Í það minnsta kerti og spil segir í vinsælu íslensku jólalagi og það kemur ekki til af engu. Hér á árum áður var það hluti af því að gera sér dagamun á jólum að grípa í spil. Víða er enn fastur siður að grípa í spil og spila þá fullorðnir og börn saman og úr verður mikið fjör. Margir voru mikil spilafífl og gátu varla beðið eftir að geta dregið fram spilastokkinn en ekki mátti spila frá klukkan sex á aðfangadag og fram á jóladagsmorgun því þá var háhelgi. Fyrir þá sem gjarnan vilja endurvekja gamlar hefðir á sínum heimilum látum við fylgja undirstöðuatriðin í marías og púkki sem voru einna vinsælustu spilin ásamt lomber.
Víða var alltaf spilað púkk á jólum og þessa lýsingu á púkki er að finna í Þjóðaháttasafni Þjóðminjasafns Íslands.
„Þá var púkkið mikið spilað þar sem margt fólk var. Það spiluðu sjö. Þá var strikað með krít á borðið sjö reitir, merktir með bókstöfum. Á ás, R kóngur, D drottning, G gosi, L laufagosi, T tía, P púkk. Svo átti hver maður að klæða sinn reit. Gjaldmiðillinn sem notaður var, þar sem ég átti heima, voru kvarnir úr þorskhausum. Þegar sjö spiluðu þá átti hver að láta sjö kvarnir í sinn reit en ef sex spiluðu þá var klætt með sex og þá urðu allir að láta eitt stykki í púkkið. Svo fengu þeir úr reitunum sem áttu réttu spilin. Það voru tekin úr spilunum tvistar, þristar og fjarkar. Gefin fimm spil. Þegar búið var að gefa öllum var flett upp fyrsta spilinu sem eftir það varð þá tromp. Sá sem fyrst kom út öllum spilunum vann spilið, það var kallað að trekkja og þá fékk hann eitt stykki fyrir hvert spil sem hinir voru með á hendi.“
Þar sem púkk er spilað nú á dögum er algengast að nota eldspýtur sem gjaldmiðil en heyrst hefur að konfektmolar, smákökur, laufabrauð og uppvaskið yfir jólin sé ekki síðra að leggja að veði í púkkið.
Marías
Sami heimildarmaður lýsir marías á eftirfarandi hátt: „Fyrst lærði maður marías, hann spiluðu tveir. Þá voru teknir úr spilunum tvistar og upp í sexur. Gefin voru fimm spil, einu flett upp og það var tromp. Ef gott spil var tromp þá mátti maður taka spilið ef maður fékk sjöið. Það var kallað að kaupa undan. Svo var farið að spila. Forhöndin sló út, þá tók maður slaginn eða trompaði ef það var hægt. Sá sem fékk slaginn dró fyrr úr stokknum. Þegar stokkurinn var búinn þá var hvor með fimm spil á hendi. Þá vandaðist nú málið. Þá varð maður að bekenna sem kallað er, láta sömu sort. Þá mátti ekki svíkja lit. Þá var farið eftir lögum enda lítið um lögfræðinga til að flækja lögin. Svo var talið úr spilunum, 50 í ásnum, 40 í kónginum, 30 í drottningunni, 20 í gosanum og 10 í tíunni, 10 fyrir síðasta slag, 20 fyrir hjón og 40 fyrir tromphjón,
300 fyrir veltiblankkort ef maður fékk alla trompfamilíuna á hendi í einu, 150 fyrir blankkort tromplaust og sá græddi sem fékk fleiri hundruðin og tugina.“
Alkort
Alkort er meðal elstu spila á Íslandi og var mest spilað á jólum. Til eru tvær útgáfur tveggja manna og fjögurra manna alkort. Fjögurra manna alkort er spilað svona: Tíurnar og fimmurnar teknar úr spilunum. Spilaröðin er mjög frábrugðin því sem gengur og gerist, tígulkóngurinn er hæstur, þá hjartatvisturinn, lauffjarkinn, spaðaáttan, hjartanían, tígulnían. Ásarnir koma svo á eftir þessum spilum, gosarnir á eftir þeim, þá sexurnar, átturnar (að spaðaáttunni undantekinni auðvitað). Hin spilin eru sögð blóðónýt hrök sem ekkert gildi hafi nema að sjálfsögðu á hæsta spil í hverjum lit slaginn ef allir leggja út hrök og í slíkum tilvikum drepa tvistarnir kónginn (ath. tígulkóngur er undantekning) og drottninguna en þristarnir drottninguna þótt kóngurinn sé hærri en þeir. Sjöurnar eru bæði hæstar og lægstar í spilaröðinni; séu þær settar út af þeim sem er í forhönd getur ekkert spil drepið þær, en þær má ekki setja út fyrr en maður hefur fengið slag, en séu þær settar út í slag þegar annar er í forhönd eru þær lægstar allra spilanna.
Þegar fjórir spila alkort skiptast menn í tvö lið og draga sig saman með spilunum. Venjan er sú að litur ráði liðskipan en ef margir draga sama lit eru tölurnar látnar ráða og þeir sem næstir eru hverjir öðrum að tölugildi spila saman. Gjafarinn stokkar því næst spilin og sá sem er í forhönd tekur ofan af stokknum og gefið af þeim hluta sem ofan var tekinn fyrst. Venjulega reyna menn að kíkja á neðsta spilið og sjá til þess að það sé gott. Gjafarinn gefur síðan og á hann venjulega hægt með að sjá hvar neðsta spilið lendir. Hverjum manni eru gefin níu spil og þau sem eftir eru lögð á borðið. Átta spil eru í stokknum og venjan er sú að geti einhver ekki lagt út í sama lit og er í fyrsta slagnum eða ef hann hefur ekki svo hátt spil á hendi að hann geti drepið einhverja áttuna þá má hann fleygja sínum spilum nema einu og taka stokkinn í staðinn. Sumir gera ráð fyrir að spilafélagar í alkorti fái að sjá spil hvor annars en aðrir hafa þá reglu að það megi ekki. Síðan er spilað þar til annað hvort liðið hefur fengið fimm slagi og eru þeir þá sigurvegarar.
Alkort var mikið spilað sérstaklega á jólum og um áramót. Ekki er þó hættulaust að spila það á jólanóttina. Sagt var að þegar illindi yrðu yfir alkorti á jólanóttina eða haldið væri áfram að spila eftir að háheilagt væri orðið kæmi sá vondi oft í spilin í líki annars tígulkóngs. Þá var talað um að fjandinn væri kominn í spilið.
Hjónasæng
Hjónasæng er bráðskemmtilegt spil og var víða mikið spilað. Byrjað er á að teikna mynd á blað sem sett er á mitt spilaborðið. Teikningin lítur oftast út eins og sjá má hér á síðunni. Álmurnar eða armarnir út úr sænginni verða að vera jafnmargir og spilararnir. Fyrsti hringurinn við endann á hverjum armi heitir koppur, strikið sem er höfn númer tvö heitir koppbarmur, þriðja höfn er pallstokkurinn, fjórða rúmstokkurinn og sú fimmta sjálf hjónasængin. Hver spilari hefur einhvers konar tákn sem hann færir eftir höfnunum, það getur verið glerbrot, eldspýta eða smákaka. Gjafarinn gefur næst fimm spil og forhandarmaður slær út. Sá drepur slaginn sem á hæsta spil í sama lit og er á borðinu og hann kemst á koppinn, næst bograr hann upp á barminn því næst er haldið áfram þar til einhver spilaranna hefur náð að komast í hjónasængina.
Venjulega þóttist sá sem komst í hjónasængina hafa himin höndum tekið, enda var víða siður að velja brúði í sængina áður en byrjað var að spila og yfirleitt laglegustu stúlku sem völ var á. Hins vegar þótti hin versta skömm að komast ekki lengra en á koppinn og orðtakið að komast á koppinn er þaðan runnið. Litlu betra þótti þó að húka eftir á rúmstokknum þegar annar skaust fram hjá manni í sængina og hefur það sennilega verið þeim sem kúrði á koppnum nokkur huggun harmi gegn.
Við látum svo fylgja nokkur góð ráð fyrir þá tapsáru til að tryggja þeim sigur.
Beri maður á sér hjarta, lifur og tungu úr hrafni vel þurrkað í vindi er næsta víst að hann hafi sigur við spilaborðið.
Tak hálft hesthjarta, þurrka við sól og rauðmagaskjöld þurran og ber um háls þér þá er engin hætta á tapi.
Tak lifur og lungu úr hrafni og fremstu fjöður úr hægri væng. Þurrka síðan og ber milli brjósta þér og muntu þá sigur hafa í öllum spilum.
Viljur þú í spilum sigur hafa, haf á þér hart hrafnshjarta en vinnur þú þá ekki þá nú þú spilunum við það og tak höfuðhár af svörtum ketti og ber undir skyrtunni við úlnliðinn.







