Líklega er sama hvar tveir Íslendingar koma saman, fyrr eða síðar verður farið að tala um veðrið. Þetta klassíska umræðuefni er einnig einn besti ísbrjótur sem hugsast getur í vandræðalegum veislum þegar gestir þekkjast ekkert alltof náið. Auðvitað er ástæða fyrir þessu, veðrið hér er síbreytilegt og skiptir okkur gríðarlegu máli, í það minnsta mun mikilvægara en gengur og gerist á stöðum þar sem sólin skín nánast upp á hvern dag allan ársins hring. En lítum á nokkrar sérkennilegar staðreyndir um Íslendinga og veður.
Merkilegur orðaforði
Í íslensku eru til á annað hundrað orð til að lýsa vindi, ríflega hundrað í viðbót til að lýsa snjó, snjóalögum og svelli og frosti. Sólskin er hins vegar alltaf bara sólskin þótt það sé vissulega hálfskýjað eða heiðskírt.
„Þegiði það er verið að lesa veðrið“
Þegar Ríkisútvarpið hóf útsendingar 20. desember árið 1931 voru veðurfréttir strax stór hluti dagskrárinnar. Veðurstofa Íslands hafði verið stofnuð 1. janúar árið 1920 og þá strax voru veðurspár hluti starfseminnar. Með tilkomu útvarpsins gafst einstakt tækifæri til að koma þeim á framfæri við alla landsmenn. Algengasta setning á heimilum bænda og sjómanna hringinn í kringum landið varð eftir það: „Þegiði það er verið að lesa veðrið.“ Og veðurspáin í útvarpinu var heilög stund. Á því valt hvort róið yrði næsta dag eða hægt að ná inn heyjum af túninu sem slegið var í gær.
Ó hó, veðurfréttamenn
Sjónvarpið tók við af útvarpinu sem helsti fjölmiðillinn um allan heim og hér á landi varð sú breyting 30. september 1966. Fréttir voru vinsælasti dagskrárliðurinn og í lok hvers fréttatíma veðurfréttir. Þar stigu fram veðurfræðingar veðurstofunnar, virðulegir vísindamenn með kort og prik og fræddu landsmenn um ferðir lægða og myndanir hæða. Skýjafar, vindaspár og hjátrú tengd veðri voru þar einnig ásættanleg umræðuefni. Það er svolítið skemmtileg að bera þessa alíslensku fréttatíma saman við sama efni erlendis. Víða eru ungar glæsilegar stúlkur settar framan við veðurkortið vopnaðar prikum. Líklega er þetta vegna þess að veðrið er ekkert sérstaklega spennandi og því þarf að poppa það upp með konum í stuttbuxum, þröngum kjólum eða flegnum bolum. Í sumum tilfellum eru ungir karlmenn í sama hlutverki og hlutverk er réttnefni því oft taka atvinnulausir leikarar sem þetta starf að sér í þeirri von að geta vakið athygli framleiðenda og umboðsmanna með tilþrifum í lýsingum sínum á veðrinu næstu daga.
Það þekkist að valin sé kynþokkfyllsta veðurfréttakonan í Bandaríkjunum og hið sama gildir um veðurfréttamanninn. Hér á landi þyrftum við kannski að frekar að velja frumlegustu þverslaufuna eða nördalegustu gleraugun. Fyrir okkar augu koma nefnilega alvarlegir vísindamenn og flytja mál sitt af rökfestu og einlægni. Kannski ekki nema von að landsmenn hafi látið sig dreyma um að safnast saman til fjöldamótmæla við Veðurstofuna um mitt rigningarsumarið í fyrra. Þetta fólk virðist svo sannarlega vita hvað það er að tala um og auðvelt að ímynda sér að það hafi hæfileika til að blása burtu skýjum og hita upp ískalda hafgoluna. En þetta þýðir ekki að íslenskir veðurfréttamenn séu leiðinlegir. Langt í frá. Þeir kunna að lauma spennandi fróðleik og skondnum staðreyndum í mál sitt. Meira að segja strákar á stuttubuxum og stelpur í efnislitlum kjólum geta ekki keppt við það.
Veðurklúbbar
Á íslenskum elliheimilum eru starfandi nokkrir veðurklúbbar. Meðlimir koma saman og spá í veður næstu árstíðar ýmist með að lesa í kindagarnir, söng fugla í móa eða völubein. Allt er þetta byggt á fornum fræðum og hluti af menningararfinum. Þessu frábæra fólki rennur blóðið til skyldunnar og leitast því við að viðhalda gömlum alþýðuvísindum. Við hin getum svo lagt okkar lóð á vogarskálarnar með því að hlusta eftir fyrsta hrossagauksgali sumarsins, ef gaukurinn galar í norðri eru úti öll þraut. Hann segir einnig til um ríkjandi veðurátt sumarsins á sama hátt. Nú og ekki þykir boða gott ef kjóinn fer að væla, þá er von á vætu. Af flugi hrafna mátti einnig margt merkja, m.a. af hvaða átt vindurinn myndi blása næstu daga, hvort von væri á vondu veðri og hve lengi þurrkur héldi ef krumma varð vart í nágrenni bæjarins þegar hey lá á túnum. Dýrin voru líka veðurglögg og ef tófan nálgaðist byggð á haustin var nokkuð víst að veturinn yrði harður. Hið sama gilti ef köngulærnar spunnu vetrarkvíða á stráin. Húsdýrin létu eigendur sína vita ef von var á stormum og hríð. Forystuær komu heim á hús með hjörðina, hestar hímdu í höm og hundarnir drógu sig inn í bæ þegar óveður lá í loftinu.
Veður og túrismi
Loftslag og veðurfar hefur gríðarlega mikið að segja um hvert ferðamenn kjósa að fara. Hluti þeirra sækist eftir sólskini og blíðu meðan aðrir eru spenntir fyrir að kynnast snjó, kulda, regni og roki. Túristar koma ekki hingað í leit að yl og einsleitu veðri þvert á móti. Fyrir marga er hrein upplifun að hafa vindinn í fangið og rigninguna á hlið. Í hugum þess fólks er það hreint ævintýri hve skjótt veður geta skipast í lofti hér á landi en þó verður að játa að þegar sólin skín og skapar regnboga yfir Gullfossi og varpar ljóma á Þingvallavatn falla flestir í stafi yfir fegurðinni. Kjarrið og grasið er grænna, himininn dýrðlega blár og vötnin kyrr og djúp.
Aukinn vetrartúrismi á Íslandi er vissulega því að þakka að hér má vænta snjóa og norðurljósa. Menn eru undir það búnir að hér er kalt þótt margir misreikni vissulega aðstæður og kunni ekki á íslensku vindkælinguna og hálkuna. En að verða veðurtepptur uppi í sveit á Íslandi er í huga margra frábær viðbót í minningabókina.
Blessuð sólin elskar allt
Íslendingar elska flestir sólina. Löngu dimmu veturna þrauka menn í von um gott og sólríkt sumar og mikil eru vonbrigðin þegar það gengur ekki eftir. Rigningarsumarið 2018 verður líklega lengi í minnum haft sunnanlands, svona eins og sumarið 1955 sem enn er talað um. Á meðan höfuðborgarbúar skreiddust á fætur í grámyglulegri þungskýjahulu sáu menn norðanlands og austan oftar til sólar en sumarið var langt frá því gott. Evrópubúar böðuðu sig hins vegar í sólinni og hitabylgjan þar drap bæði fólk og gras. Norðmenn leitaðu til Íslendinga og keyptu hey því allt skrælnaði þar í landi í sólarbrækjunni.
En það má sólin eiga að þegar hún loks lætur sjá sig hér á norður í Atlantshafi að hún kallar á menn að vakna og vinna. Fólk streymir út úr húsunum með barnavagna, kerrur, hunda og göngustafi. Ísbúðirnar fyllast og gangstéttar miðbæjarins minna á stórborgir erlendis. Kaffihúsaeigendur flýta sér að bæta við borðum utandyra og sest er við þau jafnóðum og þau eru sett upp. Já, það er sól og sæla á landinu kalda.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.