„Í öllum grundvallaratriðum er ég sammála Franz páfa. Við þurfum virkilega að taka okkur á og nýta krafta eldra fólks betur,“ segir Þórey Dögg Jónsdóttir, formaður Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastdæma. Franz páfi ræddi um gamalt fólk í ávarpi sem hann flutti í Péturstorginu í Róm fyrir nokkrum dögum og greindi RÚV frá ummælum páfa.
Ellli meðhöndluð eins og sjúkdómur
Páfinn var ómyrkur í máli og sagði að væri dauðasynd að útiloka gamalt fólk úr samfélaginu. Aldraðir væru ekki geimverur, sjálf yrðum við gamla fólkið fyrr en seinna, þó menn vilji ekki hugsa þá hugsun til enda. Páfinn sagði að ellin væri meðhöndluð eins og sjúkdómur sem almenningur reyni að halda frá sér. Samfélag sem útiloki eldra fólk beri í sér merki dauðans og ef fólk læri ekki að annast og virða eldra fólk muni þeir hinir sömu hreppa það hlutskipti, þegar þeir sjálfir verða gamlir.
Vilja unga frekar en gamla
„Það eru miklir aldursfordómar í gangi í þjóðfélaginu og eldra fólki er ýtt til hliðar á vinnumarkaðinum. Stjórnendur fyrirtækja vilja oft frekar ráða ung og fallegt fólk en reynslumikið eldra fólk,“ segir Þórey Dögg „Stundum finnst mér hægt að líkja þessu við að menn ákveði að hætta að veiða þorsk af því að ýsan sé fallegri,“ bætir hún við. Að hennar mati er þetta sérstakt viðhorf, því eldra fólk mæti vel til vinnu og sé alveg jafngott til heilsunnar og yngra fólk. „Annars finnst mér stundum að það hafi örlítið dregið úr aldursfordómum frá kreppu. Kannski er það bara óskhyggja. Við eigum allavega gríðarlega langt í land með að virða eldra fólk eins og það á skilið,“ segir Þórey Dögg að lokum.