Sævar Karl sýnir í Listasal Mosfellsbæjar

Sævar Karl fór í klæðskeranám ungur maður

Sævar Karl hefur opnað einkasýninguna Málverk í Listasal Mosfellsbæjar og stendur hún til 18. október.

Sævar Karl hefur stundað myndlistarnám við ýmsa listaháskóla hérlendis og í Þýskalandi og Austurríki. Hann hefur sýnt víða um heim meðal annars í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Englandi. Þetta er í annað sinn sem Sævar Karl sýnir í Listasal Mosfellsbæjar. „Málverk Sævars eru marglaga og fullar af litadýrð og orku. Þau eru innblásin af náttúrunni bæði hér á Íslandi og í München þar sem listamaðurinn dvelur hluta af árinu og er með vinnustofu.“, segir í tilkynningu um sýninguna.

Sævar Karl sem er þekktastur fyrir að hafa rekið samnefnda verslun í Reykjavík í áratugi, seldi hana árið 2007 og keypti sér fljótlega íbúð í München. Um myndlistina sagði hann eftirfarandi í viðtali við Lifðu núna.

Hann segir að það sem hann sé að gera í myndlistinni gangi út á það að gera stöðugt betur. Það sé eins með myndlistarmanninn og tónlistarmanninn, þeir þurfi stöðugt að æfa sig. „En eftir því sem maður lærir meira sér maður hvað maður veit lítið“, segir Sævar Karl sem stundaði nám í þrjú ár í og Kunstakademie Bad Reichenhall og útskrifaðist þaðan í myndlistinni.

 

Síðasti sýningardagur er 18. október. Listasalur Mosfellsbæjar er til húsa inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Hann er opinn á virkum dögum kl. 12-18 og á laugardögum kl. 12-16. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Hér má sjá viðtalið sem birtist við Sævar Karl á vefnum Lifðu núna fyrir nokkrum árum.

 

 

Ritstjórn september 20, 2019 12:31