Guðrúnu Helga Sigurðardóttir skrifar
Bjarnheiður er 66 ára, fædd árið 1948 og alin upp í Kópavogi og til sveita á sumrin. Hún er líffræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og stundaði grunnskólakennslu í Árnessýslu og tók þá kennararéttindanám til viðbótar, áður hafði hún tekið sameindalíffræði. Eftir 11 ár í Árnessýslu flutti hún suður og fór að vinna við líffræðirannsóknir. Árið 1997 lauk hún doktorsprófi í líf- og læknavísindum. Bjarnheiður starfaði í 27 ár á tilraunastöðinni á Keldum en frá 2001 var hún líka aðjúnkt í rannsóknatengdu námi í Læknadeild.
Bjarnheiður byrjaði ung að vinna. Hún á þrjú börn en hefur fáa mánuði tekið í barneignaleyfi og alltaf unnið utan heimilis og unnið mikið, í raun verið í meira en 100 prósenta vinnu. Hún fékk rétt á 95 ára reglunni og fór þá að minnka við sig vinnu fyrir þremur árum. Gerður var samningur við hana til þriggja ára sem ekki var endurnýjaður. Henni bauðst þá að taka tímabundið við hálfu starfi kennslustjóra í rannsóknatengdu námi í læknadeild og ákvað að gera það.
Erfitt eftir kreppu
Bjarnheiður hefur verið í vísindarannsóknum og leiðbeint nemendum í meistara- og doktorsnámi. Hún hefur verið að ganga frá sínum málum síðustu mánuði, er nú með einn nemanda sem er á síðustu metrunum að ganga frá doktorsverkefninu sínu og rannsóknarverkefni sem hún er sjálf að leiða til lykta. „En annars stefni ég að því að vera í hálfu starfi til að byrja með, svo sé ég til,“ segir hún.
Það að vera í vísindarannsóknum og kennslu er mjög krefjandi. Bjarnheiður líkir því að vera marga mánuði ársins í próflestri auk þess sem því fylgi gríðarlegt utanumhald, afla þurfi til dæmis rannsóknastyrkja til að reka verkefnin. Hún segir að eftir kreppu hafi það verið erfitt.
„Ég á stóra fjölskyldu og mörg áhugamál. Ég fór að hugsa um að það væri réttara að fara að trappa sig niður í vinnu. Ég hef góða heilsu og hugsa um það að viðhalda henni sem lengst. Mér fannst þess vegna skynsamlegt að fara úr þessum farvegi. Það starf sem ég er í núna er skrifstofuvinna og utanumhald, þetta er ekki akademísk vinna en ég nýti vel mína akademísku þekkingu og reynslu og get hugað að því sem framundan er,“ segir hún.
Lifa innihaldsríku lífi
Bjarnheiður rifjar upp viðtal við Guðrúnu Finnbogadóttur sem 100 ára sagði frá því í viðtali að hennar sýn væri bara framtíðin. „Mín framtíðarsýn er sú að reyna að njóta mín og annarra og reyna að lifa innihaldsríku lífi,“ segir Bjarnheiður og ætlar að gera það meðal annars með reglulegri hreyfingu.
Bjarnheiður stundar hestamennsku og fer yfirleitt þrisvar í viku á hestbak. Hún fer líka í langar hestaferðir og finnst það gera sér gott, gengur líka mikið og er alltaf í leikfimi nokkra mánuði á ári, þó ekki þegar hún hefur hesta á húsi. „Ég hugsa um það að hreyfa mig reglulega og reyna að borða og drekka skynsamlega,“ segir hún og bætir við að hún sé samt þeirrar gerðar að hafa alltaf haft óskaplega gaman af þeim verkefnum sem hún hefur fengist við.
„Ég er sú forréttindamanneskja að hafa verið í vinnu sem líka er mitt áhugamál. Ég hef oft unnið miklu meira en mér hefur borið skylda til. Hjá mér er gleði fólgin í því að gera en það þarf ekki að vera launuð vinna,“ segir Bjarnheiður Guðmundsdóttir.