„Þegar maður kemst á þriðja skeið ævinnar fer maður að huga að þeim málum sem snúa að því aldursskeiði og þá áttar maður sig á að víða er pottur brotinn í samfélaginu. Þegar ég fór að kynna mér það sem blasir við lífeyrisþegum þessa lands kom ýmislegt á óvart. Ég hélt alltaf að frasinn „áhyggjulaust ævikvöld” væri í fullu gild því það hefur svo oft verið hamrað á honum. Ég komst hins vegar að því að kjör fólks sem er að fara inn á þriðja æviskeiðið eða er þegar komið þangað, eru ekki eins ákjósanleg og maður hefði kosið“ segir Viðar Eggertsson, nýráðinn verkefnastjóri hjá Gráa hernum. Viðar heldur áfram og segir „Það er kannski þessi sýn sem maður fær á hlutina sem verður til þess að maður ákveður að láta hendur standa fram úr ermum. Ég er ekki vanur því að einhver geri eitthvað fyrir mann heldur þarf maður sjálfur að leggja sitt lóð á vogarskálina. Þó að það vegi ekki alltaf þungt þá getur munað um það. Það munar um hverja hönd sem leggst á árarnar á þessari þungu og miklu galeiðu sem lífið stundum er.“
Menntaður í leiklist og verkefnastjórnun
Viðar er þjóðkunnur fyrr störf sín. Hann er menntaður í leiklist og verkefnastjórnun. Hann hefur starfað sem leikari og leikstjóri í leikhúsum, útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum auk þess að hafa unnið hundruði útvarpsþátta fyrir Rás 1. Hann var útvarpsleikhússtjóri og verkefnastjóri leiklistar hjá RÚV í átta ár og var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar um skeið. Þá stofnaði hann EGG-leikhúsið á sínum tíma og var boðið með sýningar þess víða um heim, auk þess að hafa leikið og leikstýrt erlendis. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum, ráðum og nefndum heima og erlendis. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín sem listamaður.
Vantar skilning á kjörum fólks
Viðar segir að það vanti oft skilning á kjörum þeirra sem komnir eru á þriðja æviskeiðið. Ráðamenn og pólitíkusar setji lög og reglugerðir án þess að hafa þekkingu á málefnum þessa hóps. „Þeir sem setja lögin eru á öðru aldursskeiði auk þess að lifa við allt aðrar aðstæður hvað varðar laun og starfskjör heldur en það fólk sem er farið að eldast. Það þarf því að opna augu ráðamanna og upplýsa þá um stöðu hópsins,“ segir Viðar og bætir við að það sé eiginlega dáldið merkilegt að í því samfélagi sem við öll tilheyrum, í hverri einustu fjölskyldu sé fólk sem komið er af léttasta skeiði. Það sé athyglisvert að við sem þjóð skulum ekki vera komin lengra en raun ber vitni í að búa þessum hópi þokkalegt lífsviðurværi. Það sé í raun verið að skerða kjör þessa fólks. „Um síðustu áramót vöknuðu margir upp við vondan draum þegar þeir komust að því að lífeyrirssjóðurinn sem fólk hafði verið að safna í áratugum saman átti allt í einu að vera megin stoðin á efri árunum í stað þess að þær greiðslur sem fólk fengi úr sjóðunum bættust ofan á greiðslur frá Tryggingastfonun. Þetta voru þakkirnar fyrir langt og gjöfult starf í samfélaginu. Mörgum brá í brún við þetta.“
Spyrjum að leikslokum
Viðar segir að baráttan verði hörð en hann geri ráð fyrir að vinna í nánu samstarfi við fólk sem er að huga að bættum kjörum lífeyrisþega. „Við skulum spyrja að leikslokum þegar þar að kemur. Það er ekkert á vísan að róa hvað varðar árangur en það gerist hins vegar ekkert ef fólk tekur ekki málin í eigin hendur. Það er fyrsta skrefið að gera eitthvað sjálfur. Þeir sem sjá fram á að vera að komast inn á þriðja æviskeiðið ættu strax að hefjast handa við að búa í haginn fyrir sig og sína. Margir verða fyrir áfalli þegar þeir komast að því hversu lágri upphæð þeim er ætlað að lifa af á efri árum og að almannatryggingakerfið bregðist þannig við að það hegni fólki fyrir að hafa sýnt ráðdeild. Lífeyriskerfið er ekkert annað en skyldusparnaðarkerfi og svo er skyldusparnaðurinn notaður til að skerða kjör fólks. Og auðvitað er grunnlífeyrir almannatrygginga alltof lágur og persónuafsláttur verður að hækka í skattkerfinu. Það er galið að innheimta tekjuskatt af launum undir 300 þúsund. Fólk sem nýtur aðeins lífeyris frá almannatryggingum, sem er þó nokkur hópur þeirra rúmlega 40.000 íslendinga sem kominn er á eftirlaunaaldur, býr því ekki við mannsæmandi kjör. Annars er ég nú svo bjartsýnn að upplagi að ég trúi ekki öðru en það sé hægt að leiðrétta þetta ranglæti.“
Við hvað eru atvinnurekendur hræddir?
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar er nokkuð hátt hlutfall þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá fólk sem komið er yfir fimmtugt og með háskólamenntun.„Atvinnuleysi virðist sérstaklega áberandi meðal háskólamenntaðs fólks. Fólks sem hefur aflað sér góðrar menntunar og mikillar starfsreynslu. Það á ekkert auðvelt með að fá nýja vinnu þegar það er komið yfir fimmtugt. Það gildir bæði um karla og konur. Þegar litið er á atvinnuþróunina þá virðist sem láglaunastörfum hafi fjölgað, það er störfum þar sem ekki er krafist sérstakrar menntunar eða reynslu. Störfum fyrir vel menntað fólk hefur hins vegar ekki fjölgað að neinu ráði. Það er alvarlegt mál í þessu vel menntaða samfélagi að það hafi ekki orðið sú þróun innan fyrirtækja að það sé þörf á betur menntuðu fólki og fólki með reynslu. Fólki með mikla reynslu á vinnumarkaði verður oft undir í samkeppni við yngra fólk, þannig að reynslan er lítils metinn. Ég veit ekki hvað atvinnurekendur eru hræddir við. Eru þeir hræddir við að undirmennirnir séu betur menntaðir og með meiri reynslu en yfirmennirnir? Það er að sjálfsögðu vottur um slæma stjórnunaraðferð. Góður stjórnandi vefur í kringum sig betra fólki en hann er sjálfur. Fólk sem hann veit að hefur aðrar skoðanir og reynslu en hann því hann veit að það nýtist honum. Slíkur stjórnandi er stjórnandi sem vill hlusta og læra. Það er stjórnandi með sjálfstraust og það er góður stjórnandi. Stjórnandi sem velur í kringum sig fólk með litla reynslu og menntun, starfsmenn sem hafa sig ekki í frammi er hræddur stjórnandi og þeir eru slæmir.
Þroskadýrkun í stað æskudýrkunar
Eitt af stefnumálum Gráa hersins er að breyta viðhorfum til eldra fólks. Gera þau jákvæðari. „Þetta er spurning um orðalag. Ég segi alltaf við fólk sem spyr mig: Ertu orðinn svona gamall -nei, ég er orðinn svona þroskaður. Ég segi, þriðja æviskeiðið er blómaskeið fyrir fólk sem hefur skilað vel af sér hinum tveimur æviskeiðunum. Orðið gamall hefur fengið neikvæða merkingu, þannig að ég nota orðið þroskaður. Mér finnst þroski eftirsóknarverður. Mér finnst eftirsóknarvert að þroskast og ég hef verið í því beint og óbeint að reka áróður fyrir nýju hugtaki sem er teflt gegn hugtakinu æskudýrkun -það er hugtakið þroskadýrkun. Fólki á að finnast efirsóknarvert að breytast og verða eitthvað annað en það hefur verið. Það er ekki eftirsóknarvert að endurtaka sig og upplifa eitthvað aftur. Það er eftirsókarvert að breytast og þroskast og takast á við nýtt æviskeið, verkefni og áskoranir með alla þá reynslu sem æskan hefur þó veitt manni. Mér finnst ekki eftirsóknarvert að verða aftur ungur, ég er búinn að vera það. Mig langar að verða eitthvað sem ég hef ekki verið áður.“