Jón Karl Ólafsson gekk í Rótaríhreyfinguna árið 2000 þegar hann flutti heim frá Þýskalandi þar sem hann hafði verið yfirmaður Icelandair í Evrópu í fimm ár. Við heimkomuna fékk hann boð um að ganga í Rótaríklúbb Reykjavíkur sem var stofnaður 13. september 1934 og er elstur Rótaríklúbba á Íslandi. Jón Karl sá þarna tækifæri til að tengjast vel inn í samfélagið eftir að hafa verið fjarverandi í nokkur ár. ,,Klúbburinn okkar er níutíu ára gamall í ár sem er mjög vel gert því Rótaríhreyfingin var stofnuð í Bandaríkjunum fyrir 120 árum. Íslendingar voru því fljótir að tileinka sér fallega hugsun hreyfingarinnar og henni verðum við að viðhalda,“ segir Jón Karl. Hann bætir við að 23. febrúar næstkomandi verði 120 ára afmæli ,,Rotary International“ og þá verði Rotarídagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim.
Jón Karl hefur verið virkur í starfi klúbbs síns og var svo beðinn um að vera aðstoðarumdæmisstjóri fyrir nokkrum árum. ,,Í framhaldinu var svo farið að ræða möguleikann á að ég tæki að mér starf umdæmisstjóra. Maður segir ekki nei við Rótarí,“ segir Jón Karl og brosir og hann tók við umdæmisstjórastarfinu þann 1.júlí s.l. ,,Ég er í þessu af því ég vil láta gott af mér leiða og það á við aðra sem eru meðlimir í þessari hreyfingu.“
Sjálboðaliðastarf er gefandi
Jón Karl ætlar að nálgast starf umdæmisstjóra með því að taka fyrir Rótarístarfið eins og það byrjaði, skoða hvernig til hefur tekist og horfa fram á veginn og gera sér í hugarlund í hvaða stöðu Rótaríhreyfingin verður eftir fimmtíu ár. ,,Það er full ástæða til að vera stolt af Rótaríhreyfingunni því sagan er full af glæsilegum afrekum sem gott er að halda á lofti. Nú eru að verða þjóðfélagsbreytingar sem koma meðal annars fram í starfinu í Rótarí. Fólk er síður viljugt að leggja á sig sjálfboðaliðastörf en áður. Margir vilja gjarnan borga sig frá hlutunum eða þykir bara sjálfsagt að einhverjir aðrir sjái um verkefnin. Það má sjá merki um þetta sama í íþróttahreyfingunni og í foreldrastarfi í skólum. Almennt séð virðist vera minnkandi áhugi á að ,,eyða“ tíma sínum í sjálfboðaliðastörf sem eru þó svo mikilvæg. Þjóðfélagið hefur hingað til byggt mikið á þessum störfum og nægir að nefna björgunarsveitirnar sem við vitum öll að við gætum ekki verið án. Svo eru það félagasamtök eins og Rótarí, Kiwanis og Lions og fleiri sem hafa verið í góðgerðarhlutverki í þjóðfélaginu. Þessi samtök eru nú í ákveðnum erfiðleikum með að endurnýja sig.“
Saga Rótarí á Íslandi stútfull af fallegum sögum
,,Samtalið við yngra fólk um hvers virði það er að ganga í samtök eins og Rótarí þarf að eiga sér stað,“ segir Jón Karl. ,,Það eru skilaboð mín nú til klúbbfélaga Rótarí,“ en Jón Karl er um þessar mundir að heimsækja alla Rótaríklúbba á landinu. ,,Það er gríðarlega fræðandi að vera í Rotary því á hverjum fundi halda spennandi fyrirlesarar erindi og síðan gerir fólk sér almennt ekki grein fyrir því hversu rosalega stór mannúðarsamtök Rótarí eru. Fyrir hverja krónu sem við leggjum í sjóð leggur Bill Gates, stofnandi Microsoft, til tvær krónur. Þetta skapar ómetanleg tækifæri og sem dæmi má nefna að nú hafa um tuttugu milljón börn verið bólusett við lömunarveiki (Polio).
Rótarý tók að sér að útrýma lömunararveiki heiminum fyrir utan fjölda annarra verkefna sem samtökin hafa tekið að sér. Heimurinn er því miður ekki á leiðinni að auknum friði og velsæld um þessar mundir svo Rótary tók að sér að útrýma lömunarveiki og verkefnin eru sannarlega næg. Rótarí á Íslandi er í góðum málum í dag en við verðum að vinna saman að því að viðhalda þessu góða starfi og snúa við þróun í fækkun félaga, sem aðeins er farið að bera á.“
Tónlistin í lífinu
Jón Karl hefur farið ótroðnar slóðir í lífinu og ekki látið aðra segja sér hvernig gera á hlutina svo töluverðar líkur eru á að honum takist ætlunarverk sitt með Rótaríhreyfinguna á Íslandi. Tónlist hefur leikið stórt hlutverk í lífi Jóns Karls en hann hóf píanónám ungur að árum og þótti jafnvel margt benda til þessa, að ævistarfið yrði í tónlist. En klassískt píanónám átti ekki alveg við hann og það gekk stundum aðeins illa að spila lögin eftir nótum, eins og kennarinn vildi. Það varð fljótt skemmtilegra að spila eftir eyranu og þegar píanókennari hans var ekki sáttur við það hvernig Jón spilaði lögin sem honum þótti skemmtileg og reyndi að fá Jón Karl til að spila þau ,,eins og átti að spila þau“ hætti hann bara í náminu. Jón Karl hafði þá lært nógu mikið til að geta haldið áfram að spila eins og honum þótti skemmtilegast og er að því enn í dag með hljómsveit sem kemur saman einu sinni í viku og djammar. ,,Ég er nefnilega formaður í samtökunum SLORT sem er skammstöfun á nafninu Samtök Launa- og Réttindalausra Tónlistarmanna,“ segir Jón Karl og brosir. ,,Við hittumst einu sinni í viku og höldum svo tónleika og flytjum tónlist sem við höfum gaman af að spila, óháð því hvort fólk vill hlusta,“ segir hann og hlær. ,,Þetta er svo skemmtilegt og á meðan munum við halda áfram að leika okkur.“
Fjölskyldan virkjuð
Eiginkona Jóns Karls heitir Valfríður Möller og þau eiga fjögur börn sem þau eignuðust á 19 árum. Barnabörnin eru orðin 8 og Jón Karl segir fjölskylduna vera ríkidæmi sem ekkert jafnist á við. Hann segir brosandi frá því að hann sé smátt og smátt að leggja sitt af mörkum við fjölgun í Rotary með því að toga sitt fólk í samtökin.
Jón Karl hefur alla sína ævi tengst flugi og ferðaþjónustu og er enn svolítið starfandi á því sviði. Það er þó ekki meira en svo að nú hefur hann tíma til að taka að sér sjálfboðaliðastarf í Rótarí. Jón Karl fór í gegnum krabbameinsmeðferð fyrir nokkrum árum og segir að sú reynsla hafi eðlilega breytt viðhorfi sínu til lífsins. Hann var heppinn og naut góðs af nýjustu líftæknilyfjum og endurheimti heilsuna. ,,Reynslan að horfast í augu við þennan vágest sem krabbameinið er fær mann til að forgangsraða rækilega í lífinu. Eitt af því, sem verður svo ljóst, er að við þurfum öll að láta gott af okkur leiða til að samfélag okkar þrífist vel. Og hvaða leið er betri til þess en að tengjast mannúðarsamtökum eins og Rótarí,“ segir Jón Karl kankvís.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.