Þingmenn hvattir til að ræða líknardauða

Þingmenn á Alþingi Íslendinga voru hvattir til þess á málþingi um líknardauða sem haldið var í gær, að taka umræðuna um að lögleiða hann hér á landi, svipað og gert hefur verið í Hollandi, Belgíu og Sviss. Það var fullt úr úr dyrum á málþinginu sem Siðmennt hélt á Hótel Sögu.

Sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins?

Á málþinginu voru reifaðar röksemdir með og á móti því að leyfa líknardauða. Svo sem eins og að sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins um eigið líf, ætti líka að ná til dauðans. Men ættu að hafa eitthvað um eigin dauðdaga að segja, enda ef ekki þeir, hver ætti þá að hafa það vald? Minnt var á að þaðþætti eðlilegt að lina óbærilegar þjáningar dýra með því að aflífa þau. En á móti koma þær röksemdir að það sé rangt undir öllum kringumstæðum að taka líf, ekki sé hægt að leggja slíkt á heilbrigðisstarfsmenn og yrði slík heimild lögleidd væri unnt að misnota hana og skapa þrýsting á að menn veldu að deyja.

Líknardauði í Hollandi og Sviss

Silviane Pétursson Lecoultre og Ingrid Kuhlmann lýstu reyslu sinni sem aðstandendur dauðvona manna sem ákváðu að deyja líknardauða. Þeir voru báðir langt leiddir af krabbameini. Í Hollandi var líknardauði leyfður með lögum árið 2002 og þar fær fólk að deyja á sjúkrahúsi. Í Sviss eru hins vegar starfandi samtök sem heita Dignitas, sem taka á móti erlendu fólki sem kemur þangað til að deyja. Í báðum þessum löndum þarf fólk sem vill deyja að fylgja ákveðnu ferli og uppfylla ströng skilyrði. Sá sem vill fá að deyja verður að hafa frumkvæði að því sjálfur.

Var rætt í 10-15 ár í Hollandi

Miklar umræður spunnust um þetta á málþinginu. Velt var upp ýmsum spurningum en langflestir af þeim sem tóku til máls voru þeirrar skoðunar að þetta mál þyrfti að ræða betur, enda hefði umræðan ekki verið mikil um þetta hér á landi. Þeirra á meðal var Þórlaug Ágústsdóttir sem Lifðu núna ræddi við nýlega. Sjá viðtal. Fram kom að í Hollandi var búið að ræða málið í 10-15 ár, áður en líknardauði var lögfestur þar. Hér á landi er meðferð dauðvona fólks stöðvuð, ef ljóst er að hún skilar engum árangri, og er það þá gert í samráði við fjölskyldu þess sem er að deyja. Menn veltu fyrir sér hvort það væri reginmunur á því og að hætta meðferð, eða leyfa fólki hreinlega að ákveða að deyja þegar öll von væri úti.

Fundarmenn ákváðu með lófaklappi að hvetja íslenska alþingismenn til að hefja þessa umræðu.

 

Ritstjórn janúar 30, 2015 15:45