margir sem hafa áhuga á að kynna sér hana. Hún var í áttunda sæti yfir mest lesna efni vefjarins. Hér má fá upplýsingar um fyrirframgreiddan arf: https://lifdununa.is/grein/fyrirframgreiddur-arfur/
9. Köld böð eru mjög í tísku ef þannig má að 0rði komast en margir telja þau allra meina bót. Sagt er að kuldinn dragi úr bólgum og verkjum og sé almennt bæði hressandi og heilsusamlegur. Lifðu núna fjallaði um köld böð og heilsuávinning þeirra: https://lifdununa.is/grein/eru-kold-bod-eins-heilsusamleg-og-sagt-er/
10. Í tíunda sæti yfir þær greinar sem hvað mestrar athygli nutu á síðasta ári er önnur grein úr safni Lifðu núna. Hún fjallar um hvernig halda megi hárinu, þessari höfuðprýði, þykku og fallegu fram eftir öllum aldri. Þá grein má lesa hér: https://lifdununa.is/grein/ad-halda-harinu-thykku-og-fallegu/