Gullveig Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri skrifar.
„Þú veist hvaða dagur er í dag,“ sagði minn heitt elskaður við mig einhverju sinni. „Ertu að hugsa um vikudag eða mánaðardag?“ svaraði ég og leit á dagatalið á skrifborðinu mínu. „Það er brúðkaupsdagurinn okkar,“ sagði hann þá kíminn og sigurviss yfir að hafa munað daginn á undan mér. En það fyndna var að þetta var alls ekki brúðkaupsdagurinn okkar.
Hann var tveimur dögum áður og hvorugt okkar mundi eftir honum. En þó að við hefðum gleymt brúðkaupsdeginum mundum við bæði eftir að segja hvort við annað ýmislegt sem í fljótu bragði virðist ekki ýkja merkilegt en skiptir þó öllu máli þegar upp er staðið: „Hvernig svafstu? Hvernig líður þér? Viltu kaffi? Nennirðu að lesa þennan texta fyrir mig? Á ég að hjálpa þér?“ Við mundum eftir að segja margt fleira í þessum dúr þó að brúðkaupsdagurinn hafi farið fram hjá okkur báðum. Við mundum allt þetta litla sem gerir í rauninni tilveruna svo dásamlega.
Í framhaldi af þessari skemmtilegu uppákomu fór ég að velta vöngum yfir hvað það er sem mest um vert er að geyma í minningunni. Ég var erlendis þegar mamma mín dó og ég var líka erlendis þegar kær vinkona mín var jörðuð fyrir nokkrum árum. Ég man ekki dánardag mömmu minnar en ég man svo ótalmargt sem hún var og gerði enda hafði hún ómæld áhrif á líf mitt og tilveru. Hún var mamman sem ég elskaði og var óendanlega stolt af. Þó að styttra sé síðan vinkonan var jörðuð man ég heldur ekki dánardag hennar. Ég mun hins vegar aldrei gleyma öllum góðu stundunum sem ég átti með henni á Líknardeildinni rétt áður en hún dó og öllum skemmtilegu samverustundum sem við áttum í gegnum áratugi.
Ég held að fátt breyti manni jafn varanlega og að missa barnið sitt. Það eru áratugir síðan ég missti litlu Hrund mína og það eru mörg ár síðan ég hætti að muna dánardag hennar. Ég man hins vegar fæðingardag hennar mjög vel og ég man eftir ótal mörgu sem hún var og gerði áður en hún veiktist. Ég man þegar hún byrjaði að ganga, hvað hún var fljót til máls og hvað hún var skemmtilegur persónuleiki. Ég hef hins vegar ekki lagt rækt við minninguna um veikindi hennar og dauða. Líklega af því að hvoru tveggja er of sárt en líka vegna þess að ég kýs að varðveita frekar góðar minningar.
Ég finn mér alltaf eitthvað til þess að hlakka til og ég legg rækt við að geyma góðar minningar. Litlu hversdagslegu hlutirnir finnst mér líka skipta meira máli en hátíðisdagar og stórviðburðir. Hversdagslegir hlutir og smáatriði eru mun fyrirferðarmeiri í lífi okkar en tyllidagar og stórmál. Ef við leggjum rækt við hið hversdagslega og njótum þess verður lífið svo miklu skemmtilegra og betra.
Þennan pistil birti ég á Fésbókarveggnum mínum en var bent á að hann ætti erindi víðar, t.d. hér á vef Lifðu Núna.