Sjúkdómsgreina sig rangt eftir lestur á netinu

Það er liðin tíð að fólk trúi því að læknar séu nánast guðlegar verur. Allt sem hrjóti af þeirra vörum sé heilagur sannleikur. Sjúklingum sem gagnrýna lækna og taka ekki öllu þegjandi sem þeir hafa fram að færa fjölgar. Þetta fólk hefur eigin hugmyndir um hvernig eigi að meðhöndla það. Um þetta er fjallað á vef danska ríkisútvarpsins dr.dk

Ástæðurnar fyrir breyttu viðhorfi til lækna eru ýmsar. Til að mynda netið. Það er hægt að finna upplýsingar um allt möguleg og ómögulegt sem viðkemur heilsu þar. Það þarf hins vegar að hafa í huga að þar er að finna ýmsar greinar sem eru hreinasta bull og ekki fótur fyrir, inn á milli er svo að finna margvíslegan nytsamlegan fróðleik.

Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verð í Danmörku leita 25 prósent dana að upplýsingum um sjúkdóma áður en þeir leita til læknis. „Þetta hefur breytt veruleika lækna,“ segir heilsuhagfræðingurinn Kjell Möller Pedersen.

Kjell hvetur sjúklinga til að trúa ekki öllu sem þeir sjá á vefnum. Ef þeir séu að leita sér upplýsinga ættu þeir að nota viðurkenndar greinar sem eru skrifaðar af læknum og sérfræðingum.  Ég hef talað við fjölda lækna sem segja algengt að sjúklingar komi með greinar sem þeir hafi prentað út af vefnum. Þeir trúi því frekar sem þeir lesi á vefnum en því sem læknirinn segir við þá. Hin hliðin á þessu er að sumir sjúklingar vita meira en læknirinn. Það eru sjúklingar sem hafa haft fyrir því að lesa allt sem þeir finna um eigin sjúkdóm.  Nýjar greinar um sjúkdóma og rannsóknir birtast á netinu um leið og þær eru tilbúnar og Kjell segir að það sé ekki víst að læknar hafi undan að kynna sér allt það nýjasta.

Menn greinir á um hvort að „Doktor Google“ sé góður eða slæmur kostur. Það eru rök í málinu bæði með og á móti. Stundum finnur fólk svör við spurningum sínum og leitar því ekki til lækna þar sem það hefur ekki lengur áhyggjur af því sem var að plaga það. Það góða við dr. Google er að hann getur hjálpað fólki að finna nýjustu rannsóknir um sjúkdóma sem hrjá það. En svo eru það hinir sem sjúkdómsgreina sig rangt eftir lestur á netinu og vilja ekki hlusta á rök lækna.

Henrik Jensen yfirlæknir á krabbameinsdeild sjúkrahússins í Vejle í Danmörku segir aukna vitneskju fólks um sjúkdóma af hinu góða. Hann og samstarfsfélagar hans vinni kerfisbundið að því að fá sjúklingana til að skipuleggja eigin meðferð.

„Við sem læknar höfum ef til vill talið að sumir hlutir séu mikilvægari en aðrir. Til dæmis höfum við lagt áherslu á að lengja líf sjúklinga okkar eins og mögulegt er. Kannski er eitthvað annað mikilvægara í huga sjúklingsins. Það getur til dæmis verið að honum finnist lífsgæði mikilvægari en lifa sem allra lengst,“ segir Henrik og bætir við að þegar hlustað sé eftir óskum sjúklinganna sé auðveldara að ráðleggja þeim. Hann tekur sem dæmi kannabisolíu sem margir sjúklingar telji að geti hjálpað þeim í baráttu við krabbameinið. „Það eru engar læknisfræðilegar sannanir fyrir því. En mörgum líður betur þegar þeir nota olíuna. Misskilningurinn liggur í því að fólk trúir því að kannabisolían geti læknað mein þess. Ég get útskýrt það sem ég veit og ef sjúklingurinn vill nota olíuna get ég orðið við því að hún verði hluti af meðferðinni.“ Henrik segist skilja að sjúklingar hans vilji fá að taka ákvarðanir um hvernig meðferð þeirra sé háttað. „Ég er gagnrýnin sjálfur. Ef ég ætla að kaupa nýjan bíl eða taka aðrar ákvarðanir í lífinu vil ég fá að ákveða sjálfur og spyrja að því sem mér finnst mikilvægt.  Við sem læknar verðum að taka mið af því sem sjúklingum okkar finnst. Hjálpa þeim og upplýsa.“

Ritstjórn október 5, 2017 13:06