Þær Dóra Hansen og Þóra Birna Björnsdóttir sem eru hluti af Innanhússarkitektar eitt A svöruðu spurningum Lifðu núna um ýmislegt sem er gott að hafa í huga þegar fólk flytur búferlum á efri árum og minnkar við sig.
„Flesta ef ekki alla, sem flytja og hafa fjárráð, langar að fá sér eitthvað nýtt“, segja þær Dóra og Þóra Birna. En þó fólk kaupi sér nýja hluti fyrir heimilið tekur það yfirleitt flest með sér frá fyrra heimili. Borðstofuhúsgögn eru, að þeirra sögn, oft erfiðust vegna þess að borðstofur eru oft litlar í nýjum íbúðum og oftast sameinaðar eldhúsi. Þetta krefst öðruvísi húsgagna.
Skrítið ef gamla heimilið hverfur
Þær segjast ekki hafa neina lausn á því, hvað fólk eigi að gera við dótið þegar það minnkar við sig húsnæði. Slíkar ákvarðanir hjóti alltaf að vera einstaklingsbundnar. „En þegar fólk flytur er upplagt að endurskoða hlutina. Sumir vilja hafa allt eins og áður og flytja gamla heimilið hreinlega með sér í nýtt húsnæði. Aðrir vilji helst kaupa sér nýja búslóð. Yfirleitt hvarflar þó ekki að fólki að sjá gamla heimilið hverfa og allt verða nýtt, fólk vill halda heimilisandanum.
Ekki taka of mikið dót með sér
„Það þarf að passa uppá að andi heimilis glatist ekki nema það sé skýr vilji til þess og meðvituð ákvörðun“, segja þær. En það ber að varast að setja of mikið, eða of stór húsgögn í lítið rými. Rýmið virkar þá minna en ella. Jafnframt er aldrei gott að vera með of mikið af hlutum. Stundum virðast fallegir hlutir hverfa í magn annarra fallegra hluta sem safnast hafa saman á langri ævi.
Kaupa sígilda hönnun
Þær segja að almenna reglan sé sú að taka með sér hluti sem fólki þykir vænt um, en losa sig við hina sem ekki sé þörf fyrir. Þá ráðleggi þær fólki stundum að kaupa sér eitthvað nýtt, sem fer vel með því sem fyrir er. Þær leggja áherslu á að mikilvægt sé þegar nýir hlutir eru keyptir, að það sé eitthvað sígilt, ekki eingöngu eitthvað nýtt sem er í tísku þann daginn. Mikilvægt er að samræma gömlu búslóðina og það sem er nýtt þannig að vel fari.