Á Íslandi er ekki til ákveðin nein stefna þegar kemur að ofbeldi og vanrækslu gegn öldruðu fólki, segir Elín Arnbjörnsdóttir í lokaverkefni sínu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún telur að ofbeldi gegn öldruðum sé hlutur sem þurfi að skoða og setja fram skýra stefnu til að koma í veg fyrir það. Margir í samfélaginu geri sér ekki grein fyrir því að ofbeldi og vanræksla gegn öldruðum viðgangist.
Hóta að yfirgefa hinn aldna
Enginn veit hversu margir aldraðir verða fyrir ofbeldi eða vanrækslu en rannsóknir benda til að tvö til tíu prósent aldraðra lendi í slíkum hremmingum. Í verkefni Elínar er ofbeldi skilgreint sem andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, auk fjárhagslegrar misnotkunar og vanrækslu. Andlegt ofbeldi lýsir sér meðal annars í því að gerendur nota orð eða framkomu sem er niðrandi fyrir hinn aldraða. Það getur einnig lýst sér í því að fólk fær ekki að taka ákvarðanir um eigið líf þótt það sé fullfært um það. Andlega ofbeldið getur líka lýst sér í hótunum um að fólk verði yfirgefið.
Lítið rætt um kynferðislegt ofbeldi
Líkamlegt ofbeldi er þegar gamalt fólk er barið, því er hrint eða það brennt. Það telst líka líkamlegt ofbeldi að binda einstakling fastan eða þvinga hann til að nærast eða taka lyf gegn vilja sínum. Elín segir að kynferðislegt ofbeldi sé það ofbeldi sem minnst sé rætt um. Umræðan um það þyki óþægileg en kynferðislegt ofbeldi gegn öldruðum sé staðreynd, þó fáir trúi því.
Stolið af gömlu fólki
Fjárhagslegt ofbeldi á sér margar birtingarmyndi en það er þegar einhver tengdur eða ótengdur hinum alraða misnotar aðstöðu sína til að ná fjármunum af honum. Einnig telst það fjárhagsleg misnotkun þegar gerandi, með yfirgangi misnotar eigur og aðstöðu hins aldna, hvort sem það er í formi þjófnaðar, falsana, kúgana eða okurs. Vanræksla á sér stað þegar fólk fær ekki næringu, klæði eða húsaskjól, læknisþjónustu, eða þegar persónulegu hreinlæti sé ábótavant. Elín segir að vanræksla sé sá flokkur ofbeldis gegn öldruðum sem er hvað algengastur.
Afleiðingarnar kvíði og þunglyndi
Elín segir að nýlegar rannsóknir bendi til að konur séu í meirihluta þolenda ofbeldis eða á bilinu eða 60 til 75 prósent. Skýringin á fjölda kvenna sé þó hugsanlega sú að þær segi frekar frá ofbeldi en karlar. Heilbilaðir eru í meiri hættu á að vera beittir ofbeldi en aðrir. Elín telur að afleiðingar ofbeldis geti verið mjög alvarlegar en þær geta verið kvíði, þunglyndi, sjálfsmorðshugleiðingar, skömm, samviskubit, óhamingja og félagsleg einangrun.