Lifðu núna, lífsstílsvefur danska ríkisútvarpsins birtir töluvert efni sem tengist lífi þeirra sem eru komnir yfir miðjan aldur. Í grein sem Dorthe Boss Kyhn skrifar á vefinn um það að eldast, byrjar hún á að spyrja Rudi Westendorp prófessor í öldrunarmálum við Kaupmannahafnarháskóla hvort aldur sé að verða spennandi eða „heitt“ efni á síðustu árum. „Það fer eftir því hvern þú spyrð“, svarar hann. „Ef þú spyrð ungt fólk segir það örugglega nei, en ef þú spyrð manneskju á sextugsaldri myndi hún svara þessari spurningu játandi. Skýringin er nokkuð augljós, því þegar fólk eldist neyðist það til að líta öðrum augum á aldurinn. Sjálfur get ég sagt að ég vil heldur verða gamall, en taka hinn valkostinn, sem er sá að vera ekki lengur á lífi“.
Hlutfall eldra fólks hækkar.
Fyrir 100 árum var meðalaldur Dana 40 ár, segir í greininni. Meðalaldur Dana er nú kominn í 80 ár og heldur áfram að hækka og fyrsta manneskjan sem verður 135 ára, er mjög líklega fædd.
Þetta kemur heim og saman við aðstæður á Íslandi þar sem fólki 67 ára og eldra mun fjölga um 58% á næstu 13 árum, eða fram til ársins 2030. Meðalaldur Íslendinga er núna rúmlega 80 ár. Konur lifa lengur en karlar og er meðalaldur þeirra á bilinu 83-84 ár.
Rudi Westendorp er 67 ára gamall Hollendingur. Áður en hann tók tilboði frá Kaupmannahafnarháskóla um prófessorstöðuna, hafði hann stundað rannsóknir á öldrun í Hollandi og sá fram á að hann gæti farið að hafa það náðugt. En á síðasta ári ventu hann og konan hans kvæði sínu í kross og hoppuðu út í það sem hann kallar þriðja þátt lífsins, þegar hann hóf störf við Háskólann í Kaupmannahöfn. „Ég held að stór hluti af því að eldast sé að halda áfram að takast á við ný verkefni, í stað þess að halla sér afturábak og stilla sig inná það sem hefur verið kallað þriðja aldursskeiðið. Ég trúi því að það sé eins konar þriðji þáttur í lífinu, sem menn þurfa að vera virkir í að skapa sér sjálfir“.
Aðstæður hafa breyst
Rudi Westendorp hefur vakið athygli fyrir bók sína „Kunsten at blive ældre“, eða Listin að eldast. Hún hefur komið út í nokkrum Evrópulöndum og selst í 70.000 eintökum. Hann gerir í bókinni upp við hefðbundnar hugmyndir um ellina. Þess vegna er svar Rudis við spurningunni í upphafi greinarinnar það, að aldur og elli fái nú þegar töluverða umfjöllun í fjölmiðlum og muni fá ennþá meiri umfjöllun á næstu árum.
„Þegar ungt fólk í dag hugsar um ellina, þá hugsar það yfirleitt um líf foreldra sinna eða afa og ömmu. En aðstæðurnar eru bara allt aðrar en þær voru þegar afi og amma voru að alast upp. Ungt fólk í dag getur búist við að verða 100 ára og þess vegna verður lífið og ellin hjá því allt öðruvísi en við höfum upplifað hingað til“, segir Rudi.
Aldur er ekki hindrun
„Það er ekki vandamál að eldast, en samfélagið hefur gert það að vandamáli. Þegar við horfum á eldra fólk hugsum við oft að elli og sjúkdómar séu sitt hvor hliðin á sama peningnum. En þetta hangir ekki endilega saman. Fólk í dag byrjar fyrst að eldast í kringum 75 ára aldurinn“, heldur hann áfram. „Aldur er spennandi efni um þessar mundir, því meðalaldur fólks hefur hækkað um fjögur til fimm ár með hverri kynslóð síðustu 150 ár. Það er áhugavert, því eldra fólkið í dag og í framtíðinni er ekki „byrði“ á samfélaginu og vill ekki láta líta þannig á málin“.
Eftirlaunaaldur er persónubundinn
Rudi Westendorp bendir á að sú skoðun tilheyri fortíðinni, að fólk eigi sjálfkrafa að fara á eftirlaun 65 ára. „Sú var tíðin að menn höfðu lokið sínu hlutverki og voru orðnir þreyttir þegar þeir voru 65 ára og gátu farið að taka eftirlaun. Á þeim tíma lifðu menn að meðaltali í 14 ár, eftir að þeir fóru að taka lífeyri.
Fólk sem er 65 ára í dag hefur hvorki lokið hlutverki sínu né er það farið að heilsu að sögn Rudis. Hann segir rannsóknir sýna að í hópi sjötugra, sakni þriðjungur þess að vera ekki lengur á vinnumarkaðinum, enda lifi menn nú að meðaltali í 20 ár eftir að þeir fari á eftirlaun. „Það eru því mörg góð ár eftir, og menn geta haldið áfram störfum á vinnumarkaði, svo fremi þeir veikist ekki af alvarlegum sjúkdómum. Þannig er ekki lengur ástæða til að allir fari sjálfkrafa á eftirlaun 65 ára. Það á að vera einstaklingsbundið hvenær menn hætta störfum og lykilorðið er sveigjanleiki, þannig að menn geti til dæmis unnið færri daga á viku þegar aldurinn færist yfir“.
68-kynslóðin vill ekki láta flauta sig út af vellinum
Rudi Westendorp bendir á að þeir sem tilheyra 68 kynslóðinni séu að fara á eftirlaun um þessar mundir. Þetta fólk tilheyri kynslóðinni sem gerði uppreisn gegn forpokuðum viðhorfum foreldra sinna og baðist meðal annars fyrir réttindum unga fólksins og jafnrétti kynjanna.
„Þessi kynslóð mun ekki sætta sig við það að þegar hún kemst á eftirlaun verði hún stimpluð „utangarðs“ eða „ómagar“ vegna þess að hún er ekki lengur hluti af vinnumarkaðinum. Hún var byltingarsinnuð og mun ekki sætta sig við að það sé litið niður á hana. Þessi kynslóoð mun krefast þess að hafa áfram áhrif á samfélagið og njóta lífsins“, segir Rudi.
Það sé nauðsynlegt að þeir sem eru að nálgast þriðja æviskeiðið, eða þriðja þátt lífsins eins og Rudi vill kalla það, haldi áfram að berjast, því annars muni viðhorf samfélagsins til þeirra sem eldri eru hreint ekki breytast. Hann segir að það sé ekki við því að búast að unga fólkið krefjist breytinga fyrir þá sem eldri eru. „Þau hafa ekki ennþá reynsluna, eru á öðrum stað í lífinu og vita ekki hvað það þýðir að eldast, þannig að það er eldri kynslóðin sjálf sem verður að breyta hlutunum“
Að vera stolt af að eldast
„Við eigum að vera stolt af að eldast. Á tímabilinu frá 65-75 ára, geta flest okkar vænst þess að eiga góðan tíma. Við getum verið virk og átt spennandi líf, áður en við verðum það gömul og veik að við förum að þurfa aðstoð annarra, en það kemur að því í lífi þeirra sem verða mjög gamlir“, segir Rudi og heldur áfram. „Auk þess sem samfélagið þarf að hugsa hlutina uppá nýtt, þegar kemur að eldra fólki nútímans, þá þurfum við líka fyrirmyndir. Það þarf eldra fólk sem þorir að taka af skarið og vísa veginn, fólk sem þorir að taka upp ný baráttumál. Menn þurfa líka að líta í eigin barm og hugsa, hvað ætla ég að gera þessi góðu ár þangað til ég verð 75 ára, hvað langar mig að gera, bæði fyrir mig og fyrir samfélagið“ segir Rudi Westendorp.