Maður getur alltaf byrjað upp á nýtt, hugsa ég þegar ég geng inn í nýja blómaverslun í miðborginni. Verslunina eiga þeir Guðmundur A. Þorvarðarson og Vilhjálmur Jón Guðjónsson. Mér er boðið til sætis í fallegum sófa í miðri búð og þarna má líka sjá borðstofuborðið þeirra. Er þetta stofan ykkar?
,,Já, stofan okkar og borðstofan eru í búðinni sjálfri en svefnherbergið og skrifstofan á neðri hæð. Það er gott að búa í vinnunni, það kemur enginn að lokuðum dyrum hjá okkur nema á nóttunni,“ segja þeir hlæjandi. ,, Við erum eiginlega ekkert að vinna, bara leika okkur.“
Þeir Guðmundur og Vilhjálmur, alltaf kallaður Villi, kynntust árið 1998 og eru þrígiftir – hvor öðrum. Þá starfaði Villi sem stoðtækjasmiður hjá Össuri en færði sig svo í sölu-og markaðssvið, en Guðmundur rak blómaverslunina Ráðhúsblóm í Bankastræti. En ævintýraþráin blundaði undir niðri, Guðmundur seldi Ráðhúsblóm og þeir settu upp glæsilegt gistihús, Tower Guesthouse að Grettisgötu 6.
Staðfestu samvist og tveir ókunnugir viðstaddir
Þeir ákváðu að staðfesta sambúð sína þann 27. júlí 1999 og halda veglega brúðkaupsveislu í glæsilegri íbúðinni. En þá kom pöntun á íbúðina, einmitt þann sama dag.
,,Ég sagði að þeir gætu komið með því skilyrði að brúðkaupið mætti fara fram í stofunni en í staðinn mættu þeir taka þátt í veisluhöldunum! Á þessum tíma máttu prestar ekki gefa samkynhneigða saman svo það var Þórhildur Ólafsdóttir frá sýslumanni sem staðfesti samvist okkar, en séra Auður Eir blessaði sambandið.“
Það blundaði þó alltaf í þeim að fá kirkjulegt brúðkaup enda eru þeir báðir trúaðir, skírðir og fermdir í þjóðkirkjunni og fannst óréttlátt á sínum tíma að hafa ekki getað gifst í kirkju. Þann 27. júlí 2019, tuttugu árum seinna, gifti séra Auður Eir þá í Dómkirkjunni.
Síðasti fyrirlesturinn í Suður Afríku
Össur hf. bauð Villa að taka við sölu-og markaðsstörfum í Ástralíu ,,og þangað gátum við alveg hugsað okkur að flytja,“ segir Villi. ,,Við vorum búnir að fá vinkonu okkar til að reka gistiheimilið fyrir okkur og ég var búinn að losa mig undan öllum öðrum verkefnum. Þarna vorum við tilbúnir undir flutning og nýjar áskoranir. En þegar allt var klappað og klárt hætti samstarfsaðili Össurar í Ástralíu við allt saman, var ekki tilbúinn í svona mikið samstarf. Þarna vorum við því í miklu tómarúmi og framtíðin allt í einu ekki eins og við höfðu séð hana fyrir okkur. Villi hafði verið að ferðast afar mikið á þessum seinustu árum með námskeið og fyrirlestra um allan heim. Ég var orðinn þreyttur á öllum þessum ferðalögum og ákvað því að segja upp starfi mínu hjá Össur hf. eftir tuttugu ára starf.“
Össur hf. bað Villa að vera með síðasta námskeiðið sitt í Suður Afríku og Villi setti það skilyrði að hann mætti dvelja þar í sex vikur með Guðmundi, allt greitt. Á það var fallist og þeir flugu út.
,,Svo var það eitt kvöldið að við sátum á svölum mjög fallegs hótels og horfðum á náttúrufegurðina að Guðmundur spurði mig hvort ég væri til í að eignast hótel í Suður Afríku. Ég var til í það þannig að ekkert var okkur til fyrirstöðu með að selja allar eignir okkar heima, kaupa hótel í Afríku og flytja þangað. Það hafði blundað lengi í okkur áhugi á hjálparstörfum og þarna sáum við tækifæri til að sameina rekstur hótels og að sinna hjálparstarfi.“
Hjálparstörf í fátækrahverfum
Og svo voru þeir flognir á brott. Á hótelið sitt og í hjálparstörfin sem þeir vildu sinna.
,,En hjálparstörfin byrjuðu strax í fyrstu vikunni, “segir Guðmundur. ,,Í Afríku eru fátækrahverfi aftan við hverja hæð og í okkar þorpi reyndist gríðarleg þörf um helgar. Þannig að alla laugardaga og sunnudaga sem við bjuggum þarna, í tíu ár, fórum við með marga súpupotta í fátækrahverfin.“
„Og því má bæta við,“ segir Villi ,,að við áttum gamlan Landrover sem heyrðist mjög hátt í og þegar við komum niður fyrir hæðina komu tugir barna á móti okkur og kölluðu Bói! Bói! en það er gælunafn Guðmundar.“
Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þeim á þessum árum. Fyrst kom hrunið og erlendir hótelgestir hurfu nánast á einni nóttu og síðan hurfu allar ráðstefnur. Guðmundur fékk tvisvar sinnum hjartaáfall meðan á dvölinni stóð og einu sinni heilablóðfall svo varasjóðurinn varð brátt uppurinn.
Þeir ákváðu að selja hótelið og flytja heim. Í fyrstu stóð á tilboðunum en þegar eitt tilboð var komið fylgdu þrjú í kjölfarið. Villi ákvað að aðstoða nýju eigendurna og endaði á að vinna
fyrir þau kauplaust í níu mánuði.
Eftir heimkomu byrjuðu þeir á að kaupa sér íbúð og bíl, komu að uppbyggingu blómaverslunar í Hörpu og voru þar í rúm fjögur ár. Að þeim tíma liðnum réðst Villi sem verslunarstjóri í Rammagerðinni en Guðmundur var atvinnulaus.
Stjanaði við veikar vinkonur
,,Sem var í og með gott,“ segir Guðmundur hlæjandi. ,,Ég á nefnilega tvær vinkonur sem hafa verið mikið veikar og ég gat snattast fyrir þær, keypt í matinn og jafnvel eldað hann.“
En eftir tveggja ára atvinnuleysi fannst Guðmundi nóg komið og þeir fóru að ræða draum sinn um að opna blómabúð í miðborginni.
,,Svo fólk átti sig á hversu góður Guðmundur er sem blómaskreytir, þá lauk hann þriggja ára námi frá iðnskólanum í Osló, rak sína eigin blómabúð Rådhusblomst í Osló í 13 ár, Ráðhúsblóm í Bankastræti í 10 ár og hefur kennt blómaskreytingar í Landbúnaðarháskóla Íslands, “segir Villi þegar Guðmundur fer að sækja meira kaffi handa okkur. ,,Hann er listamaður af guðs náð og er í raun verkfæri blómanna. Blómin tala við hann og segja honum hvernig þau vilja vera með öðrum blómum.“
Barónessan
En þorðu þeir alveg að opna búð í miðborginni sem margir segja deyjandi?
,,Meira en þorðum! Það var okkar áskorun að það er bara ein blómabúð önnur í miðborginni svo það var nægt rými hér fyrir okkur. Af átta blómabúðum sem voru fyrir 20 árum er engin eftir og núna er auk þess hægt að kaupa blóm í matvörubúðum og bensínstöðvum, en þar er ekki hægt að versla tilbúnar skreytingar. Í Barónessunni er hægt að ganga að blómaskreytingum vísum og við þjónustum viðburði og jarðarfarir hér í borginni og einnig út á landi.“
Af hverju á fólk að versla við Barónessuna?
,,Vegna þess að hún er öðruvísi en aðrar blómabúðir. Hún er konfekt fyrir augað. Við erum hér með margar tegundir blóma sem sjást ekki annars staðar og leggjum áherslu á að fullvinna blómin í skreytingar og vendi.“
En af hverju heitir búðin Barónessan og hver er þessi Barónessa með stóru B-éi?
„Vegna þess að við erum hér á Barónsstíg 27, fyrir ofan þar sem barónn nokkur var með fjós í húsi þar sem 10/11 er núna, svo okkur fannst þetta borðleggjandi nafn. Barónessan hefur sínar eigin skoðanir sem eru ekki endilega okkar og hún leyfir sér alveg að viðra þær. Hún er hugarfóstur, en hún er ekki við og við erum ekki hún. Hún getur verið stór upp á sig og kannski pínulítið snobbuð. Hún er pólitísk og tekur alltaf málstað minni máttar. Henni finnst til dæmis ríkisstjórnin koma illa fram við aldraða og öryrkja og ákvað því að gefa þeim veglegan afslátt.“
,,Já, já,“ segir Guðmundur. ,,Hún er mjög ákveðin og ég er ekkert alltaf sammála henni. Samt hefur hún yfirleitt alltaf vinninginn.“
Barónessan er með vefsíðuna www.baronessan.is , er á Facebook undir Barónessan og Instagram undir Blomabaronessan. Netfangið er blom@baronessan.is
Viðtal: Anna Kristine Magnúsdóttir
Athugið: Þetta viðtal birtist fyrst á Lifðu núna árið 2020. Þeir Vilhjálmur og Guðmundur seldu blómabúðina, Barónessuna á Barónstíg árið 2022 og ákváðu að selja einnig innbú sitt og heimili. Þeir voru í viðtali við Morgunblaðið að því tilefni. Þeir sögðu þar framtíðina óskrifað blað en ætlaðu að nota þá fjármuni sem þeir losuðu með sölu eigna sinna til að njóta lífssins.