Nokkuð algengt virðist vera að ökuskírteini eldra fólks renni út án þess að það átti sig á því. Almenn ökuréttindi hér á landi þarf að endurnýja við 70 ára aldur. Eftir það gildir ökuskírteini í 4 ár. Að því loknu þarf að endurnýja það þriðja og annað hvert ár, en eftir 80 ára aldur á eins árs fresti. Engar tilkynningar eru sendar eldri borgurum til að minna þá á að ökuleyfi þeirra sé að renna út.
Ef meira en tvö ár líða frá því að ökuréttindi falla úr gildi verður að taka próf í aksturshæfni áður en réttindin fást endurnýjuð. Svanberg Sigurgeirsson, deildarstjóri ökuprófa hjá Frumherja, segir í samtali við Lifðu núna að talsvert sé um það að ökuleyfi eldri borgara renni þeim einfaldlega úr greipum. „Alls hafa 76 einstaklingar komið til okkar í próf í aksturshæfni af þessum ástæðum á árinu 2020 fram til dagsins í dag. Síðan eru sjálfsagt einhverjir sem treysta sér ekki í próf og eru því réttindalausir. Þannig að það er talsvert um þetta.“
Svanberg telur ekki ólíklegt að skýringin á þessu sé einfaldlega sú að fólk um sjötugt hefur í nógu að snúast og er að keyra út um hvippinn og hvappinn.
Ýmiss konar flækjustig
Ýmiss konar flækjustig virðast gilda um ökuréttindi eldri borgara. Ef umsækjandi er orðinn 65 ára eða eldri þarf hann að framvísa læknisvottorði frá heimilislækni þegar sótt er um endurnýjun á almennum ökuréttindum. Vottorðið má ekki vera eldra en þriggja mánaða þegar sótt er um. Heimilislæknir athugar m.a. sjón, heyrn og hreyfigetu ásamt öðru sem getur haft áhrif á aksturshæfni. Sú staða getur komið upp að læknir vilji ráðfæra sig við aðra lækna eða fagfólk eða ráðleggi að ekki skuli endurnýja ökuskírteinið.
Lögreglustjóri getur einnig ákveðið að fara skuli fram próf í aksturshæfni. Sú athugun er ekki venjulegt ökupróf, heldur athugun á öryggi í umferðinni þar sem prófdómari fer með umsækjanda í stutta ökuferð. Prófdómari skilar niðurstöðu í formi umsagnar til sýslumanns um hvort ökuskírteinið skuli endurnýjað óbreytt, endurnýjað með einhverjum skilyrðum, endurnýjað eftir að umsækjandi stenst próf í aksturshæfni eða ekki endurnýjað.