Styrmir telur áhrif Morgunblaðsins hafa verið ofmetin

Blaðamannafélag Íslands hefur gefið út bókina Í HÖRÐUM SLAG, Íslenskir blaðamenn II en í henni er rætt við 15 blaðamenn sem voru handhafar skírteina 9-23 hjá Blaðamannafélaginu.  Áður var komin út bók um handhafa skírteina frá 1-10.  Kristinn Ingvarsson ljósmyndari tók portrett myndir af öllum blaðamönnunum í bókinni. Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður tók viðtölin og segir það hafa verið óhemju skemmtilegt verkefni. Blaðamennirnir sem þarna er rætt við hófu störf í blaðamennsku á sjöunda áratugnum og í bókinni segir að það sé táknrænt fyrir þennan tíma að einungis ein kona sé í þessum hópi, enda var blaðamannastarfið á þeim tíma karlastarf.  Þarna er lýst fjölmiðlaheimi sem er að einhverju leyti horfinn. Lífinu í fremstu víglínu fréttanna, persónum og leikendum í þjóðlífinu á þessum tíma, vinnufélögum, andrúmsloftinu sem ríkti á fjölmiðlunum og í samfélaginu, vinnubrögðum og tækni. Rifjaðar eru upp eftirminnilegar fréttir, Vestmannaeyjagosið, önnur eldgos og náttúruhamfarir. Skipsskaðar, landhelgisdeilan við Breta, skákeinvígi Fishers og Spassky og innrásin í Tékkóslóvakíu, svo fátt eitt sé nefnt.  Hérna koma ýmsir áhugaverðir kaflar úr bókinni. Grípum niður í frásögn Magnúsar Finnssonar handhafa blaðamannaskírteinis númer 10.

Á áttunda áratugnum eftir útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands í fimmtíu og síðar tvö hunduð mílur var landhelgismálið eitt helsta fréttaefni fjölmiðla. Umfjöllun um það var mikið á minni könnu hvað Morgunblaðið varðaði og leiddi mig í margs konar ævintýri. Ég var til dæmis ásamt breskum sjónvarpsmönnum um borð í varðskipinu Þór í ársbyrjun 1976 þegar freigátan Andromeda keyrði á skipið og laskaði það talsvert.  Áður en þeir stímdu á varðskipið sagði Helgi: „Haldið ykkur fast.“ Og það veitti ekki af því, svo mikið var höggið.

Ingvi Hrafn Jónsson, blaðamannaskírteini nr. 13

 Tvær fréttir sem ég kom að eru mér minnisstæðar. Harmleikurinn á Ólympíuleikunum í München er önnur þeirra, þegar gíslarnir voru teknir og drepnir. Björn Vignir Sigurpálsson var í München. Við náðum sambandi klukkan hálfeitt um nóttina og ég hélt símanum opnum til klukkan tvö. Á AP-printernum komu fréttir um atburðina þarna klukkan hálf tvö. Blaðið var að fara í prentun og ég var tilbúinn með þrjár mismunandi fyrirsagnir. Ein var á þessa leið: „Allir gíslarnir féllu.“ Svo hringdi „printerinn“ á slaginu tvö og um leið sagði Björn Vignir „Þeir eru allir dánir“. Við náðum að prenta þetta með stríðsletri. Ég átti bágt með að sofna eftir þetta fyrr en undir morgun vaknaði ég við það að Jón Múli Árnason var að lesa í útvarpinu frásögn af þessum atburðum upp úr Morgunblaðinu.

Sigtryggur  Sigtryggsson sem var fréttastjóri á Morgunblaðinu í 35 ár, er handhafi blaðamannaskírteinis númer 19.

„Viku eftir þetta, í lok nóvember, skrifaði ég litla frétt eftir lögreglunni í Keflavík:“Manns saknað í Keflavík.“ Þetta var fyrsta fréttin sem skrifuð var um Geirfinnsmálið. Þessa frétt skrifaði ég svo sannarlega án þess að átta mig á hvers konar risamál þetta átti eftir að verða. Lögreglan í Keflavík vildi með þessari smáfrétt koma á framfæri óskum um að fólk léti vita ef það vissi eitthvað um afdrif Geirfinns Einarssonar. Geirfinnsmálið fylgdi mér svo allan tímann sem ég var í almennri blaðamennsku á Morgunblaðinu.

Úlfar Þormóðsson,blaðamannaskírteini nr. 22, var blaðamaður á Þjóðviljanum og var spurður hvort blaðamenn þar hefðu reynt að gæta hlutleysis í fréttaskrifum.

Nei, nei. Þessi hópur blaðamanna á Þjóðviljanum var mestmegnis sósíalistar. Við höfðum sósíalíska sýn á samfélagið. Við skrifuðum út frá okkar sýn. Ég man eftir því, einhvern tímann í upphafi starfs míns á Þjóðviljanum, að ég var að keyra til Reykjavíkur eftir kennslu og eitthvað hafði gerst niðri við höfnina. Ég fór þangað og skrifaði frétt um málið. Að því loknu ók ég suðureftir. Á heimleiðinni hlustaði ég á útvarpið. Þar var bara allt önnur frásögn af atburðunum við höfnina en mín Ég fékk nánaast taugaáfall á leiðinni yfir því hvers konar asni ég væri. Af hverju ég hefði skrifað fréttina svona. Ég hringdi ekki inneftir til að láta taka fréttina út en morguninn eftir var þriðja útgáfa af þessum atburðum í Mogganum og sú fjórða í Tímanum.  Þá hugsaði ég „Okei, svona er þetta bara“. Ég tek fram að þarna var ekki um pólitíska frétt að ræða. Þótt ég væri búinn að gera mér grein fyrir mismuninum á dagblöðunum hafði ég ekki gert mér grein fyrir að sýnin væri svona ólík að grunnþætti. Allar fréttirnar voru þó réttar sem slíkar og engin rangtúlkun á viðburðunum.

Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins, með blaðamannaskírteini nr 17, var alveg á hinum enda lifrófsins miðað við Úlfar Þormóðsson og  er í bókinni spurður að því hvað hafi verið jákvæðast við að vera ritstjóri svona stórs dagblaðs á okkar mælikvarða.

„Maður kynntist samfélaginu mjög vel og lærði að skilja það, kosti þess, galla og veikleika. Einnig kynntist maður fólki. Ég gat hins vegar aldrei tekið undir þá skoðun, sem var mjög ríkjandi í langan tíma, að Morgunblaðið hefði verið skoðanamótandi.  Ég fann sjálfur að stundum hafði blaðið mikil áhrif út í samfélagið og stundum ekki. Ég gat aldrei greint hvers vegna þetta var svona, ég bara fann það. Stundum skrifaði maður út í tómið og svo allt í einu hitti maður á einhverja æð og allir tóku eftir því. Mér hefur alltaf fundist umtal um hin miklu áhrif Morgunblaðsins á seinni hluta 20. aldar vera mikið ofmat. Ekkert eitt blað hefur haft svo mikil áhrif sem af var látið, einkum af andstæðingum þess“.

En hvað skyldu blaðamennirnir segja  um blaðamennskuna í dag. Kári Jónasson gamalreyndur fjölmiðlamaður hafði blaðamannaskírteini númer 12.

Mér finnst áberandi í dag hvernig sumir fjölmiðlar vaða fram með sögur sem sagðar eru einhliða. Þeir keyra á aðra hliðina og segja svo að ekki hafi náðst í aðra aðila. Það  er hættulegt að gera þetta, það þarf að fá fram sem flest sjónarhorn á sama tíma. Ekki fá eitt í hádegi og annað að kvöldi. Menn ættu að hysja upp um sig buxurnar hvað þetta snertir. Og yfirvöld verða að vera tilbúin til að koma fram með sína hlið á málum.  Of erfitt er orðið að komast að hinum ráðandi í stjórnkerfinu. Í Landhelgismálinu var hægt að hringja til dæmis í forsætisráðherra eða aðra valdamenn. En nú fá menn samband við ritara sem  spyr um hvað eigi að ræða. Svo kemur svarið eftir hálftíma og þá er það kannski „Talaðu við mig eftir helgi.“  Mér finnst þróunin um of í þá átt að menn segi: „Samkvæmt upplýsingalögum þá má ég ekki segja þetta eða þetta.“ Menn skýla sér á bak við þau. Áður gat maður fengið bein svör um hvað var á seyði. Mín tilfinning er sú að þó menn tali um meira gagnsæi hafi leyndin aukist . Meira er lokað á en opnað. Svör við skriflegum fyrirspurnum koma oft ekki fyrr en fréttin er búin.“

Jóhanna Kristjónsdóttir, eina konan í bókinni, með blaðamannaskírteini nr. 16, var spurt hvort henni fyndist blaðamennska nútímans sjálfstæðari en áður var.

„Sjálfstæði er svo teygjanlegt hugtak. Stundum finnst mér ekkert varið í þetta svokallaða frelsi blaðamanna núna. Mér finnst það vera óskaplega sjálfhverft og sjálfsupptekið, dálítið hégómalegt. Það var lögð á það rík áhersla á fyrstu árum mínum á Mogganum að blaðamaðurinn væri aukaatriði. Hann miðlaði en ætti ekki að láta að sér kveða. Á fyrstu árunum  birtum við ekki greinar undir nöfnum, í hæsta lagi undir upphafsstöfum okkar. En slíkt var þó gert í erlendum blöðum og var gert í Morgunblaðinu“

Bókina prýða frábærar ljósmyndir eftir Gunnar V. Andrésson ljósmyndara sem var með skírteini númer 20. Honum finnst hafa orðið miklar breytingar frá fyrri tíð í fréttamennskunni.

Já, ekki síst hvað varðar aðgengi. Það sem maður gat gert í gamla daga sem fréttaljósmyndari er nú alveg bannað. Ég get nefnt dæmi sem mér finnst sláandi. Það er ekki hægt að segja sögu þingsins nú á sama hátt og áður sem ljósmyndari. Fyrstu árin mín í ljósmyndun gekk maður út og inn í þinginu. Nú er maður tortryggður í hverju skrefi sem maður stígur í Alþingishúsinu. Það er búið að loka á og stía fjölmiðlamönnum frá, nánast í réttu hlutfalli við hve Alþingi er, samkvæmt skoðanakönnunum, lágt skrifað meðal almennings. Þannig horfir þetta við mér.

 

 

Ritstjórn desember 21, 2016 13:39