Af 35 sveitarstjórnarmönnum í þremur stórum sveitarfélögum á landinu eru þrír sem eru komnir yfir miðjan aldur, eða eru 55 ára og eldri. Þetta eru Reykjavík, Akureyri og Fjarðabyggð. Af 15 borgarfulltrúunum í Reykjavík eru tveir sem eru 55 ára og eldri, af 11 bæjarfulltrúum á Akureyri er einn 55 ára en í Fjarðabyggð sem er með 9 bæjarfulltrúa hefur enginn enn náð 55 ára aldri. Einungis einn í öllum hópnum er orðinn sextugur. Það er algengast að sveitarstjórnarmenn í þessum þremur sveitarfélögum séu milli fertugs og fimmtugs.
Minni eftirspurn og kannski minna framboð
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri segir að aldursgreining í könnun sem gerð var meðal sveitarstjórnarmanna árið 2011 hafi bent til þess að þeim eldri færi fækkandi og að það virtist minnkandi eftirspurn í sveitarstjórnarpólitíkinni eftir fólki sem væri komið yfir miðjan aldur og kannski ekki framboð af þess hálfu heldur. Á seinni árum hafi menn frekar litið á það sem vandamál að eldra fólk og íhaldssamara stæði í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum eins og til dæmis sameiningum sveitarfélaga. Unga fólkið hafi verið hvatt til að gefa kost á sér og hugsanlega sé það að skila sér í endurnýjun núna. Það kunni einnig að liggja í prófkjörsfyrirkomulaginu þar sem það er notað, að eldri frambjóðendur nái ekki sama árangri og unga fólkið á tölvuöld.
Jafn hæft og aðrir
„Auðvitað viljum við að sveitarstjórnir og Alþingi endurspegli þjóðfélagið sem best“, segir Grétar „ ekki bara hvað varðar kynin heldur líka aldur. Þess séu engin dæmi að fólk milli sextugs og sjötugs sé óhæfara en aðrir til að taka þátt í stjórnmálum. Fólk á þessum aldri hafi góðar hugmyndir og geti látið til sín taka. Það séu nýleg dæmi um nýráðinn bæjarstjóra í Stykkishólmi sem sé að verða sjötugur og forseti landsins sé rúmlega sjötugur“.