Ásdís Skúladóttir leikstjóri og einn stofnenda Gráa hersins flutti hátíðarræðu á baráttufundi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu sem haldinn var á Húsavík í dag. Hún fagnaði því að málefnum eldri borgara væri haldið á lofti með þessum hætti, það væru tímamót í sögu dagsins hér á landi – og hún sagði kröfu eldri borgara í Gráa hernum skýra.
Við krefjumst þess að fá sömu launahækkanir fyrir eldri borgara og lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði samdi um í nýgerðum kjarasamningum. Við viljum sömu hækkanir frá og með 1.apríl eins og aðrir hafa samið um.
Ásdís vísaði til landsfundar Landssambands eldri borgara sem haldinn var nýlega og sagði að þar hefði verið mikill baráttuvilji og hugur í mönnum. Þó margt gott hefði vissulega átt sér stað á síðustu árum og áratugum hefði á fundinum verið alger samstaða um að málin gengju of hægt fyrir sig og alltof oft hefði ekki verið staðið við gefin loforð gagnvart eldra fólkinu í landinu.
Í hinum nýja Lífskjarasamningi þar sem ýmsar kjarabætur komu fram í fjölbreyttu formi, er hvergi minnst á launakjör eldri borgara, enda komu þeir ekki að borðinu í þessum samningum. Af hverju er okkur skákað til hliðar? Hvers vegna eigum við ekki sæti við samningaborðið? Nei, við erum bara sett í nefnd sem skilar ekki af sér fyrr en undir jól – við þekkjum þessa nefnd vel.
Ásdís ítrektaði margsinnis í ræðu sinni að eldra fólk gæti ekki beðið lengur eftir réttlætinu. Hún sagði eldra fólk hætt að bíða og gerði að umtalsefni málaferli Gráa hersins sem nú standa fyrir dyrum – og sjóðinn sem verið er að stofna til að standa straum af kostnaði við málaferlin. „Þessi málssókn er hafin, vegna óréttlátra og yfirgengilegra tekjutenginga“ sagði hún og bætti við „Þessari málssókn er ætlað að fara „Alla Leið“ – upp eftir öllum dómsstigunum og enda fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassburg, ef með þarf. Við bíðum ekki lengur“
Því það er ósvinna og skammarlegt að okkur aldraða fólkinu sé haldið í fátæktargildru með óréttlátu, ónýtu og gatslitnu kerfi og yfirgengilegum skerðingum – og gera þannig þetta æviskeið lífsins að kvíðvænlegu hlutskipti fyrir fjölda manns. Sá sem er ungur í dag er gamall á morgun!
Fréttir berast af því að eldra fólk deyi á biðlistum hjúkrunarheimilanna – að heimilin séu undirmönnuð. Undirmönnuð! Það er rætt um að gamalt fólk teppi rúmin á hátæknisjúkrahúsunum; sé fráflæðisvandi. Undirmönnun! Amma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, mamma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, systir mín datt og brotnaði – hvernig skyldi ég brotna?
Það er vissulega ekki hægt að stinga Elli kerlingu af en það er hægt að storka henni vel og lengi með því að leggja áherslu lýðheilsu ungra sem aldinna. Lífsstíll okkar hefur mikið að segja um það hvernig við eldumst, hvernig matarræði okkar er, hvort við hreyfum okkur nóg og síðast en ekki síst hvort við höfum aura til að njóta almennra lífsgæða í hvunndeginum. Heilsan er allt í senn, andleg, líkamleg og félagsleg.
Ræðu Ásdísar í heild sinni er hægt að lesa með því að smella hér. Á vef Framsýnar stéttarfélags.