Tengdar greinar

„Skemmtilegast að hanna draumaflíkina á hverja konu“

Sigríður Sunneva Vigfúsdóttir fatahönnuður er frumkvöðull á sviði mokkaskinnshönnunar hér á landi. Hún gerði mokkaskinnsklæðnað að hátískuvöru og rekur eigið fyrirtæki, Sunneva Design. Sigríður Sunneva lærði á Ítalíu, var kosin bjartasta vonin við útskrift og vann lokaverkefni sitt undir handleiðslu tískurisans Ferragamo. Hún starfaði sem innsti koppur í búri hjá fyrirtæki sem var einn stærsti mokkaskinnsframleiðandi í Evrópu, þar sem helstu tískuhús heims létu framleiða skinnflíkur fyrir sig en hún valdi á endanum koma heim með þekkinguna og handverkið sem hún lærði. Sigríður Sunneva segir íslenska mokkaskinnið einstakt á heimsvísu og að hún vilji hanna tímalausar, endingargóðar og vandaðar flíkur í anda „slow fashion“. Hún er nú komin í nýja og spennandi vinnustofu á Korpúlfsstöðum.

Sigríður Sunneva ólst upp á Akureyri í hópi sjö systkina. Æskuheimilið var líflegt og hún segist hafa haft þörf fyrir að skapa og vinna með höndunum strax sem barn. „Ég teiknaði mikið og litaði og var mjög upptekin af litasetteringum og -pallettum og mér þótti gaman að finna mismunandi áferð á yfirborði allra mögulegra hluta, puntstráa og trjáberki eða feldinum á heimiliskettinum.“

Máltækið snemma beygist krókurinn á vel við um Sigríði Sunnevu. Hún segist hafi verið farin að hanna snemma. Til þess notaði hún flíkur mömmu sinnar óspart og það sem meira var, hún hafði frjálsar hendur við það.
„Ég hef verið á unglingsaldri þegar ég fór að sjá fyrir mér hvernig ég gæti „endurhannað“ flíkur sem til voru á heimilinu og var ég sérstaklega sólgin í að beita skærunum ótæpilega á flottustu samkvæmiskjólana hennar mömmu og sauma þá upp á nýtt. Ég skemmdi þá rækilega þannig að þeir biðu þess ekki bætur,“ segir Sunneva og skellir upp úr.

Stundaði nám í gamalli villu og bjó í klaustri
Sigríður Sunneva horfði til listagyðjunnar í framtíðaráformum sínum. Leiðin lá til Reykjavíkur í Myndlista- og handíðaskólann í auglýsingahönnun en eftir þriggja ára nám þar rann það upp fyrir henni að þetta ætti ekki alveg nógu vel við hana, fatahönnunarþörfin yfirtók allt og hún varð að fara út til að svara kallinu. Hún grandskoðaði skóla á Ítalíu og Polimoda-skólinn varð fyrir valinu en hann er dótturskóli Fashion Instutute of Technology (FIT) sem er bandarískur skóli. Námið var á háskólastigi og skólinn staðsettur í Flórens í fallegri 15. aldar villu, Villa Strozzi. „Ég var búin að stúdera þennan skóla og læra ítölsku áður en ég tók inntökuprófið. Ég hafði sent inn teikningar þar sem ég tók þjóðbúninginn okkar og gerði hann að ítölskum hátískubúningi og það fannst dómnefndinni mjög áhugavert.“

Sigríður Sunneva segir tímann á Ítalíu hafa verið ótrúlega góðan en að námið hafi verið mjög krefjandi. „Skólinn var einkaskóli og nemendurnir oftar en ekki börn ríkra Ítala, ásamt börnum foreldra sem tengdust ítölsku tískuelítunni á einhvern máta, eigendur stórfyrirtækja í bransanum, þekktra stjörnuhönnuða eða fyrrverandi forsíðumódela. Þessir krakkar vissu alveg hvað þeir vildu, mættu í skólann alveg tip top, eins og þau væru að fara að ganga á sýningarpöllum en þau voru minna stressuð yfir að skrifa glósur eða fylgjast með kennslunni. Ég vann fram á kvöld á hverjum einasta degi og oftast um helgar líka og ég var mjög þakklát fyrir að hafa valið sömu leið og vinkona mín, að dvelja í klaustri Franciscu-nunna fyrsta skólaárið mitt. Þar hafði ég algjört næði og fékk eðalmáltíðir sem gerði gæfumuninn til að takast á við námið.

Lokaverkefni mitt í skólanum var tískusýning þar sem fatnaðurinn samanstóð úr íslensku mokkaskinni og prjónajerseyi úr ítalskri merinóull. Ég var svo heppin að leiðbeinandi minn í þessu lokaverkefni var Giovanna Ferragamo, dóttir Salvatore Ferragamo, stofnanda Ferragamo-veldisins.“

Þeir hljóta í skólanum að hafa haft miklar mætur á þér og væntingar til þín úr því að þú fékkst hana sem leiðbeinanda? „Já, þetta var mikil upphefð. Ferragamo-fyrirtækið er mjög þekkt fyrir hágæða lúxusvörur úr mismunandi loðskinni og leðri, hvort heldur í fatnaði eða fylgihlutum. Giovanna sjálf keðjureykti og hafði mjög hása og óáheyrilega rödd. Það var einstaklega gott að vinna með henni, hún var mjög sjálfsörugg en samt hlý og skemmtileg og vissi nákvæmlega hvað gengi og hvað ekki. Hún var stórhrifin af því að fatalínan mín var undir áhrifum af norðurljósunum yfir Íslandi. Litirnir í fatnaðinum voru ískaldir, fölgulir, lillaðir, hvítbleikir, ljóstúrkis og silfurgráir, allt hrímaðir litir. Ég er hrifin af þessum norræna litaskala, í svona hlýju hráefni eins og mokkaskinni, eru svona kaldir litir töfrandi.“

Sigríður Sunneva segir að sýning hafi verið haldin í einni nafntoguðustu glæsibyggingu Flórensborgar, Palazzo Pitti, innan um sígildar höggmyndir og málverk endurreisnarlistamanna. „Þar var ótrúlega mögnuð stemning og húsið troðfullt af mektarfólki.“ Og við útskrift var Sigríður Sunneva valin bjartasta vonin.

Átti að hanna fyrir skandinavískan markað
Sigríður Sunneva fór heim í sumarfríi en þegar hún snéri aftur út til Ítalíu var umboðsaðili Íslenska skinnaiðnaðarinns, Alvaro Crociani, búinn að finna fyrir hana hönnunarstarf hjá DIBI, fyrirtæki sem var einn helsti framleiðandi á skinnfatnaði í Evrópu.

„Þangað komu hönnuðir frá hátískuhúsum eins og Fendi, Tussardi, Cavallo og Hugo Boss og létu okkur framleiða fyrir sig skinnflíkur úr línunum þeirra. Ég starfaði hjá DIBI í tæp tvö ár og kappkostaði við að tileinka mér eins mikið af starfsháttum og kunnáttu þessara vitringa í bransanum og ég frekast gat. Það var mikil áskorun. Þar sem DIBI var staðsett nærri Pisa í Toskanahéraði og ég búandi í Flórens, þurfti ég að taka lestina kl. 6 á morgnana og var komin heim upp úr kl. 9 á kvöldin sex daga vikunnar, því maður vann líka á laugardögum í þessum geira. Innan fyrirtækisins gékk ég undir nafninu „la Finnala“ sem þýðir sú finnska, fyrst og fremst vegna þess að ég var eins konar samnefnari fyrir Norðurlandabúa og svo hefur þeim líklega fundist framburðurinn á ítölskunni minni frekar harður og þungur, eins og finnskan kann að hljóma fyrir sumum.“

Stefndirðu alltaf heim? „Ég ætlaði alls ekki heim. Ég ætlaði að eiga minn starfsferil á Ítalíu, dásamlegu Ítalíu. Ég var farin að þekkja Flórens betur en handarbakið á sjálfri mér. Fegurðin í umhverfinu, arkitektúrinn, hönnunin og hátískan, já listfengið alls staðar þar sem þú leist, hafði ávanabindandi áhrif á mig. Sömuleiðis þessi dásamlega matarmenning, að ég tali nú ekki um kaffiilmurinn á hverju horni. Í samanburði við Flórens var jafnvel fegursti bær norðan Alpafjalla, Akureyri, ekki svipur hjá sjón … nei, ég var sko ekki á leiðinni heim.“

Sigríður Sunneva konan sem ætlaði aldrei að yfirgefa Ítalíu, sneri svo heim.
„Þegar ég hafði unnið tæpt ár hjá DIBI þá fékk eigandi þess, Signor Novi, þá hugmynd að ná að selja skinnflíkur fyrirtækisins á Norðurlöndum. Honum fannst það liggja beint við að láta framleiða flíkurnar á Íslandi þar sem hann var langstærsti kaupandi íslenskra mokkaskinna. Ég átti að hanna línu sem yrði markaðssett sérstaklega fyrir Norðurlöndin. Síðan var hópur frá fyrirtækinu sem fór um Ísland og ég var fararstjórinn. Við reyndum að kortleggja einhverjar skinnasaumastofur sem gætu framleitt fyrir fyrirtækið en við urðum fyrir miklum vonbrigðum. Það voru engar saumastofur eftir á landinu, af þeirri stærðargráðu sem þau þurftu fyrir framleiðsluna, þannig að þessi hugmynd varð ekki að veruleika.

Hins vegar hafði þessi slæma staða mokkaskinns þekkingarinnar hérna þau áhrif á mig að ég ákvað að flytjast heim aftur og stofna mitt eigið hönnunarfyrirtæki. Ég hugsaði, það er betra að vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri tjörn.“

Á þessum tíma tíma var ekki jarðvegur á Íslandi fyrir framleiðslu af þessu tagi öfugt við það sem hún þekkti á Ítalíu og Sigríður Sunneva var sú eina sem hannaði hátískuvöru úr mokkaskinni. „Þegar ég kom heim var mér vel tekið, það vantaði ekki, en það var bara settur á mig kútur og svo átti ég að bjarga mér,“ segir frumkvöðullinn með áherslu. „Fjárfestingaraðilar hjá nýsköpunarsjóðum báru ekki alveg skynbragð á verðleika þessara hluta. Þeir vildu sjá mikinn gróða eða fyrirtæki að ákveðinni stærð. Öfugt við það sem Ítalirnir eru þekktir fyrir, catena di imprezi, eða margar litlar einingar með mismunandi sérhæfingu en sem geta unnið saman.“

BBC kom og gerði þátt um Sunneva Design

Sigríður Sunneva flutti til Akureyrar og vann þar um tíma. Hún fylgdist vel með „trendum“ í loðkinns- og leðurfatnaði, var með nýja línu sem var hugsuð sem óhefðbundnar mokkaflíkur með belti, í líkum stíl og sloppar, eins og kápur eru nú, og bryddaðir með laxaroði sem var algjör nýjung á þessum tíma. „Þarna var eiginlega Ísland í hnotskurn, lambið og fiskurinn. Erlendir þáttastjórnendur Clothes Show frá BBC komust á snoðir um þessa línu og gerðu sjónvarpsþátt um hönnuðinn, hráefnið og fatnaðinn. Þátturinn var sýndur út um allan heim í mörg ár og ég frétti í gegnum fólk sem ég kannaðist við að það hafi séð mig í sjónvarpinu meðal annars í Singapore og Brasilíu.

Út frá þessum breska tískuþætti, fékk ég fyrirspurnir m.a. frá Kenzo og svo Harrods í London. Ég var í netsambandi við fulltrúa þessa fyrirtækja og í stuttu máli var Sunneva Design of lítið fyrirtæki fyrir þann díl sem þeir vildu. Harrods var að tala um stóra pöntun, í miklu upplagi og línan átti að vera sérhönnuð fyrir þá. Þeir vildu línuna í miklu magni þannig að við stóðum frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Þetta var mikil skuldbinding og álag fyrir alls ekki mikla peninga. Frá sjónarmiði Harrods var það hins vegar upphefðin fyrir samstarfsaðilann, að fá að hafa vöruna í sölu hjá þeim. Þetta var eiginlega fjöldaframleiðsla en þangað vildi ég ekki fara og sagði því nei við Harrods.“

Veðurfarið helsti innblásturinn

Aðspurð um hvað veiti henni innblástur í hönnun sinni segir Sigríður Sunneva að það sé náttúran og ekki síður veðráttan. „Ef ímyndin af Skotum eru hinir pilsklæddu Highlanders, þá erum við Íslendingar regnbarðir Wetlanders. Minn innblástur er veðrið hér sem ég bæði dýrka og gremst yfir. Veðurfarið hefur verið mín helsta áskorun þegar ég hef verið að hanna fatnað úr lambskinni. Mokkaskinnið er þeim eiginleikum búið að þola margt, það má í raun setja það í þvottavélina en ég mæli ekki með því,“ segir hún sposk. „Það má hins vegar nota rakan klút og sápu og skinnið verður eins og nýtt. Mokkaskinnið er lifandi efni, það andar og íslenska mokkaskinnið er það besta í heimi. Vinnslan hér er miklu sjálfbærari en úti. Ég sérvel skinn í hverja flík, nýti allar afklippur í smávörur og fylgihluti. Ég er með græna sútun, þetta er hliðarafurð sem annars væri hent. Ég nota vatn, við erum með heitt vatn, á meðan erlendir aðilar nota spritt. þetta er allt sjálfbært, miklu meira en er úti og mjög vistvænt.“

Mokkaflíkur eru aftur í hátísku

Sigríður Sunneva er með mjög góða aðstöðu á Korpúlfsstöðum sem hún er mjög hrifin af. Þar vinnur hún að nýjum verkefnum. Hver er helsta áherslan í hönnun þinni? „Ég er rosalega veik fyrir fallegu sniði og finnst það skipta gríðarlega miklu máli. Ítalir eru meistarar í sníðagerð. Gullinsniðið er svo mikilvægt í allri hönnun og listum hjá þeim, að hlutfallið sé rétt.“

Hvað er það þá sem gerir mokkaflíkina einstaka? „Hafi ég einhvern tíma haft áhuga á lambaskinni, þá er það að núna á þessum síðustu tímum. Í ljósi plastmengunar og umhverfisvár þá er góð tilfinning að fullnýta hliðarafurð kjötvinnslunnar sem annars færi í súginn. Lambagæran hefur verið sútuð hér á Íslandi samkvæmt ströngustu og grænustu stöðlum í evrópskum reglugerðum varðandi mengun og eiturefni og þar kemur heita vatnið okkar og umhverfisvæn sútunarefni sterkt inn. Þetta er hágæða hráefni þar sem bæði hönnun og framleiðsla er innlend. Þetta er gott dæmi um „slow fashion“ þar sem allt ferlið er grandskoðað. Skinnin eru sérvalin í hverja flík og handskorin. Allt framleiðsluferlið er grænt og vænt,“ segir Sigríður Sunneva.

Mokkaflíkur eru trend í dag en Sigríður Sunneva segir að hún vilji vera með tímalausan stíl og leggi áherslu á falleg snið í hönnun sinni.
„Flíkurnar eru dýrar og ég vil ekki að þær úreldist heldur verði verðmætari með aldrinum. Verslun með vandaðar og fallegar notaðar flíkur verður æ vinsælli og skemmtilegast er að hanna draumaflíkina á hverja konu,“ segir hönnuðurinn sem hefur hannað á margar af okkar flottustu konum, þ.á m. Laufeyju Lín.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn ágúst 23, 2024 07:00