Blaðamaður Lifðu núna hélt hamborgarapartý í vikunni og ákvað, bæði til tilbreytingar og til að létta sér lífið að prófa að kaupa tilbúna hamborgaraveislu hjá Kjötkompaníínu í Hafnarfirði. Keyptir voru 20 hamborgarar með öllu og kostaði pakkinn 23.800 krónur. Það var mjög þægilegt að koma heim og þurfa ekki að gera neitt annað en leggja á borðið og setja hamborgarana á grillið. Það tók ekki langan tíma að slá upp veislu í þetta skiptið.
Það sem fylgdi með í pakkanum voru að sjálfsögðu hamborgararnir, hamborgarabrauðin, sósa, ostur og fallega niðurskorið grænmeti, tilbúið fyrir hvern hamborgara. Þetta var ótrúlega þægilegt og ekki bara það, maturinn var mjög lystugur og góður. Matargestir á öllum aldri voru samdóma um að það.
Kjötkompaníið selur grillveislur af ýmsu tagi. Hamborgararnir eru í tveimur stærðum, 115 grömm og 175 grömm. Svo er hægt að kaupa alls kyns grillveislur aðrar á mismunandi verði. Að auki selur Kjötkompaníið tilbúna rétti og súpur, sem einnig er hægt að fá í Krónunni. Kjötkompaníið býður eingöngu uppá hágæða hráefni og Jón Örn Stefánsson forstjóri segir að fyrirtækið vilji taka þetta ögn lengra og auðvelda fólki einnig eldamennskuna. „Það hefur mælst vel fyrir“, segir hann og segist veita því athygli að margir sem séu búnir að koma upp börnunum sínum, velji að kaupa tilbúna rétti frá fyrirtækinu. „Þar sem eru tveir í heimili er þetta bæði fljótlegra og þægilegra“, bætir hann við.
Jón Örn segir að fyrirtækið vilji leggja sitt af mörkum til að draga úr matarsóun. „Við skerum kálið, tómtana og rauðlaukinn þannig að það megi taka það sem þarf á hamborgarann með einu handtaki. Þá þarf fólk ekki að kaupa kálhaus fyrir þrjá og láta 70% af honum skemmast í ísskápnum“, segir hann. Það er hægt að panta grillveislur og hamborgarapartý hjá Kjötkompaníinu í gegnum heimasíðu fyrirtækisins eða í gegnum síma og um helgina er til dæmis búið að panta grillveislur fyrir um 4000 manns, en það er að vísu óvenjulega mikið. Þá er líka hægt að fá hráefnið í grillveislurnar sent heim, ef óskað er eftir því.