Ellert B Schram formaður Félags eldri borgara í Rvík og nágrenni skrifar:
Sæl þið öll, lesendur góðir. Sólin hækkar á himni og vorið nálgast. Veðrið er yndislegt þegar þetta er skrifað og það er eins og áður um ævina, að með batnandi veðri, sólskini, farfuglum og fegurð náttúrunnar, líður okkur betur og elskum lífið. Blómin springa út og grasið sprettur.
Ég settist fyrir framan sjónvarpið í síðustu viku og horfði á þáttinn um Martin Luther King. Það rifjaðist upp hvernig þessi guðsmaður gat breytt aldagömlu ástandi í Bandaríkjunum um stöðu þeldökkra borgara, sem reyndar kostaði hann lífið áður en yfir lauk. Hann beitti ekki vopnum, og valdi enga sökudólga, en röddin og ræðan hafði sín áhrif. Það er ekki lengra síðan en svo, að ég man vel eftir fréttunum um þessa barátta þeldökkra vestan heims, upp úr miðju síðustu aldar. Sem í rauninni var ótrúlega seint, þrælahaldið, óréttlætið og niðurlægingin réði ferðinni allt fram á seinni áratugi tuttugustu aldarinnar.
Nú er ég ekki að líkja þessu ástandi vestan hafs við eitt eða neitt sem Íslendingar hafa þurft að kljást við, nema þá kannske vistarbandið, allt fram á átjándu öld. Konur og almúginn fengu ekki kosningarétt fyrr en á tuttugustu öldinni. Svo var það auðvitað fátæktin, sem herjaði og ríkti á Íslandi, allt til okkar daga. Það var engin tilviljun að almannatryggingar voru settar á laggirnar fyrir tæpum hundrað árum. Tilgangurinn var og er ljós. Að tryggja eldra fólki fé til að eiga í sig og á. Allt frá því að tryggingarkerfið var stofnað, hefur verið hringlað með það og meira að segja skorið niður með frítekjumörkum, afnámi grunnlífeyris og furðulegum tilhneigingum til að halda þessum lífeyri í lágmarki.
Í byrjun þessa árs, strax í janúar, var farið fram á það við nýja ríkisstjórn, að skipa starfshóp til að rýna og laga, það greiðslukerfi sem nú er notað. Og hækka lífeyri og laun hjá þeim sem minnst hafa. Í byrjun marsmánaðar s.l. var samþykkt að hefja þá umræðu og vinnu. Blessuð sé sú ákvörðun.
En svo hvað? Ekkert. Engin nefnd, enginn umræða. Og tíminn líður. Kannske hefur ríkisstjórnin verið upptekin með fjármálaáætlun til framtíðar, 2025 og nú hefur verið kynnt. Þar eiga milljarðar að fara í hitt og þetta, sem ég geri ekki lítið úr. En hvergi sé ég eina einustu krónu sem á fara í vasa eldri borgara. Hefur það gleymst eða er það talið svo lítið að það taki ekki að nefna það? Við vorum ekki að biðja um neitt fyrir árið 2025, heldur strax.
Á hverju ári spretta blómin og grasið aftur til lífs. Sólin skín á okkur, á hringferð sinni, ár og daga. Náttúran og heimurinn líða áfram í krafti eilífðarinnar. En okkur, manneskjunum, er skammtaður tími og lífið er allt, meðan það varir. Við lifum og deyjum og hljótum að gera þá kröfu, að samfélagið leitist við að gera okkur kleift að njóta lífsins, að njóta ævinnar sem lengst. Okkur liggur á að lifa lífinu meðan það er.