Varst þú ekki örugglega í Roof Tops?

„Ég var svo heppinn eftir Hagaskólann að ég tók inntökupróf í Versló og þar kynntist ég Björgu“, segir Sveinn Guðjónsson, betur þekktur sem Svenni í Roof Tops, þegar blaðamaður Lifðu núna sest niður í bjartri og fallegri stofu heima hjá honum og eiginkonunni Björgu Bjarnason. Þau eiga þrjú ár í gullbrúðkaup, eru búin að vera gift í 47 ár og saman í 53 ár.  Þau tóku fljótt eftir hvort öðru í Versló. „En ég man sérstaklega eftir deginum sem ég varð skotin í henni“, segir Svenni, sem var þá 16 ára.  „Ég var að fara í Gamla bíó á myndina Some People. Þá tek ég eftir Björgu þar sem hún stendur við miðasöluna og hugsa, þarna er stelpa úr Versló, og mér fannst hún svo ótrúlega sæt. Við munum þetta bæði og líka hvernig við vorum klædd. Hún var í svörtum leðurjakka og ég líka. Svo var ég í svörtum rúllukragabol og bítlaskóm“, og Björg bætir við. „Mér fannst hann líka ótrúlega sætur“.

Kærustuparið Björg og Svenni á ferðalagi í Frakklandi 1970

Var feiminn við stelpur

Um vorið var farið í annarsbekkjarferð til Akureyrar. „Menntskælingar voru búnir að skipuleggja fyrir okkur ball í Alþýðuhúsinu“, segir Svenni. Björg var nýorðin 17 ára, en hún er hvorki meira né minna en þremur mánuðum eldri en Svenni, sem gerir mikið  grín að því hvað hún sé miklu eldri en  hann. Það er greinilega mikið hlegið á þessu heimili. Strákarnir voru búnir að verða sér úti um Séniver fyrir ballið og ekki veitti af, Svenni segist hafa drukkið í sig kjark til að þora að bjóða Björgu upp í dans. „Ég var svo feiminn við stelpur, ég gekk skjálfandi yfir gólfið og bauð henni upp“, rifjar hann upp og segist hafa orðið undrandi þegar hún sagði já. „Ég hafði  rænu á að biðja hana um símanúmerið, en svo þorði ég ekki að hringja í hana. Vinur minn Jón Pétur Jónsson sem varð seinna bassaleikari í Roof Tops, var reyndari í þessum málum en ég. Hann sá að ég var orðinn skotinn og skipaði mér að hringja“. Þau hlæja mikið að þessu og Björg segir að hann hafi hringt og boðið henni í Tónabíó. Henni er það minnisstæðast þegar þeir komu félagarnir og Jón Pétur var á háum sendibíl, sem ekki var auðvelt fyrir unga stúlku í þröngu pilsi að klöngrast uppí.  „Þeir reyktu báðir Kamel og buðu mér sígarettu. Ég reykti Kamel þarna, þó ég reykti ekki“, segir hún.

Bað hennar í Tívolí

Þau Svenni og Björg fylgdust svo að uppúr þessu. Hún bjó í unglingaherbergi í kjallara á Snorrabrautinni og hann í sams konar kjallaraherbergi hjá foreldrum sínum á Nesvegi. Þau trúlofuðu sig í fjórðabekkjarferð í Versló, í Tívolí í Kaupmannahöfn. Svenni bauð henni útá bát og þegar siglt var inní göng með gervifuglasöng og fljúgandi fiðrildum, dró hann upp hringana og hún sagði já. Svenni ætlar alveg að springa úr hlátri þegar hann lýsir þessu rómantíska bónorði. Hann hafði byrjað að spila með skólahljómsveitum, en áhuginn fyrir tónlistinni komst uppá hærra plan, þegar kærustuparið bjó í London um tíma, þar sem Svenni stundaði nám í alþjóðaviðskiptum einn vetur. Bítlaæðið var í algleymingi, tónlistin ómaði og tískan frá Carnaby Street sló í gegn hjá unga fólkinu. Hann var ákveðinn í að stofna hljómsveit þegar hann kæmi heim.

Roof Tops. Svenni er lengst til vinstri á myndinni

Þeyttust um landið og spiluðu á böllum

„Við Guðni Pálsson arkitekt stofnuðum Roof Tops árið 1968. Þá var Björg farin að fljúga og þetta passaði allt ágætlega. Ég þeyttist um landið og spilaði á sveitaböllum á meðan hún var kannski í fimm daga í Ameríku“, segir Svenni. Það var mikið stuð í kringum hljómsveitarlífið á þessum árum og Svenni segir að það hafi  verið mikill glans yfir þessu lífi. „Þetta var samt hálfgerður leikaraskapur,  mikið grín og gaman. Í rauninni var þetta lítið annað en „ábyrgðarlaust trall“, eins og landskunnur tónlistarmaður orðaði það eitt sinn í viðtali. Það er gaman að sjá hvað unga fólkið í dag leggur mikinn metnað í tónlistina og hvað það er að ná góðum árangri erlendis, okkur hefði aldrei dreymt um þetta. Við þeyttumst um landið, spiluðum fyrir drukkið fólk á böllum og vorum kannski á svipuðu róli sjálfir. Það voru margir sem fóru illa á þessu og ónefndur vinur minn sagði að við værum heppnir að hafa lifað þetta af“, segir hann.

Þekktastur fyrir Roof Tops

Þó Svenni ætti eftir að fara í Kennaraskólann, verða kennari og síðar blaðamaður um árabil, er hann sennilega þekktastur fyrir að hafa verið í Roof Tops.  „Við vorum á Kanarí  í vor,“ segir Björg „ og þá sagði ég við Svenna að það væri bara ein setning sem við ættum eftir að heyra áður en við færum heim, en það var setningin Varst þú ekki í Roof Tops?“ Svenni bætir við að þau hafi skömmu síðar farið á útiveitingastað og þá sneri sér að honum kona og spurði Varst þú ekki örugglega í Roof Tops? „Ég er mjög ánægður með að menn muni þetta, að þetta hafi skilið eitthvað eftir“, segir Svenni.

Svenni með sonum sínum, Stefáni Gunnari lengst til vinstri og Hákoni, við skírn Benna

Skiptast á vöktum í barnapössuninni

Þau Björg og Svenni giftu sig í október árið 1970 og voru þá búin að kaupa sér íbúð á Bergþórugötunni.  Það voru svo góðar tekjur í hljómsveitarbransanum og Björg var búin að vera í fullu starfi sem flugfreyja. „Þetta leit hrikalega út þegar við undirrituðum samninginn, maður bara henti sér út í djúpu laugina, en svo eftir ár, var lánið horfið“, segir Svenni um þau undur og stórmerki, en þetta var að sjálfsögðu fyrir daga verðtryggingarinnar. Þau eignuðust tvo syni, Hákon árið 1972 og Stefán Gunnar níu árum seinna. Sonarsynirnir eru tveir, fótboltastrákurinn Aron sem er orðinn 17 ára og svo Benedikt, eða Benni, sem er rúmlega ársgamall.  Svenni og Björg hafa í vetur passað Benna einn til tvo daga í viku. „Það lifnar yfir mér þegar hann kemur“, segir Svenni og sá litli heldur afa og ömmu alveg við efnið. Það þarf að taka dót af borðunum sem hann getur sett uppí sig og það má ekki sleppa af honum augunum. „Við skiptumst á vöktum í þessu“, segir Svenni og hlær, „þetta er mikil vinna og maður er alveg uppgefinn eftir daginn, en ótrúlega skemmtilegt, og  gefur lífinu gildi“.

Björg á leið í síðasta flugið

Var flugfreyja í 40 ár

Björg átti sjötugsafmæli í mars og Svenni verður sjötugur í júlí. Þau ætla að halda uppá daginn með vinum sínum út í Flatey á Breiðafirði. „Manni finnst maður aldrei vera neitt gamall“, segir Björg. „Ég fann engan mun, hvort sem ég varð fimmtug, sextug eða nú sjötug. Lífið heldur bara áfram. Maður þarf bara að hreyfa sig“, segir hún og bætir við að þau megi vera duglegri við það. Þau Svenni voru tvö sumur leiðsögumenn á skemmtiferðaskipum í Karíbahafi og hafa prófað ýmislegt. En Björg var flugfreyja hjá Icelandair alla tíð, eða þangað til hún hætti 65 ára gömul. „Mér fannst þetta bara orðið ágætt“, segir hún. „Flugleiðir buðu þeim sem vildu hætta 65 ára að vera á fullum grunnlaunum til 67 ára aldurs. Mér fannst flott hjá þeim að bjóða þetta og ákvað að láta slag standa“, segir Björg og bætir við að Flugleiðir hafi verið góður vinnuveitandi og hún hafi verið mjög ánægð í starfi þar í 40 ár.

Svenni rokkar á hljómsveitarárunum

Björguðu fjarvistir hjónabandinu?

Þau segjast vera ólík hjónin. „Mér finnst ekkert rosalega gaman að vera innanum fullt af fólki“, segir Björg. „En mér finnst ég alltaf vera að missa af einhverju“, heldur Svenni áfram. „Ef það var eitthvert skrall þurfti ég alltaf að mæta, mátti ekki missa af neinu, en Björg hafði engar áhyggjur af slíku. Ef ég veit af góðum jazz þarf ég alltaf að fara“.  Svenni hefur heyrt ákveðnar kenningar um það hvers vegna hjónabönd endast eða endast ekki. „Þetta voru svo miklar fjarvistir fyrstu árin. Ég var að spila og hún var að fljúga. Svoleiðis hjónabönd endast kannski betur, ef þau lifa fjarvistirnar af, lifa þau allt af“, segir hann. „Kannski hefur flugið hjá þér og hljómsveitarstússið hjá mér bjargað hjónabandinu. Við vitum það ekki“, segir hann hlæjandi og lítur spyrjandi á Björgu.

Bensínið úr Costco endingarbetra

Síðustu árin fyrir starfslok, vann Svenni sem skrifstofustjóri hjá Oddfellow reglunni. Hann hefði alveg getað hugsað sér að vinna lengur. Núna þegar þau eru bæði hætt að vinna fara þau út að ganga og hjóla og passa Benna. „Og svo brjótum við upp daginn með því að fara í Bónus og núna Costco“, segir Svenni.  Honum fannst stórskemmtilegt að fara í Costco. „það var allt svo ódýrt, það var eins og ég væri kominn til útlanda“. Það er stutt í brosið þegar hann segir „Ég keypti bensín í Costco og það var ekki bara lægra verð. Mér finnst eins og bensínið hafi enst miklu lengur!“. Við skellum öll uppúr, en svo verður Svenni alvarlegur og segir: “Ef þetta getur lækkað vöruverð í landinu almennt, hlýtur þetta að vera til hagsbóta fyrir alla.

Fótboltastrákurinn vaxinn ömmu og afa yfir höfuð

Væri stórmál ef kaupa þyrfti nýjan bíl

„Þegar ég var að fara á eftirlaun brá mér vegna þess að mér fannst ég hafa greitt í lífeyrissjóð frá því ég mundi eftir mér. Ég taldi að ég hefði verið að skapa mér ákveðið öryggi og gæti átt „áhyggjulaust ævikvöld“ Allt í einu varð ég hræddur um afkomu mína. En við erum tvö og eigum íbúð. Ég byði ekki í hvernig þetta væri ef við værum á leigumarkaðinum“, segir Svenni. Þau eru samt sammála um að það megi ekki mikið útaf bregða. Ef bíllinn myndi gefa sig, væri stórmál að kaupa nýjan bíl af þessum tekjum. „En fólk er misjafnlega á vegi statt, sumir sem ég þekki og hafa verið í eigin rekstri hafa lagt í sjóði“ heldur Svenni áfram. „Þetta bjargast hjá okkur og mér finnst þetta hafa skánað. Maður er að venjast þessu og mér finnst eins og kaupmátturinn hafi aukist. En það er ákveðinn hópur sem hefur það skítt. Sem á ekki húsnæði og hefur verið á lágum launum allt sitt líf“.

Svenni og Björg á tónleikum á Jómfrúnni

Sjötugir ekki á síðasta söludegi

Svenni er einn stofnenda Gráa hersins. „Mér finnst að þetta hafi verið þarft framtak. Það var meiri órói á þeim tíma, sem herinn fór af stað, en vindurinn var kannski svolítið úr manni eftir kosningar. Manni fannst að það hefði ekki verið hlustað neitt á okkur. En það er tímabundið. Það er margt sem þarf að laga til dæmis varðandi starfslokin. Ég myndi treysta mér til að vinna áfram en finnst mér gert erfitt fyrir með það. Eftir því sem lengra líður frá starfslokum verður kannski erfiðara að drífa sig út á vinnumarkaðinn aftur. En til hvers að vera að vinna ef maður hefur ekkert uppúr því? Maður hittir fólk og það er ágætt. En hvatinn er farinn. Það er eitthvað rangt við þetta. „Það er ekki rétt að um leið og fólk er orðið sjötugt, sé það komið á síðasta söludag. Það á að leyfa fólki að vinna og gera því það kleift. Ég skil ekki þetta frítekjumark. Okkar tekjur hækkuðu töluvert um áramótin, þannig að þessi nýju lög eru ekki alslæm, en svo kom þetta furðulega ákvæði um frítekjumarkið“ .

Bjartsýnn á framtíðina

Honum finnst líka að Gráa hernum hafi tekist að vekja athygli og koma málefnum eldra fólks inn í þjóðfélagsumræðuna. Menn tali varlegar þegar komi að málefnum eldra fólks og séu meðvitaðri. „En betur má ef duga skal. Ég held að það sé að myndast meiri skilningur á þessum málum og er bjartsýnn á að þetta verði fært til betri vegar. En það er hópur sem hefur  það ekki gott og það verður að laga“.  Svenni hóf nám sagnfræði og stjórnmálafræði  í Háskóla Íslands á sínum tíma og segir að námið hafi átt vel við hann, en rótleysið sem fylgdi tónlistinni, sem og stofnun heimilis varð til þess að hann hætti námi. „Kannski hefði ég orðið embættismaður ef ég hefði ekki hætt, ég hefði að minnsta kosti fengið betri lífeyrisréttindi, ef ég hefði komist á spena hjá ríkinu“, segir þessi tónlistarhneigði bjartsýnismaður brosandi að lokum.

 

Ritstjórn júní 23, 2017 10:36