Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:
Það er gaman að steypa. Það þekkja þeir sem einhvern tímann hafa unnið í byggingarvinnu. Uppsláttur sökkla eða veggja er aðeins undirbúningur þess sem koma skal þegar steypan rennur í mótin. Þá verður hið varanlega til. Steypubílar eru að sönnu mikilvirk tæki og nauðsynleg í stórvirki en til er annað og hógværara verkfæri í steypuvinnu fyrir smærri verk, nefnilega steypuhrærivél.
Ég hef lengi verði svolítið veikur fyrir steypuhrærivélum án þess þó að hafa eignast eina slíka. Þessar appelsínugulu þrífætlur hafa ákveðinn sjarma í einfaldleika sínum. Konan deilir ekki þessum áhuga mínum og í okkar sambúð hefur hún haft meira að segja um kaup á heimilistækjum en ég.
Ég vék lítillega að þrá minni eftir steypuhrærivél í helgarpistli í Fréttatímanum á sínum tíma en skilningur sumra fjölskyldumeðlima á þessum hrærivélaráhuga mínum var meiri en hjá frúnni. Þeir skilningsríku létu mig því vita ef auglýstar voru steypuhrærivélar á góðu verði. Aldrei sló ég þó til, það rætast ekki allir draumar, enda sagði m.a. í fyrrnefndum pistli: „Úr því sem komið er þykir mér sennilegast að ég fari í gegnum þetta jarðlíf án steypuhrærivélar. Þó er ekki öll von úti um að ég komist í tæri við þannig tól þótt síðar verði fyrst mér tókst að kveikja áhugann hjá strákunum, sonum mínum og tengdasonum. Þeir eru ungir og hraustir og eiga eftir að steypa í súlu og sökkul, ef að líkum lætur. Slái þeir í sameiningu í eina appelsínugula get ég boðið fram aðstoð og stjórnað þó ekki væri nema vatni í blönduna ef þeir treysta mér síður til að svipta til sementspokum og sveifla malarskóflum.”
Þetta var skrifað fyrir sjö árum og á þeim tíma sem síðan er liðinn hef ég aðeins einu sinni komið að steypuvinnu. Það var þó stærri aðgerð en svo að kæmi til kasta steypuhrærivélar, þar þurfti steypubíla. Nú í sumarbyrjun stóð ég hins vegar frammi fyrir steypuvinnu af hinni hógværu gerð. Endurnýja þurfti pall og undirstöður hans við sumarkot okkar hjóna austur í sveitum. Tengdasonur minn, vaskur maður og enginn veifiskati, vildi hjálpa mér og deildi áhuga mínum á steypuhrærivélum. Hann vildi þó ekki, svo síðla í mánuði, steypa tengdaföður sínum í skuldir með kaupum á hrærivél heldur bauð mér slíka að láni í gegnum mág sinn. Sá hafði á sínum tíma náð samkomulagi við eiginkonuna um kaup á svo merku heimilistæki.
Saman sóttum við tengdafeðgar vélina og brunuðum með hana á kerru á áfangastað. Þar boruðum við holur fyrir hólka og gangsettum undratækið. Apparatið malaði sem köttur, eða öllu heldur tígrisdýr, svo veglegt var það í óranslitri dýrð sinni. Mikil framför hefur orðið í gerð sementspoka frá því ég var unglingur í byggingarvinnu. Þá voru sementspokar 50 kíló að þyngd og heldur ómeðfærilegir. Nú eru þeir ekki nema 20 kíló og mun skárri viðureignar. Strákurinn sá þó um vélina, blandaði saman sementi, möl, sandi og vatni sem snúningsbelgurinn hrærði í dýrindis steypu. Ég sá um hjólböruakstur og steypumokstur í hólkana.
Við vorum alsælir með gang mála – allt þar til vélin góða gaf frá sér stunu. Kattarmalið breyttist í skruðninga. Það hafði eitthvað gefið sig. Hrærivélin gekk skrykkjótt og belgurinn stöðvaðist stundum. „Það er sennilega farin lega,” sagði tengdasonur minn. Hann stendur mér framar í vélfræði. „Er þá ekkert til ráða,” spurði ég vonsvikinn og sá fram að stöðvun framkvæmda. „Sjáum til,” sagði strákurinn, um leið og hann hugaði að bækluðu tækinu. Af hyggjuviti í bland við verkfræðimenntun kom hann græjunni í gegnum verkið þótt stundum þyrfti að styðja við steypubelginn þegar hann vildi skrölta af tannhjólunum. Verklok voru því farsæl.
Spurningin er hins vegar hvað við gerum næst því strákurinn vill steypa meira í sveitinni. Við skiluðum bilaðri steypuhrærivélinni með afsökunarbeiðni en vissum þó að hún var orðin nokkuð lífsreynd svo það var við ýmsu að búast. Nú stend ég því enn á ný frammi fyrir vali. Vissulega gæti ég hugsað mér að kaupa steypuhrærivél, glænýja úr byggingavöruverslun, og klára steypuvinnuna í sveitinni. En hvað svo? Mun nýja hrærivélin síðan standa ónotuð komandi ár, verkefnalaus með öllu, tapa æskuljóma sínum og verða smám saman að ryðhrúgu? Ég hef ekki nefnt þetta við konuna enda held ég að áhugi hennar á steypuhrærivélum hafi ekki aukist að marki undanfarin ár.
Svo er það hvar geyma skal svona græju, splæsi maður í eina. Bílskúrinn er fullur og óvíst með öllu að samþykki fengist fyrir geymslu þar, jafnvel þótt ég rýmdi til í einu horni hans.
„Væri ekki ráð að byggja bara yfir steypuhrærivélina í sveitinni,” sagði tengdasonur minn, með ráð undir rifi hverju, og stakk upp á kofabyggingu austur þar. „Undir vélaskúrinn þarf steyptar undirstöður,” bætti hann við, „og til þess að steypa þær þurfum við steypuhrærivél.”
Maður mótmælir ekki slíkum rökum, sem sett eru fram af festu. Ég er því enn komin á útkíkk eftir tilboðum byggingarvöruverslananna á steypuhrærivélum.
Svo er bara að vita hvað konan segir þegar ég lýsi yfir bráðri þörf á kaupum steypuhrærivélar, einmitt vegna þess að það þurfi að steypa undirstöður undir skúr svo það sé hægt að geyma hana í þeirri sömu skúrbyggingu.
Kannski þarf ég að æfa mig aðeins áður en ég svara spurningum hennar.