Besti plokkfiskurinn

 

Fá lönd í heiminum eru jafn háð hafinu  og Ísland. Frá því fyrstu landnámsmennirnir settust hér að hefur nálægðin við hafið haft áhrif á samfélagið. Flestir kusu að setjast að í nálægð við sjó enda var þangað mikið að sækja og fólkið byggði afkomu sína á því sem þaðan kom. Segja má að allar íslenskar fjölskyldur hafi tengst hafinu á einhverjum tímapunkti þótt nú sé farið að fyrnast yfir þá sögu og unga fólkið vilji oft ekki borða fiskinn. En við sem eldri erum kunnum að meta hann og hér er uppskrift að  sérlega góðum plokkfiskrétti en hugmyndin er fengin af vef Norðanfisk. Plokkfiskur er einn af þeim mörgu réttum sem upphaflega var afgangamatur en er nú orðinn sælkeramatur og er orðinn svokallaður tískuréttur. Með honum bera margir fram bernaise sósu sem er nýjung sem forfeður okkar hefðu ekki látið sér detta í hug með afgangamat. En viti menn, það er bara mjög gott.

800 g þorskur/ýsa

½ laukur, skrældur og saxaður

2 lárviðarlauf

50 g smjör

3 msk. hveiti

200 ml mjólk

100 ml af vatninu sem fiskurinn var soðinn í

1/2 teningur kjúklingakraftur

½ tsk. hvítur pipar og 1 tsk. salt

300 g kartöflur, skrældar og skornar í teninga

100 – 200 g rifinn ostur

Setjið fiskinn ásamt lauknum og lárviðarlaufunum í pott með köldu vatni og fáið upp suðu, takið síðan af hitanum og setjið til hliðar. Bræðið smjör og bætið hveitinu út í og hrærið vel saman. Hellið mjólkinni út í og setjið með 100 ml af vatninu sem fiskurinn stendur í og hrærið vel saman. Bætið kjúklingakraftinum, saltinu og piparnum út í og fáið upp suðu eða þar til sósan er orðin vel þykk. Sigtið fiskinn (passa að hafa laukinn með) og bætið út í sósuna ásamt kartöflunum og blandið vel saman. Smakkið til með salti og pipar. Setjið í eldfast mót, látið ostin yfir og hitið í ofni þar til osturinn bráðnar og berið fram.

Berið fram með seyttu rúgbrauði og smjöri og svo er hægt að kaupa bernaise sósu tilbúna í verslunum og bera fram með þessum eðalrétti. Verði ykkur að góðu.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 5, 2021 13:15