Ásta Guðmundsdóttir, fatahönnuður og listakona, hefur hannað í mörg ár undir eigin vörumerki ásta créative clothes en hún segir að mörkin milli fatahönnunar sinnar og skúlptúra séu oft óljós sem geri flíkurnar svolítið einstakar. Ásta sækir mikið í nánasta umhverfi og er umhverfisvæn í hönnun sinni.

Ásta fyrir miðju.
Ásta hefur starfað til margra ára sem hönnuður og er ein kvennanna sem standa að Kirsuberjatrénu á Vesturgötunni auk þess sem hún rak lengi verslun á Laugavegi. Ásta lærði fatahönnun í fjögur ár í Þýskalandi þar sem hún bjó lengi og segir skólann hafa verið mjög góðan. Leið hennar lá svo í Listaakademíuna í Stuttgard, í svokallaðan performans þar sem hún lærði líka kynna eða koma á framfæri hönnun sinni sem hún segir að sé stór hluti af því að vera hönnuður. Ásta hefur ekki eingöngu haldið sig við föt í hönnuninni, hún gerir skart sem er afar sérstakt og flott og minnir á skúlptúra, einnig skinnhúfur og myndverk. Hún segist þó hafa farið meira út í listsköpun en hana hafi grunað og hefur tekið þátt í innsetningum, sýningum, gert skúlptúra og fleira.
Undanfarnar vikur hefur Ásta dvalið í Tókýó í listamanna residence, eða vinnustofu listamanna, þar sem hún mun sýna afrakstur vinnu sinnar þar á sýningu. Hún er ánægð með dvölina þar enda mikið til af fallegum og vönduðum textíl úr náttúrulegum efnum í borginni sem heilla hana. „Þetta er fimmta skiptið sem ég dvel hér en það eru liðin heil 10 ár síðan ég var síðast í Tókýó. Ég dvel hér í rúma tvo mánuði, vinn í fimm vikur á vinnustofunni og sú vinna endar með sýningu. Tókýó er falleg borg, fólkið yndislegt og maturinn mjög góður. Það sem ég mun gera fyrir sýninguna hér í Japan verður eitthvað tengt textíl þó svo að ég sé ekki búin að ákveða alveg hvað ég geri. Ég leita í þann brunn að hér er ótrúlega mikið af fallegum textíl, ég fann t.d. alla vega litaða silkiþræði á rúllu á antíkmarkaði og fleira og svo nota ég hrosshár eða jafnvel eigið hár sem ég blanda við textílinn núorðið, þannig að verkin mín eru mikið byggð á þráðum eða textílum. Ég vinn mikið með perfrormance-fólki og dönsurum eins og Gio Ju sem er butoh-dansari og performance listakona frá Suður-Kóreu, ég vil kalla það sem hún gerir „body installation“.
Lítur á fötin sem listaverk

Mynd: Sarah Lú.
Ásta segir að eðlilega mótist Íslendingar mikið af veðráttunni og náttúrunni og það endurspeglist í hönnun hennar.
Hvernig myndirðu lýsa hönnun þinni? „Hönnunin mín hefur alltaf verið undir áhfrifum frá náttúrunni og veðráttunni á Íslandi og ég hef talað um veðraðar flíkur í minni hönnun en þá er eins og flíkurnar sem ég hanna hafi veðrast í rokinu eða jafnvel skolast til aðeins í sjónum. Það er mitt mottó í grunninn að fötin megi veðrast eins og er með grjót og fleira í náttúrunni. Auðvitað er náttúran falleg alls staðar og ég verð fyrir áhrifum frá henni hvar sem ég er, svona að einhverju leyti, en ég held að við Íslendingar séum mjög mótuð af veðráttunni og hvernig við högum okkur yfirhöfuð er tilkomið vegna hennar, hún er stór hluti af okkur. Ég nota þessi áhrif bæði mjög mikið í hönnuninni og líka í minni list en það er mjög stutt þarna á milli í mínu tilfelli og verður alltaf styttra og styttra. Í raun horfi ég á fötin líka sem listaverk.“

Mynd: Sarah Lú.
Leitar í nærumhverfið og endurnýtir
Hvað er það helst sem þú hannar? „Ég hef í raun mest hannað fatnað og þá peysur vegna ullarinnar okkar en ég hef líka hannað mikið kjóla, mér finnst mjög gaman að hanna þá hvort sem þeir eru svolítið eins og skúlptúr, sérstakir eða ekki, eða blanda saman saman grófum peysum við fína kjóla, mér finnst það alltaf mjög skemmtilegt og smart. Þannig að fólk getur dressað sig upp og niður í þessum fötum.“
Þú vinnur mikið fatnað úr íslensku ullinni, hvað er það sem þú sækist eftir þar? „Mér finnst mjög mikilvægt að nota hráefni sem er í kringum mann og mér finnst það svo sjálfsagt að leita í nærumhverfið og líka að vera umhverfisvæn. Íslenska ullin er frábært hráefni og mjög spennandi og mér hefur alltaf þótt gaman að gera tilraunir með hana og þróa í einhverjar áttir. Núna er ég að endurnýta fatnað, ég kaupi ull eða lopapeysur hjá Rauða krossinum og fólk kemur líka með gömlu lopapeysurnar sínar og ullarteppin og gefur mér. Ég kannski geri peysur úr tveimur eða einni og hálfri peysu og klippi þær til. Þegar ég kom í Rauða krossinn eitt sinn, þar sem verið var að sortera textílinn, sá þá hrúgur af ull og lopapeysum og hugsaði með mér; nú framleiði ég ekki meira af ull, heldur nota það sem til er. Svo er það hreint ótrúlega spennandi að leyfa þessu hönnunarferli bara að gerast. Ég lita þessar flíkur eða geri eitthvað sem gefur þeim nýtt líf. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Ég geri þetta með fleira hráefni en ullina en mjög mikið með hana og blanda henni jafnvel saman við eitthvert annað efni. Íslenska ullin er eðalefni og hún er einstaklega hlý. Ég hitti oft fólk sem á peysu eða einhver föt frá mér og segir: „Ég á peysu eftir þig sem ég er búin að eiga í 20 ár“. Það er dásamlegt að heyra það, peysurnar eru eiginlega lífstíðareign því efnið er svo gott.“
Vill nota lifandi efni og það sem þegar er til

Mynd: Sarah Lú.
Ásta segir að sér finnist betra að nota náttúruleg efni, eins og silki og ull af því þau séu lifandi og þá miklu meðfærilegri. „Það er hægt að breyta náttúrulegum efnum en pólýester og önnur gerviefni get ég eiginlega ekki notað, þau eru í eðli sínu svo dauð, það er hálfómögulegt að breyta þeim í eitthvað fallegt,“ segir hún og brosir.
Þú leitar mikið í nærumhverfið og náttúruna eftir efniviði, hver er hugsunin á bak við það? „Hugsunin er að nota það sem er í kringum okkur og er þegar til og svo er ég mjög hrifin af öllu náttúrulegu sem finnst í náttúrunni, eins og þara og þangi, auk hrosshára og nota það nú kannski meira í listaverk, en líka í hönnun, og það er svo mikið til af efni í kringum okkur sem við nýtum ekki, því miður. Ef við myndum aðeins líta meira í kringum okkur og nýta það sem til er, eins og fólk gerði áður fyrr. Það nýtti hlutina og gerði við föt og hluti en nú er öllu hent og keypt nýtt. Við erum komin mjög skammt á veg í þessum efnum og megum gera betur. Mér finnst mjög spennandi að nýta það sem er nú þegar til. Þetta eru líka efni sem endast mjög vel og það væri vel hægt að gera skúlptúra úr þannig efnum sem gætu verið úti. Hrosshár er mjög sterkt hráefni og í gamla daga þegar fólk bjó til dæmis til reipi þá notaði það hrosshár.“
Útlendingar glaðir að finna eitthvað sem er einstakt, rammíslenskt og á háu plani
Ásta hefur alltaf hannað skart og haft að með fatahönnuninni og segir það vera hálfgerða brú yfir í textílskúlptúra. „Ég hef verið að gera armbönd og hárnet og yfirleitt nota ég heklunál til að búa til alls konar hluti úr öllum mögulegum þráðum, vír og fleira. Sumir myndu segja að ég ætti erfitt með að fókusera á einhvern einn þátt en mér finnst svo skemmtilegt að gera þetta allt, mun skemmtilegra en að gera sama hlutinn oft þannig að ég er alltaf eitthvað að prófa mig áfram. Hitt á ekki við mig og í náminu reyndi ég að forðast kennara sem lögðu meiri áherslu á fjöldaframleiðslu, ég hef aldrei viljað fara þangað. Þannig að hver og ein flík sem ég hanna er einstök.“

Mynd: Sarah Lú.
Erfitt en skemmtilegt að vera hönnuður á Íslandi

Mynd: Sarah Lú.
Hvernig er að vera hönnuður á Íslandi? „Það er mjög erfitt en fólk í þessari grein þarf að geta verið sveigjanlegt og verið jafnvel í einhverju með. Sjálf hef ég verið að skipuleggja alls konar listviðburði og fleira. Ég tel mig vera mjög heppna að vera í slagtogi við konurnar í Kirsuberjatrénu því við styðjum hver aðra og skiptumst á að vera í búðinni að vinna. Ég rak vinnustofu og verslun í 10 ár á Laugavegi og það var mjög skemmtilegt. Hönnunin naut sín kannski betur þar en á móti kemur að það er erfitt að vera einn í svona rekstri og að hanna og skapa á sama tíma. Þannig að vera í samvinnu við aðra hönnuði er frábært. Við til dæmis lifðum covid-ið af af því við vorum svo margar og hjálpuðumst að. Þetta er ekki auðvelt starf en það er mjög skemmtilegt.“
Finnst þér Íslendingar vera móttækilegir fyrir íslenskri hönnun? „Það er svolítið sveiflukennt. Það er stundum „in“ að vera í íslenskri hönnun og stundum ekki og núna er það ekkert sérstaklega vinsælt. Það hafa komið tímabil þar sem fólk hefur verið meðvitað um íslenska hönnun og mikilvægi hennar og mér finnst að við mættum vera meðvitaðri um hana og styðja hvert við annað, svo ég sé hreinskilin, fólk mætti leita íslenska hönnun meira uppi. Það hefur allt breyst mikið og mér finnst áherslan sem var á íslenska hönnum um tíma vera svolítið horfin. Við megum vera stolt af okkar hönnuðum því þeir eru flottir. Stundum hefur verið rekinn svolítill áróður fyrir íslenskri hönnun og hönnuðum hjálpað en það þarf alltaf að gera það svo þeir hverfi ekki. Þegar útlendingar koma í Kirsuberjatréð þá eru þeir voða glaðir að finna eitthvað sem er einstakt, rammíslenskt og á háu plani. Þá langar ekki bara að finna eitthverja íslenska hluti heldur eitthvað sem er líka einstakt. Í Kirsuberjatrénu er alls konar íslensk hönnun á einum stað. Við fáum að heyra frá útlendingum hvað allt sé fallegt þarna en það er líka sérstök hráefnismeðferð sem einkennir hönnun í Kirsuberjatrénu, óvenjulegir hlutir og alltaf eitthvað nýtt. Búðin er í raun mjög falleg. Íslendingar hafa breytt verslunarvenjum sínum, fólk fer minna í bæinn og kaupir meira á netinu. Þetta er í raun ekki góð þróun en við erum með heimasíðu þannig að fólk getur séð og kynnt sér hvað er í boði. En auðvitað er alltaf best að sjá hlutina, koma við, máta og upplifa.“
Heimasíðan Ástu er: www.astaclothes.com og finna má hana á Instagram undir astacreativeclothes & astacreativeclothes_clothes en einnig á vef Kirsuberjatrésins: https://kirs.is/author/asta/
Myndir: Sarah Lú Instagram @weaving.time
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna