Flestir hafa upplifað einbeitingarskort, óskýrleika í hugsun, pirring og að ná ekki að klára nokkurn hlut á einhverjum tímabilum um ævina. Þetta ástand er kallað heilaþoka og sumar konur tala um brjóstamjólkurþoku, aðrir upplifa þetta þegar þeir fljúga yfir mörg tímabelti og þjást af flugþreytu og þetta fylgir einnig timburmönnum. Nýjustu fréttir herma hins vegar að heilaþoka er einnig eitt af einkennum langtíma-covid og varir þá ekki í einn daga eða nokkra daga heldur einhverja mánuði og jafnvel ár.
Gleymska og vera utan við sig er einnig fylgifiskur heilaþoku og fólk sem almennt hefur átt auðvelt með einbeitingu og að fylgja hlutum eftir upplifir sig gerbreytt. Sumir segjast ekki þekkja sjálfan sig og finnst ákaflega óþægilegt að takast á við lífið við þessar aðstæður. Ýmsir aðrir sjúkdómar en Covid geta valdið heilaþoku, meðal annars hjarta- og æðasjúkdómar og gigtarsjúkdómar. Svefnleysi hefur einnig mikil áhrif á hæfni manna til að hugsa og vera virkt og getur valdið heilaþoku sé það viðvarandi.
Vísindamenn eru hins vegar rétt að byrja að birta niðurstöður sínar á rannsóknum á hvaða áhrif Covid 19 hefur á heilann og ekki hvað síst heilastarfsemi þeirra sem þjást af langtíma Covid. Nýlega var sagt frá því að sú stöð heilans sem nemur og greinir lykt er sjáanlega minni í heila þeirra sem hafa fengið Covid en hinna. Þetta á við hvort sem menn hafa orðið alvarlega veikir eða fundið lítil sem engin einkenni. Það er sama sagan með heilaþoku, ekkert samhengi er milli þess að veikjast illa og aukinni afleiðinga. Þeir sem sluppu vel og funduð lítið fyrir veirunni eða voru einkennalausir geta upplifað minnistap, einbeitingarskort og aukna klaufsku, þ.e. þeir missa frekar hluti út úr höndunum, finnst þeir þreyttir og kvarta undan að þeir nái ekki að hugsa heila hugsun. Í sumum tilfellum hverfa þessi einkenni eftir nokkrar vikur en í öðrum dragast þau á langinn og mörgum mánuðum seinna eru þau ekki fyllilega horfin. Vísindamenn eru ekki tilbúnir að fullyrða að þau geti varað árum saman, til þess er ekki komin nægilega löng reynsla en dæmi eru um fólk sem fékk Covid í byrjun faraldursins kvarti enn undan slíkum einkennum.
Hvers vegna veldur Covid 19 heilaþoku?
Það eru bólgur í heila sem eru orsakavaldur heilaþoku og þeirra einkenna er henni fylgja. Í raun er kórónuveiran ekki sú eina er veldur heilaþoku og margar aðrar veirur skilja fólk eftir með þessi einkenni þar á meðal inflúensuveirur og margir tala um inflúensuþoku í því samhengi Margvíslegum sýkingum fylgja líka bólgur í heila sýkingunni og það hefur áhrif hæfni heilans til vitsmunalegrar úrvinnslu, einbeitingar og athyglisgáfan minnkar. Lyme-sjúkdómurinn og krabbameinsmeðferðir geta einnig skapað svipuð einkenni.
En samkvæmt þeim sem til þekkja er heilaþoka af völdum Covid 19 sérstök og öðruvísi en það sem menn þekkja af öðrum orsökum. Í ofangreindum tilfellum hverfa einkennin af sjálfu sér um leið og fólk yfirvinnur inflúensuna, sýkinguna eða hættir meðferð en það á ekki við um Covid. Líkamleg einkenni eru horfin í sumum tilfellum og veiran mælist ekki lengur í líkamanum en samt eru viðvarandi bólgur í heilanum og heilaþokan því jafnþétt og hún var frá upphafi.
Bólgur eru viðbragð ónæmiskerfis líkamans við innrás hættulegra óvina á borð við bakteríur og veirur. Í flestum tilfellum hjaðna þær hratt um leið og kerfinu tekst að yfirvinna og sigra óvininn en af einhverjum ástæðum er það ekki tilfellið með kórónuveiruna. Það virðist einnig vera að hjá sumum einstaklingum vekji kórónuveiran meira og útbreiddara bólguviðbragð en sambærilegar veirur. Það eru sömuleiðis vísbendingar um að hún hafi bein áhrif á frumur í heila og kringum heila og skapi þess vegna bólgur í heilanum sjálfum.
Þetta er ástæða þess að jafnvel eftir að veiran hverfur úr líkamanum haldast bólgurnar og hjaðna mjög hægt. Uppi eru kenningar um hugsanlega sé vírusinn áfram í líkama sumra en í það litlu magni að það mælist ekki en samt nægjanlegu til að viðhalda þessum einkennum. Í byrjun faraldursins og rannsókna á honum töldu rannsakendur að langtíma-Covid væri fyrst og fremst afleiðing alvarlegra veikinda en nú hefur komið í ljós að bæði mild og meðalsterk viðbrögð við sýkingu af völdum veirunnar getur haft þessar afleiðingar.
Heilaþoka er einstaklingsbundin
Ekki nærri allir upplifa heilaþoku af völdum Covid 19 og hún er þess eðlis að einkennin eru mjög einstaklingsbundin. Sumir upplifa mikil og sterk einkenni meðan aðrir verða aðeins varir við lítilsháttar breytingu. Minnistap á ekki við um alla og heldur ekki klaufska. Einbeitingarskortur og minnkuð athyglisgáfa eru sömuleiðis mjög breytileg einkenni. Sumir finna fyrir mikilli þreytu en aðrir ekki. Hversu auðvelt menn eiga með að skipuleggja, vinna og ljúka verkefnum er meðal einkenna og það að geta gert fleiri en einn hlut í einu verður allt í einu óyfirstíganlegt.
Það hversu lengi áhrifin vara er líka ákaflega mismunandi og þess vegna erfitt að flokka alla í sama flokk eða benda á einhvers konar samnefnara milli þeirra sem glíma við þessar afleiðingar veirusýkingarinnar.
En vitað er að hjá sumum hefur þetta alvarleg áhrif á lífsgæði og hæfni manna til að vinna og njóta þess sama og þeir gerðu áður. Þetta er eitt af því sem vísindamönnum finnst heillandi við þennan vírus. Hann hagar sér ekki eins í neinum tveimur einstaklingum. Það er eitt af því sem hefur gert læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum erfitt fyrir í viðleitni sinni við að þróa meðferð til að hjálpa og veita aðstoð þeim sem hafa sýkst.
Líkamleg einkenni langtíma Covid
Líkamleg einkenni langtíma Covid eru algengust mikil þreyta og orkuleysi. Fólk sem var í góðu formi upplifir skyndilega gríðarlega afturför og það getur jafnvel ekki gengið nema nokkra metra í einu, stundum ekki upp stiga. Liðverkir eru algengir, svimi og höfuðverkir. Þegar þetta er mjög slæmt getur fólk orðið óvinnufært tímabundið eða jafnvel neyðst til að hætta að vinna.
Ráð og leiðir til úrbóta
Í flestum tilfellum hverfa einkenni heilaþokunnar, vísindamenn treysta sér enn ekki til að fullyrða að það sé algilt, ekki er nægur tími liðinn til að það sé hægt. En þeir sem hafa glímt lengst við einkennin segja þó að þau séu misslæm og oft líði dagar án þess að þeir finni fyrir þeim. Fyrsta skrefið til að bæta ástandið er að átta sig á hvað veldur og taka tillit til þessara einkenna, hætta að vinna þegar þau verða slæm, hvíla sig vel og hefjast síðan handa á ný. Það borgar sig einnig að ráðgast við lækni um hvort til dæmis bólgueyðandi lyf geta hjálpað í þínu tilviki, sjúkraþjálfun eða önnur úrræði.
Það er einnig mikilvægt að reyna að hreyfa sig því það eykur blóðflæði og hjálpar til við að draga úr bólgunum. Hreyfinguna þarf hins vegar að sníða að getunni á hverjum degi og ekki fara fram úr sér. Það er einnig mælt með að menn takist á við andlegar áskoranir á borð við minnisspil, krossgátur og aðrar þrautir. Það eflir hugann og sömuleiðis getur verið hjálp í skrifa lista yfir verkefni dagsins, minnismiða til að tryggja að ekki gleymist eitthvað sem nauðsynlegt var að muna og merkja við því sem lokið er.
Næringarfræðingar mæla einnig með að fólk forðist fæðu sem ýtir undir bólgur en í þeim flokki eru mettuð fita sem er algeng í kjöti, viðbættur sykur í alls konar fæðutegundum og unnin matvæli. Miðjarðarhafsmataræði er til dæmis ríkt af andoxunarefnum og þau hjálpa. Eins og nafnið bendir til vísar Miðjarðarhafsmataræði til þess fæðis sem algengt er að íbúar við Miðjarðarhafið neyti. Þar er mikið borðað af fersku grænmeti, ávöxtum og fiski. Baunir eru sömuleiðis algengar í mörgum réttum en allt þetta er talið hafa góð áhrif á efnaskipti í heilanum. Auk þess er mjög gott að passa upp á drekka nóg en ef líkaminn fær nóg vatn vinnur hann hraðar á bólgum. Að lokum er vert að benda á að sérfræðingar eru alltaf að læra meira um Covid og upplýsingaflæðið breytist nánast dag frá degi þegar nýjar rannsóknir og aukin þekking bætist við.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.