Það getur verið erfitt að kaupa gjafir handa tengdadætrum sínum, sérstaklega ef sambandið við þær er ekki sérlega gott. Hvort sem það er jólagjöf, afmælisgjöf eða bara gjöf sem þig langar að koma á óvart með, láttu þér þá detta eitthvað í hug sem ekki þarf að kaupa. Vefurinn Grandparents.com spurði nokkrar tengdadætur hvers þær óskuðu sér helst frá tengdamæðrum sínum. Svörin gætu komið á óvart.
1 Sögur af syni þínum.
Alveg eins og ömmubörnunum, finnst tengdadóttur þinni gaman að heyra fyndnar eða hugljúfar sögur af syni þínum þegar hann var lítill. Þessar sögur sýna henni hver hann er, eða draga upp myndir sem tengdadóttir þín sér ekki endilega, því hún þekkti hann ekki þegar hann var lítill. Gamlar myndir eru líka vinsælar og það getur vakið hlátrasköll að gefa sér tíma til að segjast niður með fjölskyldualbúmin og fletta þeim einn eftirmiðdag.
2 Hrósaðu henni
„Þið hugsið kannski ekki út í það, en það er mikilvægt fyrir okkur að vita hvað ykkur finnst“, segir ein tengdadóttirin sem Grandparents.com ræddi við. Hún á tvær dætur á unglingsaldri. „Ef þið teljið að við séum að gera eitthvað rétt, látið okkur endilega vita“. Það er aukabónus í þessu, því með því að með því að hrósa tengdadótturinni gæti hún líka farið að hrósa ykkur.
3 Útvegaðu þér tæknileiðbeiningar.
Þegar kemur að tæknimálum, er tengdamóðir mín hætt að biðja manninn minn um aðstoð, því hann verður svo pirraður. Þannig að hún spyr mig“, sagði ein tengdadóttirin. „Ég reyni að hjálpa því hún vill tala við ömmustrákinn sinn, en það er erfitt að finna út úr því þegar maður er ekki á staðnum, hvaða takka hún rak sig óvart í“. Hún bendir á að það séu til alls kyns leiðbeiningar fyrir síma og snjalltæki og nefnir sérstaklega leiðbeiningar sem kallast Is This Thing ON? A Friendly Guide to Everything Digital. Og tengdamæðrum er í þessari grein bent á að útvega sér slíkar leiðbeiningar og koma tengdadætrum sínum á óvart með tæknikunnáttu sinni!
4 Bjóddu fram aðstoð
Hugsaðu tilbaka um þegar þú varst að ala börnin þín upp. Það var svo margt í gangi og þú hafðir oft þörf fyrir aðstoð. Þannig er það líka með tengdadæturnar og það er þakklátt ef þú ert tilbúin að gera eitthvað fyrir þær svo sem eins og hreinsa af borðinu, eða passa barnabörnin einn eftirmiðdag. Það skiptir máli fyrir sambandið við tengdadótturina að bjóða fram einhverja aðstoð, jafnvel þó það sé ekki mikið. „Ef það er gert finnst mér að tengdamóðir mín skilji hvað það getur verið erfitt að ala upp barn og að henni standi ekki á sama um hvernig gengur“, segir ein tengdadætranna sem á tvö ung börn.
5 Sýndu virðingu
Það má segja þetta á einfaldan máta. Tengdadóttir þín vill að þú komir fram við hana á sama hátt og þú kemur fram við góða vinkonu þína. Það skapar gott samband. „Hringdu áður en þú kemur í heimsókn og virtu reglur heimilisins um háttatíma og aga“ segir tengdadóttir sem á ungan son og dóttur. Það má bæta við þetta „Leitaðu ráða hjá tengdadóttur þinni og spurðu hana hvað henni finnst. Það getur orðið til þess að hún vilji einnig leita ráða hjá þér“.
6 Deildu fjölskylduuppskriftum
Ert þú snillingur í að búa til pasta, eða bakarðu bestu pönnukökur sem hægt er að hugsa sér? Ertu enn að nota uppskriftir frá mömmu þinni og ömmu? Ef þú gefur tengdadóttur þinni þessar uppskriftir, finnst henni að hún sé mikilvægur hlekkur í fjölskyldusögunni. Skrifaðu nokkrar uppskriftir á tölvuna og prentaðu út, eða sendu henni þær á rafrænu formi. Það má líka hugsa sér að búa til sérstaka matreiðslubók á netinu, sem hún getur haft í eldhúsinu. Mundu bara að leggja áherslu á að þú ert að gefa henni uppskriftirnar vegna þess að þú heldur að hún hafi gaman af þeim, ekki vegna þess að hún sé svona lélegur kokkur.
7 Gefðu ráð þegar þú ert spurð
„Margar mæður eru svo nýjar í hlutverkinu að þeim finnst gott að fá ráðleggingar um uppeldið“, segir enn ein tengdadóttirin sem rætt var við. „En stundum upplifir maður ráleggingarnar sem gagnrýni, sérstaklega ef þær eru óumbeðnar“. Það er mikilvægt að hlusta vel á tengdadóttur sína og taka upp þráðinn í samtali við hana. Ef hún er að leita ráða, orðaðu hlutina þá þannig. „Ég var vön að hafa þetta svona“….eða „Þetta virkaði vel á sínum tíma“. Þá upplifir hún ráðin ekki sem gagnrýni.
8 Myndir og vídeó
Ef barnabörnin eru mjög ung, er ekki ósennilegt að tengdadóttir þín og sonur séu alltaf á hlaupum á eftir þeim og hafi ekki mikinn tíma til að taka fjölskyldumyndir eða vídeó. Þá finnst þeim æðislegt að fá myndir eða vídeó sem þú hefur tekið af barninu þeirra, á mikilvægum stundum, eða af því að leika sér. Jafnvel bara myndir af fjölskyldunni að dást að barninu. Sumarleyfi og aðrar samverustundir eru upplagðar til að taka myndir. Ef þú átt myndir, sendu tengdadóttur þinni þær og hún verður þér ævinlega þakklát.