Hjónin Sigurður Jónsson og Dagný Guðmundsdóttir seldu einbýlishúsið sitt í miðbæ Reykjavíkur, eftir að hafa búið þar í 15 ár og gert húsið upp. Núna búa þau á Skyggnissteini, sem er nyrst í Tungunum skammt frá Geysi í Haukadal. Landið sem fylgir húsinu er 6 hektarar og þar hafa þau hafið svokallaða vistrækt og voru að undirbúa sig fyrir ræktunina á næsta ári, þegar blaðamaður Lifðu núna bankaði nýlega uppá hjá þeim til að grennslast fyrir um það sem þau eru að gera og ástæðu þess að þau ákváðu að söðla um í lífinu og snúa sér að vistræktinni.
Gerðu upp húsið og fóru að horfa í kringum sig
Sigurður var að vinna í Kennslumiðstöð Háskóla Íslands, reyndar var aðalverkefni hans ritstuldarvarnir sem var samstarfsverkefni allra háskólanna í landinu. Dagný sem er myndlistar- og kennaramenntuð vann sem safnvörður í fræðslu- og sýningardeild Árbæjarsafns. „Það var skemmtileg törn“, segir Dagný um það verkefni að gera upp gamla timburhúsið í Garðastræti. „Og við nutum þess að búa í því. Fólk var hissa þegar við seldum það, en við vorum búin að eiga það í 15 ár og búin að gera það sem við ætluðum við það. Það var erfitt að halda húsinu ef við ætluðum að söðla um þannig að við fórum að horfa í kringum okkur“, segir hún en tekur fram að það hafi verið rosalega gaman að vinna á Árbæjarsafninu, þar sem hún vann í 15 ár. Sumir samstarfsmenn hafi viljað vera þar út starfsævina og það sé gott að þráðurinn haldist með eldra fólkinu, en hún hafi ekki séð fyrir sér að vinna þar í 30 ár.
Byrjaði að taka lífeyrinn og lagði hann fyrir
Sigurður stóð hins vegar á þeim tímamótum þegar þau fóru að velta þessu fyrir sér, að hann var sextugur. Hann var með lífeyrisréttindi í þremur lífeyrissjóðum, A og B-deild LSR og VR og gat byrjað að taka lífeyri hjá A-deildinni sextugur. Hann þurfti að ákveða hvort hann gerði það og komst að raun um að það borgaði sig að byrja sextugur að taka lífeyri úr sjóðnum. Þótt upphæðin yrði lægri en ef hann biði með það kæmi það vel út – nema hann yrði níræður. Hann segir að á þeim tíma hafi hann ekki haft þörf fyrir meiri peninga, þannig að hann lagði lífeyrinn fyrir og byrjaði að nota hann 65 ára. Þá hafði hann einnig komist að þeirri niðurstöðu að það borgaði sig ekki fyrir hann að vinna, nema fyrir sjálfan sig.
Höfðu augastað á mörgum jörðum
Dagný hafði verið í Noregi sem unglingur og þar kynntist hún umhverfisvernd og sjálfsþurftarbúskap. „Það var gamall draumur að fara í ræktun og myndlist“, segir hún. Þegar þarna var komið sögu byrjuðu þau Sigurður að rúnta um Suður- og Vesturland til að skoða jarðir. „Við höfðum augastað á mörgum jörðum, það var ótrúlega skemmtilegt að keyra um þessi svæði og skoða“, segir hann. En þau voru ekki lengur þrítug og þótti ekki fýsilegt að steypa sér í skuldir, hafa allt sitt fast í jörð ef eitthvað kæmi uppá og engan samastað í Reykjavík. Þar sem þau þurftu ekki nema 6 hektara til ræktunar, varð niðurstaðan sú að kaupa Skyggnisstein. Það gerðu þau árið 2012 og fyrstu fjögur árin voru þau hálft árið í sveitinni en hinn helming ársins í Reykjavík, þar sem þau eiga íbúð í Barmahlíð.
Fólk í vistrækt út um allan heim
Þau byrjuðu að prófa sig áfram með ræktunina og koma sér upp aðstöðu á staðnum. Byggðu líka gróðurhús og jarðhýsi. Þau sáu fyrir sér sjálfbæra ræktun og fundu á netinu, vistvæna ræktun sem kallast permakúltúr á erlendum tungum. Hún byggist upp á því að vera með aðstæður eins og eru í náttúrunni. Dagný segir að þetta sé ekki bara ný vinna, heldur sé þetta hugmyndafræði. Þau hafi legið í bókum og á Youtube. „Við fundum þetta hugtak permaculture eða vistrækt. Það er fólk í þessu út um allan heim og notar sömu nálgun og aðferðafræði, og við höfðum hugsað okkur. Við höfum aflað okkur þekkingar, fylgjumst með og erum komin í hóp af fólki sem sinnir þessu“. Dagný segir að þegar hún fór í myndlistina 35 ára, hafi hún verið þar með miklu yngra fólki, en í permakúltúrnum sé fólk á öllum aldri.
Eldri maður með reynslu og ungur maður með tæknikunnáttu
Þau segja að fæstir í hópnum hafi aðstöðu til að „praktisera“ það sem þau séu að pæla í. „Við gátum leyft okkur ekki bara fræðilegar pælingar, heldur líka að gera eitthvað í málinu“, segir Sigurður og Dagný bætir við að fleiri og fleiri séu að koma sér í þá aðstöðu að geta byrjað að rækta. Sigurður segir frá því að permakúlturinn eigi rætur að rekja til Ástralíu. Þar var maður að nafni Bill Mollison (1928-2016) sem var hálfgert„drop out“ í skóla og hafði unnið við sitt lítið af hverju um ævina. Með þá reynslu fór hann í nám í háskóla og fór að kenna í framhaldi af því. Þá hittir hann David Holmgren (1955-), 18 ára nemanda með límheila, og þessir tveir menn settust niður. Hugsuðurinn með reynsluna og ungi maðurinn sem gat sett þetta upp í kerfi. Þótt hann væri besti nemandinn í skólanum, fékk hann ekki viðurkenningu sem slíkur, hann þótti uppreisnarseggur.
Laukurinn fælir flugur í burtu frá beðunum
Sigurður og Dagný rækta margar tegundir grænmetis, til dæmis bæði lauk og hvítlauk og aspas, svo fátt eitt sé nefnt, tegundir sem blaðamaður hafði haldið að yxu hreint ekki hér. Þau eru líka með nokkrar hænur. En ræktunin byggist á jafnvægi, það er til dæmis gott að hafa saman í beði gulrætur sem hafa djúpar rætur og svo aðra tegund með grunnar rætur, eins og til dæmis salat. Dagný segir að það gangi vel saman. Hún segir líka að laukur gefi frá sér lykt sem fæli flugur frá beðunum. „Þetta er eins og með mannfólkið, það þarf að vera fjölbreytni í þessu“, segir hún um ræktuina. Þegar blaðamann bar að garði, sögðust þau Sigurður og Dagný vera að ljúka við að vinna úr uppskerunni frá í sumar og undirbúa beðin fyrir næsta ár. Þau nýta megnið af framleiðslunni sjálf en selja ekki á markaði.
Gefum alltaf krukkur með eigin framleiðslu
Þau hafa efnt til viðburða í tengslum við ræktunina, sem lesa má um á bloggsíðunni þeirra og þar er einnig að finna frekari upplýsingar um ræktunina fyrir þá sem hafa áhuga. En einn viðburðurinn segir Dagný að hafi verið vinsæll, en það er Ræktun og vinnsla. Þar er komið inná ræktunina og vinnslu á uppskerunni sem þau reyna að nýta á sem fjölbreyttastan hátt. Þau útbúa mikið af súrkáli, eitthvað af grænmetinu fer í jarðhýsið, en annað er þurrkað, fryst eða blandað í salt. Dagný segist nota villtar jurtir mikið m.a. í síróp og salva. 15 -20 tegundir þurrka þau í te og krydd. „Við gefum fjölskyldu og vinum gjarnan krukkur með eigin framleiðslu, eða skiptumst á við aðra“, segir hún.
Vilja vera þar sem bjart er
Það er mikil vinna að standa í svona mikilli grænmetisrækt, en kartöflur og rófur eru einnig ræktaðar í stórum beðum í skóginum sem þarna er. Að mörgu leyti er þetta bindandi segja þau, en þegar búið er að ganga frá öllu fyrir næsta ár, fara þau gjarnan til útlanda í skammdeginu. Nú er ferðinni heitið til Ítalíu og Möltu. Á þeim tíma er kolniðamyrkur þegar þau vakna klukkan 7:00 á Skyggnissteini. Kannski er þar líka allt á kafi í snjó. „Það er sniðugra að vera þar sem bjart er á þessum árstíma“, segir Sigurður „og nota frelsið sem maður hefur til að sjá eitthvað annað“.
Gefandi að eiga foreldra sem fást við eitthvað áhugavert
Þegar þau voru að velja sér stað til að hefja ræktunina á sínum tíma, vildi Dagný vera á stað, þaðan sem hún gæti mætt í barnaafmæli. Þau eiga samtals fjögur börn, en eitt þeirra býr á Þingeyri og annað í Svíþjóð. Barnabörnin sem eru sex, hafa samt komið og dvalið hjá afa og ömmu nokkra daga á sumrin. Einn níu ára lýsti því yfir fyrir skemmstu að hann yrði að fara að koma aftur í heimsókn, það væri nóg að gera! Nú styttist líka í að þau komi í sveitina til að sækja jólatré. Dagný sem sjálf ólst upp við að foreldrar hennar áttu til að snúa algerlega við blaðinu í lífinu og prófa eitthvað nýtt, telur að það sé gefandi að eiga foreldra sem eru að gera eitthvað áhugavert. „Foreldrar mínir voru í skútusiglingum í 7 ár“, segir hún og bætir við að það sé skemmtilegra fólk sem snýr tilbaka úr slíkum ævintýrum.
Gætu verið á Skyggnissteini til eilífðar
Hvort þau Sigurður og Dagný eiga eftir að búa á Skyggnissteini alla ævi, er ómögulegt að segja til um. Þau eru að minnsta kosti farin að taka þátt í félagslífinu í sveitinni, kvenfélaginu og Lionsklúbbnum. „Við gætum verið hér til eilífðar. En mér finnst líklegra að við eigum eftir að skipta um aftur. Það veit maður aldrei. En þegar maður upplifir að maður sé búinn með eitthvað, þá breytir maður til“, segir Sigurður að lokum ánægður með það verkefni sem þau eru núna að vinna að saman.