Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar
„Við erum með sláttuvélar fyrir hvers kyns rudda og graslúða,“ sagði í smáauglýsingu í nýlegu Bændablaði. Mér brá nokkuð þegar ég las þetta, taldi auglýsingunni hugsanlega beint til knattspyrnumanna sem vissulega hafa átt undir högg að sækja að undanförnu. Líklegra er þó að auglýsandinn hafi frekar átt við heldur önugt graslendi sem sláttuvélar hans réðu vel við því hann tók það jafnframt fram að vélarnar hentuðu einnig fyrir fína skrúðgarða.
Svona geta smáauglýsingar verið sérstakar og vakið ýmis hugrenningatengsl. Bændablaðið er eiginlega eini prentmiðillinn sem enn getur státað af smáauglýsingum eins og þær voru þegar ég byrjaði í blaðamennsku, fyrir margt löngu. Það var á Dagblaðinu, sem síðar sameinaðist Vísi og úr varð DV. Smáauglýsingar voru meðal meginstoða undir rekstri bæði Dagblaðsins og Vísis – og síðar DV, þegar það varð stórveldi á sínum bestu árum, á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar.
Ég minnist þess að biðröð smáauglýsenda náði langt út á götu síðdegis á föstudögum. Allt átti að seljast um helgina, bílar, húsgögn, verkfæri, varahlutir og raunar hvað sem nöfnum tjáir að nefna. Orðafjöldi auglýsinganna var takmarkaður en mynd fylgdi gjarnan af góssinu sem ganga átti í augu nýrra eigenda. Auglýsingarnar íþyngdu ekki pyngju hvers auglýsanda en margt smátt gerir eitt stórt þannig að hver smáauglýsingasíða skilaði drjúgu í kassa blaðsins.
Oft mátti lesa nokkra lífsreynslu úr auglýsingunum. Margur bíllinn var þar sýndur heldur framlágur og úr sér genginn, jafnvel í svo bágbornu ástandi að vart þýddi að fara með hann á bílasölu. En það mátti alltaf reyna að koma skrjóðnum í verð til einhvers handlagins sem sá verðmæti í hræinu. Aðrir voru að byrja að búa og auglýstu, fullir bjartsýni, eftir notuðum stofustólum, einhverju í eldhúsið og jafnvel svefnsófa svo kúra mætti saman í kjallaraholunni sem fengist hafði gegn vægu leigugjaldi. Svo var það hin hliðin, þegar auglýst var til sölu hálft hjónarúm. Þá fór vart milli mála að illa hafði farið hjá þeim sem áður höfðu valið sér rúm fyrir tvo.
Smáauglýsingarnar gátu því lýst bæði gleði og sorg – en hlutverk þeirra var þó að leiða saman seljendur og kaupendur. Þær voru markaðs- og sölutorg almennings. Með aðstoð þeirra var stuðlað að endurnýtingu hlutanna sem er okkur svo hugleikin í dag þegar okkur er orðið betur ljóst að við erum að ganga ansi nærri plánetunni sem hýsir okkur öll. Nú eru þessar auglýsingar að mestu komnar á netið – nema þær sem birtast í Bændablaðinu. Þar er þeim að sjálfsögðu aðallega beint að bændum og búaliði þar sem auglýstar eru dráttarvélar og ýmsir fylgihlutir og sérhæfð verkfæri, aðeins fyrir innvígða og innmúraða í bændastétt, innihrærur fyrir haugkjallara og taðdreifarar, svo ekki sé minnst á rúllugreip með glussatjakk eða faðmgreip fyrir stórar rúllur. Er þá fátt talið.
Inn á milli landbúnaðarsmáauglýsinganna í Bændablaðinu má þó finna margt af öðrum toga. Þar má til dæmis sjá andabúgarð auglýstan til sölu og flutnings. Tekið er fram að varpandastofn fylgi með ásamt litlum andahúsum. Sérstaklega er tilgreint að um sé að ræða rússnesk tréhús svo vel fari um bröbburnar.
Þá vantar einhvern varahluti í „svona gæðing“, eins og stendur í smáauglýsingu undir mynd af ansi lúnum 65 ára gömlum Chevrolet vörubíl. Af myndinni að dæma virðist gæðingurinn hafa tapað bæði tölt- og skeiðgetu því á hann vantar húdd, hurðir, frambretti og annað smálegt.
Fleiri bílaauglýsingar eru á smáauglýsingasíðum þessa nýlega Bændablaðs og ber þar hæst eðalvagninn Cadillac de Ville, árgerð 1983. Eigandi þessa nær þrítuga dollaragríns fullyrðir að bíllinn sé í góðu ásigkomulagi en hann neyðist til að selja gullvagninn vegna aðstöðu- og tímaleysis. Engan skal undra þótt kvartað sé undan aðstöðuleysi því húdd drekans eitt og sér er svipað langt og Yaris og skottlengdin annað eins. Ótalið er þá farþegarýmið sjálft sem rúmar marga rassa með góðu fótaplássi. Gúggúl sjálfur, sá sem allt veit, segir enda að glæsikerran sé nánast sex metra löng, svona eins og minni gerðir af rútum – sem rúma tuttugu farþega eða svo.
Gaman væri að láta það eftir sér, kominn á virðulegan aldur, að splæsa í Kádilíjákinn, en á því er verulegur annmarki. Eiginkonan er ekki mikið fyrir eyðsluháka með langt húdd. Aðeins einu sinni í okkar löngu sambúð eignuðumst við amerískan fólksbíl, miklu minni þó en Cadillac de Ville. Ég hafði frumkvæði að þeim kaupum á sínum tíma, heldur kátur. Frúin kvartaði strax undan húddlengd Fordsins og eftir stutt eignarhald hringdi hún í mig, á þáverandi vinnustað minn, með einföld en skýr fyrirmæli: „Þú getur selt þessa doríu þína. Ég er búin að panta heppilegan bíl fyrir okkur.“
Það skýrðist, í sama samtali, að nýpantaði bíllinn var japönsk púta af minnstu gerð, með saumavélarmótor.
Það þýðir því sennilega lítið, þrátt fyrir spennandi smáauglýsingu í Bændablaðinu, að nefna þetta með átta gata Kadilakkinn.