Á ensku eru þær kallaðar „style icons“ sem hugsanlega mætti þýða sem stílfyrirmyndir á íslensku en þó nær það orð ekki alveg öllum þeim blæbrigðum sem felast í icon. Þetta eru konur sem skapa og leiða tískuna, sýna óbrigðula smekkvísi og hafa slíka sérstöðu að litið er til þeirra í hvert sinn er fjallað er um klæðaburð.
Glæsileikinn uppmálaður
Jaqueline Kennedy vakti óskipta athygli fjölmiðla og þjóðarinnar allrar meðan maður hennar sat á forsetastóli. Áður hafði engin forsetafrú notið sambærilegrar athygli að undanskilinni Eleanor Roosevelt en hún var þekkt sem baráttukona fyrir mannréttindum, snjall stjórnmálamaður og helsti áróðursmeistari manns síns. Jackie átti ekki eftir að setja mark sitt á hugarfar samtímans í mannúðarmálum eins og Eleanor en hennar er helst minnst nú fyrir endurbæturnar sem hún gerði á Hvíta húsinu. Þjóðin kvartaði hástöfum undan kostnaði við þá vinnu en nú á dögum þakka henni margir það að ómetanleg menningarverðmæti fóru ekki í súginn.
Jaqueline hafði það mikla tilfinningu fyrir sögulegum verðmætum að hún gætti þess að allt væri fært til upprunalegs horfs þar sem það var hægt og að varðveittar yrðu allar eignir sem fylgdu embættinu eins og húsgögn, leirtau og borðbúnaður sem sumt var allt frá tímum Georges Washingtons og Abrahams Lincolns. Hún sá einnig til þess að stofum Hvíta hússins var breytt á þann hátt að þar rúmuðust ýmsir menningarviðburðir og nýtur forsetaembættið góðs af því enn.
Þekktust er hún þó án efa fyrir hversu smekklega og glæsilega hún klæddi sig alla tíð. Sagt var að hún hafi haft mjög næmt auga fyrir litasamsetningum og sniðum, fötin urðu að vera úr vönduðum efnum og kaus ávallt frekar fatnað í einum lit en eitthvað mynstrað. Hún setti oft saman tvo liti en sjaldnast fleiri. Meðan hún var forsetafrú Bandaríkjanna var hún vini sínum Valentino innblástur til sköpunar og hann gerði flest hennar föt. Á þeim tíma vakti einnig athygli að hún sást sjaldan opinberlega berhöfðuð og hattar hennar þóttu sérlega smekkilegir og einna helst minna á bresku konungsfjölskylduna. Margir halda því líka fram að hún og maður hennar hafi í hugum Bandaríkjamanna komist næst því að vera eins og konungar og drottningar annarra landa eru í hugum þegna sinna.
Eftir að hún giftist gríska skipakónginum Onassis eltu paparazzar hana hvert sem hún fór. Þá varði hún sig með stórum sólgleraugum sem huldu hálft andlitið og slæðum um höfuðið. Oft hefur henni verið þökkuð klútatískan sem var mjög áberandi á sjöunda áratug síðustu aldar. Jaqueline batt slæður um hálsinn á margvíslegan máta og setti þær á höfuðið. Öll helstu tískuhúsin hófu þá framleiðslu á silkislæðum í margvíslegum litum og mynstrum. Síðustu árin sem hún lifði leitaði Jaqueline mikið til Carolina Herrera og sást mjög oft í sérhönnuðum fötum frá henni. Erlendir tískublaðamenn hafa líst stíll hennar sem fáguðum elegans, þar sem skýrar línur og afdráttarlaus form koma saman.
Með herðapúða og í buxum
Sennilega hafa fáar leikkonur haft jafnmikil áhrif á klæðaburð og Kathrine Hepburn. Hún var ímynd sjálfstæðis, dugnaðar og hæfni og klæddist oftar buxum en kjólum. Stórir herðapúðar voru hámóðins í hennar tíð og þeir hæfðu þessari kjarkmiklu konu ákaflega vel. Hún var einnig fyrst Hollywood-leikkvenna til að ganga í drögtum sem minntu á jakkaföt og buxur voru henni mun meira að skapi en kjólar eða pils.
Katharine var sjálfstæð kona og það sem kallað var strákastelpa hér áður fyrr. Hún vildi miklu fremur leika sér úti með bræðrum sínum en innandyra með dúkkur eða una við útsum. Fatastíll hennar endurspeglaði þetta. Hún fæddist árið 1907 og var svo heppin að móðir hennar var súffragetta þannig að Kathrine fékk að vera hún sjálf. Hún ólst einnig upp við þá hugmyndafræði að konur stæðu körlum ekki að baki og ættu og gætu sett sitt mark á heiminn rétt eins þeir. Hún var þess vegna ákveðin í að vera fjárhagslega sjálfstæð og skapa sér eigin starfsferil þegar hún fór út á vinnumarkaðinn.

Sennilega er þetta ekki jarðarfararkjóll Kathrine Hepburn, enda hluti af búningum hennar í kvikmynd.
Og það tókst. Kathrine Hepburn var frábær og eftirsótt leikkona í Hollywood og í hópi þeirra sem yfirmenn kvikmyndaveranna reyndu ekki að drottna yfir og stjórna. Fatastíll hennar einkenndist hins vegar af klæðskerasniðnum fötum, víðum buxum, blússum, skyrtum og oft var hún líka með hálstau, bindi eða slaufu. Fötin voru þó umfram allt þægileg, klæðileg og sýndu að þar færi kona sem allir þyrftu að taka mark á. Samt var hún ævinlega kvenleg og aukahlutirnir settu sterkan svip á útlitið. Hún var með hanska, fallegar handtöskur, áberandi hatta og í lághæluðum en kvenlegum skóm. Sagan segir að Calvin Klein hafi einhvern tíma reynt að fá hana til að klæðast pilsi og hún á þá að hafa hreytt í hann: „Ef þú telur þægilegt að klæðast pilsi, farðu þá í eitt og vertu í því einn dag og talaðu svo við mig.“ Barbara Walters spurði hana líka í viðtali hvort hún ætti kjól í fataskápnum sínum heima og Kathrine svaraði: „Já, Mrs. Walters. Ég á einn, ég fer í honum í jarðarfarir.“
Músa tískuhönnuða
Audrey Hepburn fæddist 4. maí árið 1929 í Ixelles í Brussel. Faðir hennar, Joseph Victor Anthony Ruston, var breskur þegn af austurískum ættum en móðir hennar á hinn bóginn hollensk barónessa, Ella van Heemstra. Joseph var seinni maðurinn hennar. Þau skildu eftir að Ella gekk inn á hann uppi í rúmi með barnfóstrunni. Um tíma bjuggu þær mæðgur á Englandi ásamt eldri hálfbræðum Audrey en fluttu til Hollands í byrjun seinni Heimstyrjaldarinnar. Meðan á stríðinu stóð varð Audrey vitni að mörgum glæpaverkum nasista, m.a. var maður móðursystur hennar drepinn í hefndaraðgerðum þeirra vegna verka hollensku andspyrnunnar og annar bróðir hennar handtekinn og fluttur í fangabúðir í Þýskalandi. Lítið var um mat í Hollandi og Audrey þjáðist af blóðleysi, slæmum asma og næringarskorti. Hún náði aldrei fullri heilsu og var alla ævi óskaplega grönn.
En hún lærði ballett og var efnilegur dansari þegar breskir kvikmyndaframleiðendur uppgötvuðu hana árið 1948 eftir að hún hafði dansað í nokkrum söngleikjum á West End. Þá var þess ekki langt að bíða að Hollywood kæmi auga á hversu aðlaðandi fíngerða stúlkan með stóru augun var og þar með var leiðin að alheimsfrægð greið.
Með óbrigðula tilfinngu fyrir stíl
Audrey var ekkert síður þekkt fyrir smekkvísi sína og hversu glæsileg hún var ævinlega til fara. Hún rataði oft á lista yfir best klæddu konur heims og var nokkrum tískuhönnuðum innblástur að þeirra fegurstu sköpunarverkum. Lengsta og besta samstarfið átti hún við Hubert de Givenchy. Hann hitti hana fyrst þegar hann hannaði fötin fyrir kvikmyndina Sabrina. Í fyrstu varð hann fyrir vonbrigðum því honum hafði verið sagt að ungfrú Hepburn færi með aðalhlutverk í myndinni og hann átti von á Katharine. En hann áttaði sig fljótlega á möguleikunum sem fólust í þessari kvenlegu og fáguðu konu og bjó til heila fatalínu í kringum hana og fyrir hana. Þau fylgdust að það sem eftir var ævi Audrey og hann bjó til öll hennar föt og seinna ilmvatn sem hann helgaði henni, L’Inderdit. Þótt Audrey hafi á síðari árum orðið þekkt sem ein fegursta stjarna Hollywood fékk hún alls ekki að fegurðarhugmyndum síns tíma. Lana Turner, Marilyn Monroe og Kim Novak voru helstu kyntákn síns tíma en hin granna brjóstalitla Audrey þótti of stráksleg.
Hún var engu að síður þekkt fyrir fallegan limaburð, einstaka andlitsfegurð, enda sagði leikstjórinn Billy Wilder um hana: „Hún gerir það að verkum að stórir barmar eru farnir úr tísku.“ Hún varð tískuljósmyndaranum Richard Avedon ekki síður innblástur og hann tók nærmyndir af augum hennar og augnabrúnum og vörunum sem notaðar voru í nokkra tískuþætti. Salvatore Ferragamo heillaðist einnig af henn og hann hannaði skólínu henni til heiðurs. Enn í dag heldur Audrey áfram að heilla áhugmenn um tísku og stílistar hafa sagt að það sé vegna þess að hún hafi alla tíð haldið sig við fatastíl sem hentaði henni, einfaldar línur, klassísk snið en líflega og stundum djarfa fylgihluti.
Audrey hætti að leika upp úr miðjum aldri og helgaði sig mannúðarstarfi. Hún varð sendifulltrúi UNICEF og ferðaðist um heimin til að hjálpa börnum í neyð. Hún náði miklum árangri ekki hvað síst vegna þess að hún talaði fimm tungumál og gat þess vegna talað við flesta sem hún hitti á máli sem þeir skildu. Eitt af því sem hún gerði til að styrkja málstaðinn var að halda uppboð á kjólunum sem hún hafði borið í myndum sínum nefna má að litli svarti kjóllinn sem Givenchy hannaði handa henni í Sabrinu fór þá á 467.200 dollara sem var hæsta verð sem greitt hafði verið fyrir kjól og kokteilkjóllinn úr How to Steal a Million á 60.000 dollara. Hún lést árið 1993 úr krabbameini.