Þakklæti er mikilvæg tilfinning. Að mörgu leyti er hún meðfædd en hana þarf engu að síður að rækta og ástunda alla ævi. Líklega þekkja allir gleðina sem grípur menn þegar þeir eru raunverulega þakklátir betur fer en margir eru hins vegar of uppteknir af því velta fyrir sér hvað skorti á til að meta það sem þeim er gefið til fulls. Á þessum árstíma þegar hin mikla pakkahátíð jólin er framundan er gott að velta fyrir sér þakklætinu og hvernig ber að ástunda það. Flestir hafa líklega einhvern tíma komist í hann krappann og sloppið naumlega. Léttirinn og gleðin sem streymir um þá eftir slík atvik er hreint þakklæti. Að þessu leyti er þakklæti meðfædd tilfinning og sameiginleg öllum.
Í daglegu lífi þegar engin hætta steðjar að eða vandi sem tekst að leysa farsællega er þakklætið hins vegar fjarri huga flestra. En einmitt þar má bæta um betur og halda í heita þakklætistilfinningu með því að leggja sig eftir því að finna hluti til að vera þakklátur yfir.
Þakklæti eykur hamingju
Rannsóknir vísindamanna hafa sýnt að þeir sem eru þakklátir eru almennt hamingjusamari og heilsubetri en aðrir. Þeir eru einnig lausir við hroka og eiga í betri samskiptum við aðra. Hrokagikkir sem telja sig eiga allt gott skilið finna sjaldnast til nokkurrar gleði þótt þeir öðlist það sem þeir helst þráðu. Öðru máli gegnir um hina þakklátu.
En þakklæti þarf að þjálfa. Foreldrar ættu að kenna börnum sínum að vera þakklát fyrir þær gjafir sem lífið gefur þeim. Það má gera á marga vegu en sú áhrifaríkasta er að vera góð fyrirmynd. Skoðaðu til dæmis hvernig þú bregst við þeim gjöfum sem þú færð. Sýnir þú gleði eða lætur þú í ljós vonbrigði ef gjöfin er ekki einmitt nákvæmlega það sem þú óskaðir þér? Skilar þú ávallt gjöfum sem aðrir gefa þér? Þegir þú fremur en að segja nokkuð ef gjöfin er þér ekki að skapi? Gleymir þú strax eftir að pakkinn hefur við opnaður hver gefandinn var?
Ef þú svarar þessum spurningum játandi getur þú ekki búist við að börnin þín þekki þakklæti. Frá aldaöðli hafa menn notað ýmsar leiðir til að sýna þakklæti sitt og nefna má að lengi var viðtekin venja að senda þakkarbréf eftir veislur þar sem gjafir voru gefnar. Í Bandaríkjunum hefur þessi siður verið að sækja í sig veðrið aftur og nú er algengt að brúðhjón sendi handskrifuð þakkabréf til allra sem færðu þeim gjafir. Hið sama gildir um stórafmæli, svokölluð baby showers og eftir matarboð. Það tíðkast einnig að fær gestgjafanum gjöf og sumir gestgjafar setja litla gjafapoka við hvern disk í boðinu. Allt í þeim tilgangi að sýna að fólk sé metið og viðkomandi sé þakklátur fyrir að gestir hans hafi verið tilbúnir til að gleðjast með honum.
Nokkrar leiðir til að ástunda þakklæti
En hvort sem menn kjósa að skrifa hlýleg bréf til að þakka fyrir sig, gefa gjöf á móti eða einfaldlega kyssa gefandann næst þegar þið hittist eru nokkrar leiðir vænlegar til að auka þakklæti sitt og kenna börnum að vera þakklát. Margt fleira má auðvitað gera til að auka þakklæti sitt og ástunda það en þetta er góð byrjun.
- Leggðu á minnið hver gefur þér hvaða gjöf og þakkaðu gefandanum næst þegar þið hittist. Kenndu börnunum þínum að gera það sama.
- Reyndu að finna fyrir gleði hvað sem kemur upp úr pakkanum og mundu að hugurinn að baki er mikilvægastur.
- Ef þú ákveður að skila gjöfum gerðu það þá þannig að lítið beri á. Ekki láta börnin þín eða fjölskyldumeðlimi sjá að þitt fyrsta verk sé ævinlega að fara og skila því sem þér er gefið.
- Taktu þér tíma á hverjum degi til að velta fyrir þér öllu því sem þú getur verið þakklát/ur fyrir og vertu viss það mun koma þér á óvart hversu margt það er. Leggðu þig líka fram um að finna eitthvað nýtt í hvert sinn sem þú veltir þessu fyrir þér.
- Hrósaðu öðrum og gleðstu yfir velgengni þeirra.
- Gefðu af þér í sjálfboðastarfi eða með því að rækta þá sem eru í kringum þig. Hringdu í vini þína, gömlu ættingjana og spjallaðu ef þú hefur ekki tíma til að fara í heimsókn
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







