Á tískuvikunni í París gengu pallana fyrir L‘oréal sumar glæsilegustu konur heims en þær sem skinu hvað skærast og stálu senunni voru á sjötugs, áttræðis, níræðis og tíræðis aldri. Það voru þær Gillian Anderson, Andie McDowell, Helen Mirren og Jane Fonda.
Samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins var þema tískusýningarinnar að þessu sinni slagorð frönsku byltingarinnar, frelsi, jafnrétti og systralag eða liberté, égalité og sororité. Í þeim anda lá auðvitað beinast við að sýna fjölbreytileika kvenna og að L’oreal vilji þjóna þörfum allra, gefa þeim trú á sjálfa sig og vellíðan, vegna þess að hafa trú á sjálfri sér á ekki að vera lúxus heldur sjálfgefinn réttur.
Aðspurð sagðist Helen Mirren umsvifalaust hafa þegið boðið þegar haft var samband við hana og hún beðin að taka þátt. „Og það gerist ekki oft en er mjög til marks um breytt viðhorf, breytta tíma og þau framfaraskref sem konur hafa stigið í gegnum tíðina. Svo ég var hissa,“ sagði hún. „Ég var líka mjög spennt, fannst þetta heiður og mjög ánægð líka.“
Svo hélt hún áfram og bætti við: „Verandi ambassador fyrir snyrtivörufyrirtæki hefur mig alltaf langað að segja: Við erum ekki að reyna að vera fallegar, við erum að reyna að vera sannarlega, raunverulega, gleðilega og algjörlega við sjálfar hvort sem við erum fallegar eða ekki.“
Helen er áttræð frá því í júlí í ár, Andie McDowell er sextíu og sjö ára, Gillian Anderson fimmtíu og sjö og Jane Fonda tæpra áttatíu og átta ára fædd 21. desember 1937. Allar eru þær ambassadorar fyrir L’oreal en merkið hefur verið leiðandi að þessu leyti og þetta er ekki í fyrsta sinn sem konur um og yfir miðjan aldur eru valdar til að vera fulltrúar þess.