Bryndís Hagan Torfadóttir er ein þeirra sem hefur í áratugi starfað að félags- og líknarmálum af miklum dugnaði og eljusemi. Hún stofnaði SKB Félag Krabbameinssjúkra Barna, ásamt nokkrum foreldrum. Hún situr í stjórn Umhyggju, félags til stuðings langveikum börnum og fjölskyldum þeirra. Er Hringskona, Rotary félagi, verðandi forseti Rotary klúbbs Kópavogs og var að ljúka fjögurra ára stjórnarsetu í FEB, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Sat í stjórn FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu, og situr í varastjórn Almannaheilla, svo einhver félög séu nefnd. Við hin eigum henni því margt að þakka. Bryndís hefur unnið hjá SAS Scandinavian Airlines víðsvegar um heiminn í 45 ár og er í dag framkvæmdastjóri fyrirtækisins á Íslandi. Bryndís á tvö börn, sex ömmubörn, fer á skíði og spilar golf og nýtur lífsins.
Nýjar leiðir og lausnir
Þrátt fyrir að starfsvettvangur Bryndísar hjá SAS hafi lengst af verið á Norðurlöndunum, Grænlandi og Íslandi þá hefur hún komið víðar við. Hún var sölustjóri SAS í Bretlandi í fjögur ár, sameinaði símsölu Bretlands, Írlands og Íslands og flutti loks alla símsölu SAS til Tallinn í Eistlandi þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri SAS í tvö ár, ásamt því að byggja upp nýtt fyrirtæki í eigu SAS, Blue One Travel Service sem er þjónustuver SAS fyrir allan heiminn. „Mér finnst ekki komin tími til að hætta að vinna. Mér dettur stöðugt eitthvað nýtt í hug sem þarf að koma í framkvæmd. Ég hef starfað sem frumkvöðull hjá SAS og þar af leiðandi oft orðið að finna nýjar lausnir og leiðir. Þetta hefur mér alltaf þótt skemmtilegt,“ segir hún.
Hátt uppi
Bryndís býr á tíundu hæð í blokk við Lindargötu, sonur hennar er flytja á hæðina fyrir ofan hana ásamt fjölskyldu sinni og það verður opið á milli hæðanna. Dætur hans þrjár fá herbergi á hæðinni hjá ömmu og þegar þær þurfa einhvers við er amma handan við þilið. „Ég vildi að fleiri gætu haft þetta svona. Ég fæ að njóta samvista við barnabörnin og vonandi verður líka eitthvað gagn að mér í þessu sérbýli/sambýli. Við erum af þeirri kynslóð sem passar bæði uppfyrir sig og niðurfyrir sig. Við gætum foreldra okkar og eldri ættingja og svo gætum við barnabarnanna okkar,“ segir hún.
Ætti eingöngu að sinna réttindabaráttu
Bryndís hætti í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík á síðasta aðalfundi en þá hafði hún setið í stjórninni í fjögur ár. Samkvæmt lögum félagsins mátti hún ekki sitja lengur. „Félagið ætti eingöngu að sinna réttindabaráttu fyrir eldri borgara. Því miður er enginn peningur til slíks, þar sem peningarnir fara í reksturinn og ekki síst viðgerðir og rekstur á húsinu sem félagið á við Stangarhyl í Reykjavík,“ segir Bryndís. Fyrir nokkuð mörgum árum keypti FEB félagsheimili við Stangarhyl í Reykjavík. Miklar skuldir hvíla á húsinu og hafa margfaldast í hruninu. „Í mínum huga er það líka stór spurning hvers vegna félagið á að eiga og reka félagsheimili. Borgin rekur félagsmiðstöðvar vítt og breitt um borgina og að mínu mati á sú félagsstarfsemi sem fer fram í Stangarhylnum heima í félagsmiðstöðvum. Hinsvegar er ótalmargt gott gert í Stangarhylnum, þar spila menn bridds, dansa og koma á námskeið. Þetta er gaman fyrir þá sem komast upp í Stangarhyl en það eru bara ekki allir sem komast þangað og á meðan nánast allir peningar félagsins fara í reksturinn á húsinu þá er enginn tekjuafgangur til að nota í baráttumál fyrir aldraða.Húsið er yfirskuldsett,“ segir hún og því gæti verið erfitt að losna við það eins og staðan er í dag. Bryndís segir að það þurfi að breyta ýmsu í lögum félagsins, fá inn yngra fólk og kjósa stjórn sem berjist fyrir réttindum eldri borgara á meðan borgin sjái um tómstundir, námskeið og annað slíkt. „Aldurinn, fyrir inngöngu í félagið er aðeins 60 ára og þá er fólk í fullu fjöri og þess vegna ættum við að geta fengið yngra og kannski kröftugra fólk í stjórn þó aldur sé alltaf afstætt hugtak. Vandamálið er að það eru margir sem vilja engar breytingar, vilja óbreytt ástand,“ segir hún.
Hætt að byggja dvalarheimili
Aðbúnaður og húsnæðismál aldraðra eru Bryndísi hugleikin. „Það var hætt að byggja dvalarheimili á höfuðborgarsvæðinu fyrir 40 árum. Á dvalarheimili gat fólk flutt þegar það var komið á aldur. Þá fór það í vistunarmat,“ segir hún. Vistunarmatið átti að skera úr um hvort fólk gæti búið heima eða hvort það ætti rétt á að komast á dvalarheimili. Á dvalarheimilunum voru litlar íbúðir fyrir fólk og sumstaðar voru byggð lítil hús. Í dag fer fólk í færnismat, en það er ekki fyrr en það er orðið háaldrað og fársjúkt sem það kemst í slíkt mat, þá er metið hversu mikla hjálp fólk þurfi á að halda heima. Fólk þarf að vera fárveikt og útúr heiminum til að það komist komist inn á hjúkrunar- eða dvalarheimili.
Raunar segir Bryndís að það sé búið að breyta flestum dvalarheimilunum í hjúkrunarheimili. „Það er ætlast til að allir geti verið heima í „faðmi fjölskyldunnar“ og andast þar. Þetta er bull og þvæla, það er margt gamalt fólk aleitt og einmanna heima. Fólk sem enginn hefur vilja eða tíma til að sinna um. Gamla fólkið hefur hins vegar enga möguleika á að komast inn á eitthvert heimili. Margir eru hræddir við að vera einir heima þegar heilsan er farin að bila en neyðast til þess,“ segir hún. Bryndís bendir á að verði fólk veikt heima sé engin önnur leið en senda það á sjúkrahús. Þar festist fólk því það séu engin hjúkrunarheimili til sem taki við því. „Við erum búin að búa til algeran flöskuháls í þetta kerfi,“ segir Bryndís og ítrekar að barátta FEB ætti að snúast um að breyta þessu. „Það er margt fólk með góðan vilja í félaginu en svo er það hópurinn sem ég kalla TT félagið eða tortryggna tuðara. Þeir eru margir, þetta er fólkið sem vill ekki breytingar og gagnrýnir allt sem forysta félagsins gerir.“
Ekki hægt að setja alla undir sama hatt
Bryndís er ein af þeim sem hefur verið í 150 prósent vinnu allt sitt líf. Hún fer reglulega í ræktina og gerir það sem hana langar til. „Ég er orðin 67 ára og sé sjaldan vinkonur mínar í ræktinni. Fólk ákveður sjálft hversu gamalt það er, það er eitthvað sem gerist í höfðinu á því. Það er ekki hægt að setja allar undir sama hatt og segja að allir eigi að setjast í helgan stein á sama aldri,“ segir hún. Það sé fullt af eldhressu fólki út á vinnumarkaðnum. Það sé svo margt sem eldra fólk geti gert, það eigi ekki að útiloka neinn. „Við kunnum ekki að nýta okkur styrkleika hvers annars, ungra jafnt sem aldraðra. Það er vandamál sem þjóðfélagið sem heild tapar á.“
Ákveðinn kynslóðamunur
Bryndís segist skynja ákveðinn kynslóðamun. Fólk sem sé 30 plús lifi í allt öðrum heimi en hennar kynslóð gerði. Kröfurnar sem þessi kynslóð gerir eru svo háar að ungt fólk finnur ekki tíma til að stunda líknarmál og vera í líknarfélögum og því er mun erfiðara í dag en fyrr að fá nýja félaga í slík félög. „Við erum í hlutverki sem enginn hefur verið í áður við erum að passa niður fyrir okkur og við erum að passa upp fyrir okkur. Þessi kynslóð 30 plús þyrfti að hægja aðeins á og ekki heldur gera of miklar kröfur til sinna barna um að taka þátt í einu og öllu meðan þau eru börn. Börn þurfa að vera börn og hafa alveg eins gott af ömmu og afasögum eins og auka ballet tíma. Svo eru útlitskröfurnar í hávegum hafðar og mætti slaka verulega á og hugsa heldur að heilbrigð sál lifir í hraustum heilbrigðum líkama. Sjálfhverf kynslóð er ekki góð til að taka við keflinu af okkur því hvert leiðir það eiginlega? Ég held líka að þessi kynslóð óttist gamla fólkið, óttinn felst í því að þau vilja hrista þetta af sér og vilja ekki vita af því. Ekki vita að það séu einhverjir gamlingar sem þarf að heimsækja og hugsa um. Sjálfhverfa kynslóðin hefur ekki gaman af gömlu fólki.“
Tíminn endist ekki
Það þarf að berjast fyrir eldra fólk, þannig að það hafi sjálfsákvörðunarrétt um eigið líf. „Hvers vegna má gömul manneskja ekki ráða hvað hún vill og hvað hún gerir. Við erum að taka völdin af þeim fullorðnu. Sjálf hugsa ég stöku sinnum um hvernig sé að eldast. Ég finn að einstaka sinnum kemur upp í hugann hvort ég þurfi að læra meira og þá er ég ekki að tala um formlega menntun. Ég spyr sjálfa mig hins vegar hvort ég þurfi að læra á ný tölvukerfi, tæki og tól. Stundum finnst mér ég uppfull af þekkingu og það er enginn „delete“ – gagnaeyðslu hnappur í heilanum á mér. Annars finnst mér dapurt að sjá fólk á mínum aldri samþykkja að það sé orðið gamalt. Við erum ekkert eldri en heilinn á okkur segir okkur að við séum. Það er skrýtið að við skulum samþykkja að fara í þann bás að vera gömul. Við þurfum þess ekki. Ég er ekki orðin það gömul að ég fari í messu á sunnudögum, tíminn endist mér aldrei. Ég er alltaf á hlaupum á eftir skottinu á sjáfri mér, mér leiðist aldrei nokkurn tímann. Ég veit ekki hvað það er. Mér finnst agalegt að heyra setningar á borð við þessa það tekur því ekki að gera þetta og hitt af því það sé ekki svo langt eftir. Það er eins og við séum að ákveða það í heilanum að deyja fljótlega. Á þessum aldri eigum við að hugsa um að njóta og gera það sem okkur finnst skemmtilegt í leik og starfi, njóta lífsins, vinanna, fjölskyldunnar og barnabarna alla daga.“