„Svartar plastumgjarðir hafa verið áberandi og þær verða áfram í tísku. Það er hálfgerð „nördatíska“ í gangi,“ segir Helga Kristinsdóttir, sjóntækjafræðingur og eigandi Eyesland í Glæsibæ. Gleraugnaflóran er sem fyrr fjölskrúðug og margt í gangi.
Vinsælustu gleraugun
Ömmugleraugu eru alltaf vinsæl. Spangirnar eru gjarnan gegnsæar ljósbleikar eða ljósgráar. „Þetta byrjaði með Buddy Holly gleraugunum. Þau hafa hins vegar þróast og stækkað síðustu mánuði og misseri. Það muna sjálfsagt flestir eftir risastóru gleraugunum sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti gekk með þegar hann var kjörinn forseti fyrir fjórtán árum. Þannig gleraugu eru aftur komin í tísku,“ segir Helga sem bætir við að konur á öllum aldri vilji svona gleraugu ekki bara unglingar. „80 ́s tískan er alls ráðandi og ungar stelpur vilja lík gleraugu og ömmur þeirra gengu með á sínum tíma, gleraugu með stórum spöngum og gjarnan í ljósum litum. Strákarnir vilja gleraugu eins og Jón Gnarr notaði þegar hann var unglingur og fram undir tvítugt. Það hafa margir séð myndir af honum með þessi gleraugu og nú þykja þau töff,“ segir Helga.
Gleraugu til skiptana
Í dag er hægt að fá gleraugu á 20 til 25 þúsund krónur. Margir eiga því tvenn, þrenn eða fleiri gleraugu. Enda gaman að geta skipt um útlit með lítilli fyrirhöfn eða skipta um gleraugu eftir því hvernig skapi fólk er í. „Það er mikið um að fólk kaupi sólgleraugu með styrk. Það má segja að það sé nauðsynlegt fyrir fólk sem gengur með gleraugu að staðaldri að eiga ein slík,“ segir Helga. Svo eru það felugleraugun þau eru sígild. Margir kjósa þau því þeir teljað þau gangi við allan fatnað, spari jafnt sem hverdags. Felugleraugu eru án spanga og fólki finnst gjarnan að það sé ekki eins áberandi að það sé með gleraugu ef það notar þau.