Þegar elda á fyrir bara tvo er kjúklingur góður kostur því gott er að miða við eina bringu á mann. Þessi uppskrift er að einstaklega ljúffengum rétti sem enginn verður svikinn af.
Sítrusmaríneruð kjúklingabringa með chili og myntu ef vill:
2 kjúklingabringur
safi úr 2 appelsínum, einni sítrónu og einni límónu
aldinkjötið úr appelsínu, sítrónu og límónu
3 msk. hunang
1 ferskt chilialdin með fræjum, saxað
1/2 dl fersk mynta ef vill, söxuð
svartur pipar
basmati-hrísgrjón, soðin samkvæmt leiðeinginum á umbúðum
Hrærið saman sítrussafanum og aldinkjötinu, hunanginu og helminginn af chilialdininu og myntunni. Hellið yfir kjúklingabringurnar og látið bíða í lokuðu íláti í minnst 8 klst., má vera sólarhring. Brúnið bringurnar á þurri pönnu við góðan hita í stutta stund. Látið þær síðan í eldfast ílát og hellið kryddleginum yfir. Setjið hinn helminginn af chilialdininu, kryddið með svörtum pipar og bakið bringurnar í ofni í 12-15 mínútur við 170 gráður á Celsius. Setjið soðin basmati hrísgrjónin í tvo djúpa diska og leggið bringurnar ofan á. Ausið sítrusaldinkjötinu yfir ásamt soðinu og sáldrið myntunni yfir að lokum.