Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB skrifar
Megrun er orðið hálfgert bannyrði í líkamsræktarumræðunni. Ekki þykir lengur við hæfi að tala um að megra sig þegar fólk telur ástæðu til að minnka fitumagn líkamans. Samt þýðir sögnin að megra að verða magrari, eða leggja af. Sama máli gegnir með sögnina að grennast, hún á heldur ekki upp á pallborðið lengur þegar líkamsrækt ber á góma, en merkingin er sú sama, þ.e. að missa fitu.
Á sama tíma er mikil umfjöllun um þá heilsufarsógn samtímans sem stafar af offitu, margvíslegar skýringar gefnar á þeim vanda og vænlegar leiðir kynntar til úrbóta. Hins vegar er ekki vel séð að fólk megri sig, heldur að það bæti lífsstíl sinn og taki upp breytt mataræði, jafnvel þótt það sé bæði leynt og ljóst gert í því skyni að minnka fituforða líkamans.
Skýringin á þessari umræðuþróun kann að tengjast öllum þeim matar- eða sveltikúrum sem fólk hefur talið gefa góðan árangur til fituskerðingar í gegnum tíðina. Sem betur fer hefur þekkingu okkar miðað fram og núna vitum við talsvert meira um samspil og vægi næringar og hreyfingar í tengslum við holdafar og hreysti en við vissum áður. Við vitum að svelti er ekki raunhæf leið til að ná æskilegum holdum. Næring er öllum nauðsynleg, ekki síður þeim sem þurfa að missa fitu. Hreyfing og styrking vöðva á líka ríkan þátt í að auka fitubrennslu eins og sífellt er verið að sýna fram á og sanna. Sterkari vöðvar brenna betur, en það gefur auga leið að sé of miklu eldsneyti mokað í þá hafa þeir ekki undan.
Fæðan vegur því þungt, í orðsins fyllstu, þegar kemur að fitulosun og mataræðið skiptir hreinlega sköpum í þeim efnum. Það er ekki hægt að borða úr hófi og fara svo bara í ræktina til að losa sig við umframhitaeiningarnar þar. Til að haldast í heilbrigðum holdum þarf að tileinka sér þetta samspil mataræðis og líkamsræktar og það hefur margsýnt sig að skyndisveltikúrar henta ekki í þeim tilgangi.
Það er samt umhugsunarefni þegar ákveðin orð eru sett út af sakramentinu og þau sniðgengin án þess að hafa til þess unnið, sbr. sögnina að megra og nafnorðið megrun. Er eitthvað að því að segjast vera í megrun ef maður er að reyna að losna við fitu? Þó svo að margir hafi farið í óheppilega megrunarkúra er ekki þar með sagt að megrun sé af hinu illa. Megrun er ekkert annað en leið til að losa sig við fitu. Er eitthvað að því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum?