„Allar rannsóknir sýna að eldra fólk vill búa heima, en vantar til þess stuðning“. sagði Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, þegar hann kynnti á blaðamannafundi með heilbrigðisráðherra, nýsköpunarverkefnið Samfélagshjúkrun í dagþjálfun. Þetta verkefni á meðal annars að stuðla að því að gera eldra fólki á Akureyri kleift að búa enn lengur heima.
Ekki mögulegt að þjónustan verði áfram eins og áður
Eldri borgurum áttatíu ára og eldri mun fjölga um 45% á næstu 12 árum samkvæmt mannfjöldaspá Hafstofunnar, eða fram til ársins 2030. Það þýðir að rúmlega 5600 manns munu bætast í þennan aldurshóp. Á blaðamannafundinum kom fram að ekki er hægt að miða við að sama þjónusta við aldraða, verði áfram veitt með sama hætti og verið hefur, eða að jafn hátt hlutfall þeirra fari á hjúkrunarheimili og áður. Núverandi stofnanastefna á Íslandi væri gjaldþrota, líkt og hinar Norðurlandþjóðirnar hafa rekið sig á og meðal annars er bent á í nýlegri úttekt á vegum Embættis landlæknis. Birgir Jakobsson aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra benti á það á blaðamannafundinum að þjóðin væri vissulega að eldast, en á sama tíma hefði eldra fólk aldrei verið frískara en núna. Leggja þyrfti áherslu á heilsueflingu fyrir eldra fólk.
Þarf að hreyfa við fólki um land allt
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði það sérstaka ánægju að sjá þetta verkefni verða að veruleika. „Þetta er framsækið verkefni sem getur haft mikil áhrif á þróun öldrunarþjónustu á landsvísu ef vel tekst til“, sagði hún á fundinum og bætti við að verkefnið fæli ekki í sér útgjaldaauka, heldur væri verið að færa til fjármagn. Verkefnið á Akureyri felur í sér að notkun 10 hefðbundinna hjúkrunarrýma verður breytt í dagþjálfunarrými. „Við miðum við að fólk búi heima og þurfi frekari og fjölþættari stuðning til að búa áfram heima“, sagði Halldór Guðmundsson á fundinum.
Hjúkrunarrýmin geta dugað til 2033
Hjúkrunarrýmin 10 verða notuð til að veita eldra fólki einstaklingsmiðaðaða dagþjálfun, auka sveigjanleika og fjölga dögunum sem þjónustan er veitt, úr um 250 dögum í alla daga ársins. Halldór segir að það sé líka mikilvægt að auka stuðning og þjónustu við fjölskyldur eldra fólks og auka þannig samstarf milli opinberu þjónustunnar og fjölskyldna, en sá þáttur þjónustunnar hafi verið vanmetinn. Hann telur að með því að endurskipuleggja öldrunarþjónustuna myndi núverandi fjöldi hjúkrunarrýma, mögulega duga Akureyringum til ársins 2033 eða lengur.
Stofnanavæðing og „ofþjónusta“ getur verið skaðleg
Starfsmenn hafa orðið þess varir hjá Öldrunarheimilum Akureyrar að stundum finnst fólki að „pabbi eða mamma hafi ekki haft gott af hvíldarinnlögn“ vegna þess að þá hafi dregið úr virkni einstaklingsins. Þetta kemur meðal annars fram þegar einstaklingur sem hafi verið í dagþjálfun, sé lagður inná hjúkrunarheimili í hvíldarinnlögn, þá dragi úr virkni eða hann hætti að hreyfa sig. Hann hætti að annast venjubundnar daglegar athafnir svo sem að búa um sig, sækja kaffið sitt og svo framvegis. Þannig getur „ofþjónusta“ á hjúkurunarheimilinu verið skaðleg. Leggja þurfi meiri áherslu á virkni og hreyfingu og á því þurfi að skerpa í starfsháttum heimilanna. Starfið í dagþjálfun og nýja verkefninu, eigi að snúast um spurninguna „Hvað getum við gert fyrir þig til að þú getir verið lengur heima?“.
Líka hægt að sinna fólki heima
Halldór segir að ef það takist að fresta því um einn mánuð að fólk fari á hjúkrunarheimili, þýði það að ríkið spari eða fresti útgjöldum um sem nemi daggjöldum og stofnkostnaði hjúkrunarrýmis, eða um 1,2 milljónir króna. Ávinningur einstaklingsins og samfélagsins liggur í hagstæðari þjónustu og auknum lífsgæðum. Hann segir jafnframt að verkefnið um samfélagshjúkrun í dagþjálfun muni án efa hafa áhrif á bæði þjónustu heimahjúkrunar á Akureyri, og heimilisþjónustu fyrir eldra fólk. Hann segist vonast til að verkefnið leiði til meiri samþættingar í þjónustunni við að sinna eldra fólki heima.
Þessi sýn það sem koma skal
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisáðherra mun fela Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við Akureyringana um verkefnið og vonir standa til að unnt verði að hrinda því í framkvæmd í byrjun næsta árs. Hún segir mikilvægt að það sé skýr heildarsýn í málefnum aldraðra og að þjónustan sé dreifistýrð, sem er andstæðan við miðstýrða þjónustu. Hún segir að hvert samfélag þurfi að finna lausn á sínum málum. „Annars sitjum við uppi með gamlar lausnir“ sagði hún. „En við höfum kjarkinn til að taka fagnandi frumkvæði úr grasrótinni, breyta þjónustunni og laga hana að nútímanum“. Ráðherra telur það samt einnig hluta af framtíðarlausninni að byggja fleiri hjúkrunarheimili. Alltof margir aldraðir þurfi núna að búa allan sólarhringinn við aðstæður sem séu ekki hugsaðar fyrir þá, til dæmis á Landsspítalanum. Hún ítrekaði nauðsyn þess að miðla upplýsingum um Akureyrarverkefnið sem víðast og sagði. „Sýnin og áherslur í þessu verkefni eru það sem koma skal. Að við mætum fólkinu þar sem það er statt, þannig að það geti verið heima eins lengi og það vill og geti lifað með reisn alla ævi“.
Smelltu hér á upplýsingabanka Lifðu núna ef þú vilt afla þér frekari upplýsinga um hjúkrunarheimili og búsetu eldri borgara.