Svefnleysi getur haft mikil áhrif á líkamlega heilsu okkar, tilfinningalíf og andlega líðan. Að sofa lítið getur haft áhrif á matarlyst, þyngdarstjórnun, einbeitingu og þeir sem sofa of lítið verða gjarnan stressaðir. Svefnleysið getur líka haft áhrif á hormónabúskap líkamans. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að ná að sofa vel og hæfilega lengi. Hér eru nokkur ráð til að fá góðan nætursvefn.
- Komið ykkur upp ákveðinni rútínu. Reynið að kyrra hugann áður en þið farið upp í rúm með því að lesa bók, hugleiða eða fara í gott bað. Það hjálpar líka mikið til að fara alltaf að sofa á sama tíma.
- Slökkvið á öllum raftækjum sem gefa frá sér bláa birtu að minnsta kosti klukkutíma áður en þið farið upp í rúm. Bláa birtan hefur áhrif á framleiðslu melatóníns í líkamanum. En það á þátt í að stjórna blóðþrýstingi og því hvenær við verðum syfjuð. Forðist að hafa nokkurt það tæki í svefnherberginu sem gefur frá sér bláa birtu.
- Reynið eftir mætti að draga úr streitu í lífi ykkar. Ef þið ráðið ekki við streituna, leitið þá læknis. Of mikil streita getur leitt til þess að fólk á erfitt með að festa svefn og loksins þegar fólk sofnar vaknar það upp á nóttunni við slæma drauma.
- Of mikil kaffidrykkja getur haft mjög slæm áhrif á svefninn og haft þau áhrif að fólk vaknar upp mörgum sinnum á nóttu. Það truflar djúpsvefninn vegna örvandi áhrifa þess á miðtaugakerfið. Áfengi hefur líka slæm áhrif á svefn. Vissulega hefur það slakandi áhrif og fólk fellur í djúpan svefn fyrri part nætur, en svo verður svefninn sundurslitinn seinni part næturinnar.
- Ákveðin næringarefni og fæða geta haft góð áhrif á svefn fólks. Magnesíum er til að mynda talið hafa náttúrleg róandi áhrif, en skortur á því getur valdið svefnleysi. Borðið því vel af grænu grænmeti og baunum, en slík fæða er rík af magnesíum. Kalíum er annað næringarefni sem getur haft áhrif á svefnheilsu okkar. Skortur á því getur valdið kvíða, pirringi, reiði og þunglyndi; skortur á þessu næringarefni getur því auðveldlega valdið svefnleysi. Fæðutegundir sem eru ríkar af kalíum eru sætar kartöflur, spínat og lárpera.