Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB skrifar
Rannveig Þorvarðardóttir fæddist árið 1892. Hún fluttist til Bandaríkjanna árið 1925 með seinni eiginmanni sínum, Adam Vilhelm Schmidt. Árið 1944 kom út bók hennar Hugsað heim. Í formálanum eftir Halldór Kiljan Laxness lýkur hann lofsorði á hve menningarleg Rannveig hafi verið og skarað fram úr kynsystrum sínum í þeim efnum. Rannveig lést í San Fransisco sextug að aldri árið 1952.
Rannveigu, líkt og Laxness, virðist hafa verið mikið í mun að reyna að siðbæta og fága samlanda sína. Í bókinni Kurteisi nefnir hún að sumir spyrji hvers vegna fara eigi eftir föstum reglum í umgengni og hvort ekki sé best að hver komi til dyranna eins og hann er klæddur í stað þess að fylgja „alls konar hégiljum“. Í svari sínu við þessum vangaveltum bendir Rannveig á mikilvægi þess að kunna að haga sér innan um annað fólk og að í raun sé kurteisi fólgin í því að taka tillit til annarra og meta það meira en það sem manni sjálfum finnst þægilegast og hentugast. Hún hvetur mæður til að kenna börnum sínum að losna við feimni og heimóttarskap, læra að hegða sér prúðmannlega og vera upplitsdjörf án allrar tilgerðar, blátt áfram og einarðleg í framkomu, því að þá séu meiri líkur á að þeim vegni vel.
Erfitt er að mæla á móti þessum hollráðum og eiga þau ekki síður við nú en þá, þótt feður mættu að sjálfsögðu líka leggja sitt af mörkum til siðbótanna. Bókin er eðlilega barn síns tíma og margar ráðleggingar sem eiga ekki lengur við sbr. hver eigi að kveikja í sígarettu fyrir hvern og hvernig kynin eigi að koma fram hvort við annað. Grunntónninn er hins vegar sannur og ljóst að Rannveig hefur viljað leggja sitt af mörkum til að bæta líf fólks.
Kurteisi og kroppsleg umhirða
Einföld áminning Rannveigar um að muna eftir að taka háttvísina með þegar við förum út úr dyrunum á heimili okkar er alltaf jafn þörf. Einnig mættu margir taka til sín ráð um að taka þrifabað daglega – líka þeir sem hafa „vatnsskrekk“ – og klæða sig á hverjum morgni „eins og þeir mundu verða fyrir slysi þann daginn“. Meiri háðung er vart hægt að hugsa sér en að hjúkrunarfólk verði vitni að sóðalegum nærklæðnaði manns og krímugum krikum.
Að kunna á síma
Rannveig er meðvituð um framrás tímans með öllum sínum breytingum. Sumt er jákvætt og nefnir hún að smátt og smátt hafi útvarpið og síminn breytt kurteisisreglunum í heiminum og gert samkvæmisreglurnar miklu auðveldari og einfaldari. Að mörgu er þó að gæta og brýnir hún fyrir fólki að muna þegar það talar í síma að viðmælandinn sjái það ekki. „Við segjum oft ýmislegt í gamni og brosum um leið … en sá sem er við hinn enda símalínunnar sér ekki brosið okkar.“ Vera má að skarpskyggni Rannveigar hafi stuðlað að tilurð broskarla og annarra tilfinningatákna sem sannarlega hafa leyst þennan samskiptavanda að hluta í seinni tíð.
Þótt tæknin hafi auðveldað líf okkar er ekki eins öruggt að Rannveig kynni að meta allar kurteisisvenjur nútímamannsins t.d. hvað varðar símanotkun á almannafæri. Einn ósið nefnir hún sem hefur augsýnilega ekki batnað í tímans rás með tilkomu tækninnar. „Við fyrirlestra sér maður oft skrítin fyrirbrigði – og oft ókurteisi. Ég hef séð fólk sitja með bók og vera að lesa í henni meðan einhver fyrirlesari hefur verið að tala. Það er ekki aðeins ruddalegt, en blátt áfram illgjarnt að gera slíkt.“
Afleitur handavandi
Í seinni tíð hefur athyglin góðu heilli beinst að því hve óviðeigandi athæfi dónakarla er. Til skamms tíma töldu margir að þeir væru að uppfylla karlmannlega skyldu sína með því að klípa og þukla kvenfólk líkt og hvern annan búpening, ásamt því að auðsýna margvíslegan og ólíðandi fruntaskap af öðru tagi. Vissulega er sá vandi ekki úr sögunni, en Rannveig kemur inn á þennan ósóma í kaflanum „Frussarar og annað“ þar sem hún gefur m.a. ráð „við áleitnum karlmönnum“. Þar nefnir hún dæmi um konu í sófa með eldri karli sem hefur „ungar tilhneigingar“ og fálmar utan í konuna „já, hefur afleitan handavanda“. Á þessum tíma var umræðan um kynferðislega áreitni varla á frumstigi. Rannveig ráðleggur konunni því að hvísla að dónanum að hún þori ekki að sitja hjá honum lengur, þar sem hann sé „allt of hættulegur“ og átti hann að taka því sem gullhömrum. Eins gott að styggja ekki siðleysingja á þessum árum.
Rannveig Schmidt var víðreist kona og náði góðu sjónarhorni á hegðun samlanda sinna jafnt og annarra. Hún ítrekaði að þótt sinn siður væri í hverju landi og víst að umgengnisreglur tækju breytingum í takt við tímann, þá héldist þörfin fyrir háttvísi og tillitssemi óbreytt um aldur og ævi. Því verður seint á móti mælt.