Þór Saari fyrrverandi alþingismaður

Þór Saari hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður hefur undanfarnar vikur dvalið í gríska Eyjahafinu. Hann segir að þetta sé löngu tímabært frí því hann hafi ekki komist í almennilegt leyfi árum saman. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til Grikklands. Eyjahafið er ótrúlega fallegt og mannlífið á eyjunum einstakt. Hér er ró og kyrrð yfir öllu og á sumum litlu eyjunum hefur maður á tilfinningunni að kettirnir nenni ekki einu sinni að hreyfa sig. En það fer að styttast í þessari ferð ég ætla að ljúka henni með því að vera nokkra daga í Aþenu,“ sagði Þór þegar Lifðu núna hafði samband við hann til spyrja hann hvað hann hefði fyrir stafni.

Þór varð þjóðþekktur í búsáhaldabyltingunni og ekki minnkaði frægð hans þegar hann kjörinn á þing 2009 fyrir Borgarahreyfinguna síðar Hreyfinguna. Á þingi sat hann eitt kjörtímabil. Áður en hann varð þingmaður hafði hann lagt gjörva hönd á margt.  Hann var í tíu ár til sjós, starfaði sem hagfræðingur hjá stofnunum í New York, vann hjá Sameinuðu Þjóðunum, var hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands og Lánasýslu ríkisins, auk þess hefur hann kennt í framhaldsskóla.

„Eftir að ég hætti á þingi tók ég að mér verkefni fyrr OECD en þegar því var lokið stóð ég uppi atvinnulaus. Það er ekki auðvelt fyrir fyrrverandi þingmenn að fá vinnu. Til að hafa í mig og á og til að standa við mínar skuldbindingar stofnaði ég lítið ferðaþjónustufyrirtæki og rak gistiþjónustu á Álftanesi fyrir erlenda ferðamenn þangað til í sumar. Þá ákvað ég að hætta og seldi fyrirtækið. Það var augljóst að það var að draga saman í ferðaþjónustunni. Það voru til mun færri bókanir í sumar og haust en árin á undan og þeir sem komu stoppuðu bara í eina eða tvær nætur í staðinn fyrir að vera í viku eins og algengt var. Ferðamenn segjast ekki hafa efni á því að vera á Íslandi það sé allt svo dýrt. Svo fannst mér líka bara komið nóg. Þetta er ekki sérlega gefandi starf. Margir sem koma hingað hafa engan áhuga á Íslandi vilja bara geta merkt við í kladdanum að þeir hafi komið hingað,“ segir Þór.

Það má því segja að Þór standi á ákveðnum tímamótum í dag. „Frá því ég hætti á þingi hef ég sótt um á annað hundrað störf og fengið jafnmörg afsvör. Ég hef sótt um allt mögulegt bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Ég hef til að mynda sótt um nærri tug starfa hjá Hagstofu Ísland og alltaf fengið staðlað bréf frá stofnuninni þar sem stendur að það hafi verið ákveðið að ráða ekki í starfið sem stendur. Það er ótrúlegt að vera vitni að þessu. Það eru ákveðnir aldursfordómar á vinnumarkaðnum, maður er runninn út á tíma. Samt vita allir sem vilja að fólk sem komið er á miðjan aldur eru bestu starfsmennirnir,“ segir Þór.

Hann segist samt ekki vera neitt sérstaklega svartsýnn. Hann hafi til að mynda velt því fyrir sér að kaupa sér skútu og fara í útgerð. „Ég gæti til dæmis boðið upp á siglingar við Ísland eða á Kanaríeyjum. Á þessu ferðalagi mínu hef ég svolítið verið að skoða þetta og þetta er alveg rosalega skemmtilegur og spennandi bransi,“ segir hann að lokum.

 

Ritstjórn nóvember 7, 2018 06:43