Vöðvamassi minnkar með aldrinum, jafnvægisskynið versnar og fólk á erfiðara með að samhæfa hreyfingar sínar. Líkurnar á því að detta og meiða sig aukast því jafnt og þétt með hækkandi aldri. En hér eru góðar fréttir fyrir þá sem eru að eldast og hafa gaman að því að dansa.
Á vefnum Your Care Everywhere segir að nýjar rannsóknir leiði í ljós að dans viðhaldi vöðvamassa við, bæti liðleika og jafnvægisskynið batnar. Fólki hættir síður við að detta. Þeir sem iðka dans eiga að auki síður á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma.
Það virðist vera nokkuð sama hverskonar dans fólk iðkar. Það er heilsusamlegt að dansa sama hver dansinn er. Dans virðist ekki bara hafa jákvæð áhrif á líkamlega heilsu hann bætir andlegu hliðina líka. Fólk sem dansar reglulega er glaðara í sinni og dansinn bætir félagsleg samskipti þeirra við aðra og mataræðið verður betra.
Fólk sem er farið að tapa sér andlega getur haft mikla ánægju af dansi. Á hjúkrunarheimilum þar sem fólk fær að dansa verður fólk jákvæðara og samskipti milli heimilismanna batna. Það virðist ekki skipta neinu hvort að fólk dansar í stólunum sínum eða hvort það hefur líkamlega burði til að fara út dansgólfið, líðan þess batnar og gleðin eykst.
En þó að rannsóknir bendi flestar til að dans auki líkamlega færni þá virðist dans ekki hafa meiri áhrif á vitsmunalega getu fólks umfram aðra hreyfingu. En ef fólk er að leita að einhverju nýju og skemmtilegu til að gera ætti það að íhuga alvarlega að dansa, sama hvort það dansar eitt heima á stofugólfi eða það fer og dansar við aðra eða með öðrum.