„Það er óviðunandi að Tryggingastofnun lækki greiðslur til eftirlaunafólks afli það sér viðbótartekna,“ segir í glænýrri ályktun frá landsfundi Landssambands eldri borgara. Landssambandið fundar nú í Hafnarfirði. Í ályktuninni segir:
Landsfundur Landssambands eldri borgara krefst þess að lög um almannatryggingar verði endurskoðuð þannig að frítekjumark eldri borgara verði afnumið nú þegar. Skattar til samfélagsins eiga að fara eftir tekjum fólks, en ekki eftir aldri. Landsfundurinn telur að það stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að beita sérstökum skatti á fólk sem hefur náð ákveðnum aldri. Jaðarskattar á eldra fólk, afli það sér viðbótartekna, geta í dag numið allt að 73%. Það er óviðunandi að Tryggingarstofnun lækki greiðslur til eftirlaunafólks afli það sér viðbótartekna, afleiðing þessa er að fjölmargum í þessum aldurshópi er haldið í fátæktargildru og hvatinn til að vinna hverfur. Þessi staða hvetur til þess að launamenn færi sig inn í svarta hagkerfið. Landsfundurinn krefst þess að staðið verði við ákvæði lágmarkslauna hvað varðar lágmarkskjör aldraðra. Í skýrslu um fjölþjóðlega rannsókn á vegum OECD kemur fram að íslenska lífeyriskerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr almannatryggingum, jafnframt er Ísland eina landið þar sem lífeyrir frá Tryggingastofnun fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk. Draga þarf úr þessum skerðingum hið fyrsta og taka upp eðlilegan grunnlífeyri fyrir alla. Fundurinn bendir á að Íslendingum sé einum þjóða í Evrópu gert að búa við skertan grunnlífeyri. Landsfundurinn telur að skoða eigi til hlítar hvort höfða megi mál gegn ríkinu og fá þar úr því skorið hvort ákvarðanir Alþingis um að skerða tekjur eldra fólks sem hefur áunnið sér réttindi í lífeyrissjóði standist eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar. Landsfundurinn telur að samtök eldri borgara eigi að taka upp formlegt samstarf við samtök launamanna til að berjast fyrir bættum kjörum aldraðra í landinu. Hækkanir á ýmsum þjónustugjöldum aldraðra og sjúkragjöld verði endurskoðuð til lækkunar. Fundurinn krefst þess að virðisaukaskattur á lyf verði felldur niður auk þess að niðurgreiðslur vegna tannlækninga og hjálpartækja verði stórauknar. Landsfundurinn krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að hann fylgi hækkunum launavísitölu frá árinu 1988. Síðan verði tryggt að persónuafsláttur hækki árlega í samræmi við launavístölu.