Þegar barnið þitt er einstætt foreldri

Á vefsíðunni grandparents.com skrifar Laura Broadwell grein um hversu miklu máli það skiptir fyrir einstæða foreldra, að foreldrar þeirra aðstoði við uppeldi barnabarnanna. Laura ákvað sjálf að ættleiða barn ein, þrátt fyrir að hún gerði sér grein fyrir hversu erfitt það væri. En hún vissi að hún gat treyst á ást og stuðning foreldra sinna og að þau myndu hjálpa henni í þessu erfiða verkefni. Hún gefur þeim foreldrum, sem eiga uppkomin börn sem eru einstæðir foreldrar, eftirfarandi ráð, hafi þeir áhuga að leggja sitt af mörkum og hugsanlega geta þau einnig nýst íslenskum öfum og ömmum.

  1. Spyrjið barnið ykkar hvernig aðstoð kemur sér best. Einstæðir foreldrar þurfa yfirleitt að samræma mun fleiri hlutverk og skyldur en foreldrar sem ala börnin sín upp saman. Þeir eru þess vegna þakklátir fyrir alla þá aðstoð sem afi og amma geta veitt. Það er mjög skynsamlegt fyrir afa og ömmur að spyrja börnin sín(einstæða foreldra) hreinlega út í það hvers konar aðstoð kemur þeim best og reyna síðan að vera eins sveigjanleg og kostur er. Stundum hafa einstæðir foreldrar mesta þörf fyrir að fá frí frá börnunum. Stundum þarf að skutla þeim í eða úr skóla. Sagt er frá afa í greininni, sem ekur langar leiðir á hverjum mánudegi til að sækja afastelpuna sína í skólann, þannig að móðir hennar geti átt frí eftir vinnu. Afi fylgist með litlu stelpunni þegar hún sinnir heimanáminu og þau borða svo saman kvöldmat – á meðan mamma slappar af. Hlutverk afans hefur breyst eftir því sem afastelpan eldist, en þau hlakka til þessara mánudagsstunda og það gerir mamman líka, enda gott að slaka aðeins á í kapphlaupinu við klukkuna og eiga stund fyrir sig.
  2. Sýnið að ykkur sé treystandi. Hvort sem þú býrð í næsta nágrenni við barnabarnið þitt, eða hinum megin á landinu, vertu raunsæ þegar kemur að loforðum. Lítil börn þurfa öryggi og það þurfa einstæðir foreldrar þeirra líka. Börnum einstæðra foreldra er það afar mikilvægt að geta treyst fullorðna fólkinu í kringum sig. Það er þess vegna betra að lofa einhverju smáu og standa við það, en ætla sér um of og ráða svo ekki við það. Ef þú getur ekki farið með barnabarnið þitt í sund í hverri viku, taktu að þér að gera það einu sinni í mánuði. Ef þú býrð langt í burtu, lofaðu að hringja einu sinni í viku, eða senda tölvupóst, bara til að láta í þér heyra og skipuleggðu svo lengri heimsókn þegar aðstæður leyfa.
  3. Haldið ykkur við sömu reglur og barnið býr við heima. Stundum finnst afa og ömmu að þau þurfi að taka á sig hlutverk foreldrisins sem býr ekki hjá börnunum. Þau fara að siða þau til og beita þau aga eftir eigin höfði. Það getur verið erfitt fyrir barn að upplifa mismunandi reglur frá fullorðna fólkinu sem það umgengst mest. Stundum ganga þau líka á lagið og fara að nota þetta misræmi til að ná sínu fram í samskiptum sínum við fullorðna fólkið. Ömmum og öfum er ráðlagt í greininni að nota sömu aðferðir og dóttirin eða sonurinn beita í sínu uppeldi. Hvort sem það er að barnið fari í háttinn klukkan 8 á kvöldin, eða að það fái ekkert sælgæti á heimilinu. Með því að bakka börnin þín upp í foreldrahlutverkinu og  fá barnabörnin til að hlýða reglunum, leggur þú þitt af mörkum til að halda samkomulagið í fjölskyldunni og sýnir börnunum þínum jafnframt að þú ert fær um að sjá um barnabörnin á sama hátt og þau gera sjálf.
  4. Verið jákvæð. Ef þú þarft að ræða viðkvæm fjölskyldumál við barnið þitt eða ef þú hefur eitthvað neikvætt að segja um fyrrverandi maka dóttur þinnar eða sonar, gerðu það í einrúmi þannig að barnabörnin heyri ekki til. Það er nefnilega ekki gott fyrir börn að heyra gagnrýni á þá sem þau elska. Börn einstæðra foreldra hafa þörf fyrir að sjá fjölskylduna sína í jákvæðu ljósi. Hvort sem foreldri er einstætt vegna þess að það hefur valið það sjálft, eða það hefur gerst við skilnað eða andlát, á að líta á fjölskyldu einstæða foreldrisins sem eðlilega einingu, ekki sem einhvers konar vandamál eða brotið heimili. Það er mikilvægt að afi og amma hjálpi til við að halda utanum þetta, ræði erfið mál við barnabörnin á eðlilegan og hlutlausan hátt og hjálpi til þegar nauðsyn krefur. Ef fráskilinn pabbi getur ekki komið með ömmustelpunni á feðrakvöld í skólanum, segið henni þá glaðlega að afi sé mjög spenntur að fá að fara með henni.
  5. Njótið góðu stundanna. Það besta við að afar og ömmur taki þátt í lífi barnabarnanna er að þau fá að deila með þeim ýmsum tímamótum í lífinu. Alveg frá því þau stíga fyrstu skrefin þar til þau útskrifast úr skóla. Amma sem býr langt frá ömmustelpunni sinni í Bandaríkjunum lýsir sambandi þeirra þannig. „Við sendum hvor annarri tölvupósta þannig að við vitum alltaf hvað er í gangi“. Og afinn sem hittir ömmustelpuna sína vikulega, reynir líka að komast á eins marga fótboltaleiki hjá liðinu hennar og hann mögulega getur.

„Það er oft einmanalegt að vera einstætt foreldri“, segir í greinini „en það er ómetanlegt að vera í góðu samandi við afa barnanna og ömmur“.

 

Ritstjórn desember 5, 2017 10:31