Vantar ekki meiri peninga

,,Ég er búinn að vera hér frá níu í morgun, oft er þetta fullur vinnudagur,“ segir Magnús Sædal Svavarsson fyrrverandi byggingarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, sem hefur ekki setið auðum höndum frá því hann hætti störfum þar 66 ára gamall.  Blaðamaður Lifðu núna hitti hann í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsbæ, þar sem hann stýrir framkvæmdum fyrir Samhjálp, sem er að endurnýja og byggja við aðstöðuna þar, en Hlaðgerðarkot er meðferðarheimili fyrir vímuefnaneytendur.  Magnús sýnir blaðamanni húsið og nýju aðstöðuna sem er glæsileg.  Stór samkomu- og fundarsalur, fullkomið eldhús, geymsluaðstaða og líkamsræktaraðstaða á jarðhæðinni, en á efri hæð er verið að útbúa herbergi fyrir 30 manns, öll með sér baðherbergi. Magnús hefur verið Oddfellowi í rúm 33 ár og vinnur fyrir Samhjálp í sjálfboðavinnu.

Maður með reynslu

Magnús var byggingarfulltrúi Reykajvíkurborgar í næstum tvo áratugi, en hjá embættinu voru starfsmennirnir uppundir 20 þegar mest var, enda höfðu þeir eftirlit með öllum byggingarframkvæmdum í Reykjavík. Áður hafði hann unnið hjá byggingardeild borgarverkfræðings í 10 ár og var meðal annars byggingarstjóri Borgarleikhússins og stýrði endurbyggingu Viðeyjarstofu og kirkjunnar í Viðey. Hann er því maður með reynslu. Hann hætti í starfi byggingarfulltrúa árið 2011 en hafði raunar ætlað að hætta þremur árum fyrr, enda gat hann hætt á 95 ára reglunni. „En þá var embættið að flytja sig á milli húsa , þannig að tækifæri skapaðist til skipulagsbreytinga sem ég hafði áhuga á að framkvæma, þannig að ég hélt áfram“, segir hann. En samhliða var hann farinn að stýra framkvæmdum við Líknardeildina í Kópavogi í sjálfboðavinnu, en það var Oddfellowreglan sem fjármagnaði þær.

Stjórnendur fyrirtækja vilja  láta gott af sér leiða

Magnús lét af stöfum sem byggingarfulltrúi og fleiri verkefni sem tengdust Oddfellow tóku við, svo sem endurbætur og stækkun húnsnæðis Ljóssins á Langholtsvegi og fleiri verkefni sem tengdust samtökunum. „Fyrir réttum tveimur árum hafði svo framkvæmdastjóri Samhjálpar samband við mig og spurði hvort ég væri fáanlegur til að taka að mér byggingarstjórn hér og ég sló til.  Samhjálp efndi til söfnunar árið 2016 og þá tókst að gera sökkla og reisa bygginguna. Verkið gekk hins vegar hægt vegna fjárskorts og væri stopp ef Oddfellow reglan hefði ekki lagt fjármuni í það. Það tókst að koma byggingunni undir þak og setja glugga í hana. Fjárstuðningur Oddfellowreglunnar hefur tryggt framhald verksins en auk þeirra hafa fjölmörg fyrirtæki lagt málinu verulegt lið. Það er ánægjulegt að vita af því að margir stjórnendur fyrirtækja vilja láta gott af sér leiða í samfélaginu og gera það. Ég veit um fleiri verkefni sem það gildir um“, segir hann.

Minningarreitur um Holdsveikraspítalann

Þótt Magnús hafi þannig stýrt byggingaframkvæmdum í sjálfboðavinnu, eftir að hann fór á eftirlaun, segir hann að það hafi ekki endilega verið hugmyndin að gera það  þegar hann hætti að vinna. En það var leitað til hans og annað verkefni sem bíður, er að grafa upp undirstöðuveggi Holdsveikraspítalans í Laugarnesi. Það voru danskir Oddfellowar sem gáfu spítalann fyrir um 120 árum „með manni og mús“ eins og Magnús orðar það.  Með tilkomu hans tókst að kveða niður holdsveikina á um 80 árum, en síðasti holdsveikisjúklingurinn dó árið 1979. Stétt íslenskra hjúkrunarkvenna varð einnig til þegar spítalinn tók til starfa hér, en þá gegndu eingöngu konur hjúkrunarstörfum. Þessari gjöf vilja íslenskir Oddfellowar sýna virðingu. Þar sem spítalinn stóð verður sýnilegur minningarreitur og upplýsingaskilti um hann.“ Ætlunin er svo að afhenda hann borginni til varðveislu og viðhalds, segir Magnús“.

Hefur gaman af verklegum framkvæmdum

En hvernig stóð á því að Magnús var tilbúinn til að taka að sér svo umfangsmikil störf á eftirlaunum án þess að fá greitt fyrir það? „Það er þrennt sem kemur til“, segir hann. „Ég hef gaman af að vinna og gaman af verklegum framkvæmdum. Í öðru lagi  finnst mér gott að geta látið gott af mér leiða og í þriðja lagi þarf ég ekki meiri fjármuni. Mig vantar ekki peninga. Svo má alls ekki gleyma,  að eitt af því sem gerir mér kleift að gera þetta, er að ég er við góða heilsu. Það má ekki vanþakka, því menn gefa sér hana ekki sjálfir“, segir hann.  Hann býst þó við að fara að sinna fleiri áhugamálum þegar árin líða.  Hann tók nefnilega nokkra kúrsa í sagnfræði í Háskóla Íslands um það leyti sem hann var að ljúka störfum hjá borginni. Þar tók hann nokkra kúrsa sem nýtast honum í að leita heimilda, kynna sér þær og meta, því hann hefur mikinn áhuga á sagnfræði og  ættfræði. „Ég er alltaf að nota þetta, því ég er að taka saman niðjatal langalangafa míns og ömmu. Frá þeim eru komnir á sjötta þúsund afkomendur. Þau voru presthjón í Sauðlauksdal og eignuðust 15 börn. Hann var fæddur árið 1777“, segir Magnús, sem er kvæntur Vilborgu Gestsdóttur. Hún starfaði sem bankamaður og síðast sem ritari á lögfræðistofu og er komin á eftirlaun eins og hann. Þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn.

Nýi salurinn er glæsilegur og útsýnið yfir Mosfellsdalinn frábært

 

 

Ritstjórn maí 24, 2019 07:41