Mörgum konum finnst hárið þynnast með aldrinum þótt það sé ekki beint útbreitt vandamál. Þess eru hins vegar dæmi að konur hafi mjög þunnt og gisið hár, sem erfitt er að eiga við. Lilja Sveinbjörnsdóttir hárgreiðslumeistari hjá Hár Galleríi, segir að hugsanlega geti þunnt hár verið arfgengt, en það er þekkt að allar konur í einni fjölskyldu hafi þykkt og mikið hár sem er þá talið ganga í erfðir. Lilja segir að það sé til púður sem heitir Nanogen og það sé gott að púðra hársvörðinn með því, ef hárið er þunnt og gisið þannig að sér í hárbotninn. Þá er púðrað fyrst og síðan sett“ sprey“ yfir til að það haldi sér betur, en púðrið hylur þá hársvörðinn sem verður ekki eins áberandi. Hún segir það sína reynslu að konur fái oft hárlos, fyrst eftir gelgjuskeiðið þegar þær eru kornungar og svo aftur eftir breytingaskeiðið. Þá virðist sem hárið sé betra hjá konum sem taka kvenhormóna við tíðahvörf, en Lilja tekur skýrt fram að hún hafi ekki annað fyrir sér í því, en það sem hún sér í kringum sig.
Lilja Sveinbjörnsdóttir hárgreiðslumeistari