(Grein úr safni Lifðu núna)
Fólk er ekkert öðruvísi hér en annars staðar í þjóðfélaginu, fólk myndar ný sambönd á hjúkrunarheimilum og stundar kynlíf. Þetta segir Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir deildarstjóri iðjuþjálfunar á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hún segir að við fæðumst sem kynverur og það fylgi okkur alla ævi. „Kynlíf snýst ekki endilega um samfarir, heldur snertingu, nánd, faðmlög og kossa“ segir hún.
Efnið feimnismál
Sjálf fékk hún Siggu Dögg kynfræðing til að halda fyrirlestur á Hrafnistu í fyrra og var það í fyrsta skipti sem hún ræddi um kynlíf við þennan aldurshóp. Hún segir að fyrirlesturinn hafi verið vel sóttur, en efnið sé enn feimnismál. „Sú kynslóð sem nú er á hjúkrunarheimilunum fékk enga kynfræðslu og ræddi þetta ekki mikið sjálf. Eftir 20 ár, verður þetta áreiðanlega gerbreytt“ segir hún.
Kynlíf eykur vellíðan
Guðrún Jóhanna nefnir að flestir séu í einbreiðum rúmum, það sé ekki alltaf hentugt vilji þeir stunda kynlíf. Þetta sé ekki eins og hjá unga fólkinu. Hún segist vilja opna umræðuna um þessi mál. Kynlíf hafi góð áhrif á fólk, sé verkjastillandi og auki vellíðan. „Mögulega gæti það í sumum tilvikum komið í stað lyfja“, segir hún og hlær.
Aðstandendum ekki sama
Guðrún segir einnig að aðstandendur geti átt erfitt með að sætta sig við ný sambönd, sérstaklega ef einstaklingurinn er með minnisskerðingu. „En á meðan fólki líður vel saman og allt er innan velsæmismarka, er þetta þá ekki allt í góðu“, spyr hún. Eins hefur hún orðið vör við að þegar fólk flytur á hjúkrunarheimili og makinn verður eftir heima, þá missir það tækifæri til nándar og snertingar. Þá sé hætta á að depurð og einmanaleiki fylgi í kjölfarið.
Þarf næði fyrir kynlíf
Hún segir það mikilvægt að fólk fái næði til að stunda kynlíf, hvort sem það sé með öðrum eða sjálfu sér og til þess séu til ýmiss konar hjálpartæki. Starfsmennirnir verði einnig að temja sér að ganga ekki inní herbergin án þess að banka og alltaf að bíða eftir að vera boðnir inn nema eitthvað bjáti á. Guðrún telur að hægt sé að minnka feimnina gagnvart málefninu með því að auka umræðuna um kynlíf og einkalíf, til dæmis þegar verið er að fræða starfsfólk um þarfir heimilisfólksins.
Þarf einhverja stefnu?
Guðrún segist ekki vita til þess að hjúkrunarheimilin á landinu hafi markað sér stefnu varðandi kynlíf heimilismanna. Hún er heldur ekki viss um að það þurfi sérstaka stefnu í þessum málum. Kynlíf megi bara aldrei valda neinum vanlíðan, gerist það sé mikilvægt að grípa inn í aðstæður. „Margir hafa þörf fyrir að stunda kynlíf á efri árum. Þörfin er mismikil, sumum dugar snerting. En ef fólki líður vel og er hamingjusamt, hver er þá réttur annarra til að skipta sér af, jafnvel þótt það sé með alzheimer?“.